Innra með öllum er demantur

Happy girl

Ég var stödd í kassaröðinni í ónefndri búð um daginn.

Á undan mér var falleg stúlka sem var dökk á hörund ásamt vinkonu sinni sem var ljós á hörund. Þegar röðin kom að þeim bauð afgreiðslumaðurinn á kassanum góðan dag á ensku og sagði svo upphæðina á ensku líka. Unga stúlkan brosti og bauð góðan dag á góðri íslensku og bað um kvittun. Afgreiðslumaðurinn roðnaði og áttaði sig á því að hann hafði ákveðið að hún væri útlensk þar sem hún var dökk á hörund.

Þessi uppákoma fékk mig til að íhuga hversu oft við ákveðum eitthvað út frá því sem við sjáum í stað þess að sjá hvað raunverulega er.

Nokkrum dögum seinna var ég ásamt einni sem er mér kær og hún verður svona kjánaleg og segir við mig. “Nei þú hefur pottþétt ekki áhuga en ég ætla samt að spyrja þó ég viti að svarið sé nei”.

Ég leit á hana og sagði bíddu ertu ekki að ákveða eitthvað fyrir mig núna?

Hún áttaði sig á þessu og spurði mig hvort ég hefði áhuga á að koma með henni á Hnotubrjótinn, sinfónian og ballet. Ég geri hana orðlausa þegar ég upplýsti hana um það að ég elskaði Tchaikovsky og það væri örugglega gaman að upplifa ballet.

Þetta var stórkostleg sýning.

Ég hef oft lent í þessu að einhver hafi ákveðið að ég væri svona eða hinsegin, að ég hafi áhuga á þessu og hinu og að líf mitt sé svona eða hinsegin. Eflaust höfum við flest upplifað það einhverntíman og ég hef staðið mig að því að dæma.

Oft hef ég heyrt fólk dæma utangarðsfólk hart út af lífstíl þeirra og útliti en þetta fólk er fólk sem villtist af leið og oftast vegna einhverra sjúkdóma. Það er ekki endilega slæmt og oft eiga þau fjölskyldur sem elska þau það gleymist líka. Þetta eru feður, mæður, dætur, synir og svo framvegis.

Ég hef í mörg ár vandað mig við að dæma ekki fólk og hef orðið betri og betri í því með árunum. Ekki síst af því ég er svo heppinn að vinna með allskonar fólki. Þetta fólk hefur einmitt kennt mér að sleppa dómara hlutverkinu.

 

Sem ráðgjafi hef ég það að leiðarljósi að hver manneskja kemur inn til mín sem óskrifað blað, engin dómur vegna útlits eða einhvers annars.

Ég hef líka lært það í starfi mínu að allir hafa óslípaðan demant innra með sér og það er fátt meira gefandi en að sjá þennan demant skína skært hjá einstaklingum sem eru að vinna sig frá erfiðleikum, þessi demantur er sjálfið þeirra sem fer að skína skært. Þennan demant er líka að finna hjá utangarðsfólki, það hef ég fengið að sjá.

Leitumst við að gefa fólki færi á að sýna okkur sig áður en við dæmum, við gætum séð eitthvað svo óendanlega fallegt í viðkomandi.

Kærleikur til ykkar

Kristín Snorradóttir

Heimasíða Sterk saman og Facebook.

SHARE