Ísland vermir nú 4 sætið: Velferð mæðra og barna þeirra hrakar lítillega samkvæmt árlegum Mæðrastuðli Save The Children

Velferð íslenskra barna og mæðra þeirra hefur farið lítillega aftur undanfarin ár, ef marka má tölfræðilegar upplýsingar sem er að finna í nýútkominni ársskýrslu samtakanna Save The Children, en samkvæmt tölum er Ísland – sem áður vermdi fyrsta sætið – nú fjórða öruggasta ríki heims fyrir börn og mæður þeirra.

Þær tölfræðiupplýsingar sem teknar eru saman meta m.a. lífslíkur mæðra á meðgöngu og meðan á fæðingu stendur, tíðni ungbarnadauða, aðgengi mæðra að menntun og velferð barna í skólakerfinu, efnahagslegan stöðugleika viðkomandi ríkis og almenna möguleika kvenna á virkri þátttöku í samfélagslegum málefnum.

Norðurlöndin verma toppsætin að þessu sinni, að undanskilinni Danmörk, sem hafnar í 6 sæti en hollenskar mæður hrepptu fimmta sæti listans og gefa íslenskum mæðrum og börnum þeirra lítið eftir, en Ísland er í fjórða sæti velferðarskýrslunnar Save The Children.

 

Hér má sjá listann sem sýnir tíu helstu velferðarríki heims samkvæmt nýútkominni skýrslu: 

 

10 efstu snagit

Skjáskot tekið af vefútgáfu ársskýrslunnar: Mother Index (Mæðrastuðli) Save The Children

Nýútkomin ársskýrsla kemur nú út að fimmtánda sinni, en örfá lönd hafa náð að verma toppsætið. Þannig hefur Svíþjóð átta sinnum verið talið vera besta land heims fyrir mæður og börn þeirra, Noregur hefur fjórum sinnum náð því eftirsóknarverða markmiði, þá er þetta í annað sinn sem Finnland hlýtur þessa viðurkenningu og Sviss, sem nú hafnar í 12 sæti listans, hefur einu sinni í fimmtán ára rannsóknarsögu Save The Children verið talið eitt öruggasta landsvæði heims fyrir mæður og börn þeirra.

Hættulegustu landsvæði heims og þau ríki sem koma hvað verst út úr skýrslunni er öll að finna á meginlandi Afríku en hér ber að líta þau ríki þar sem velferðarsjónarmið er lúta að börnum og mæðrum þeirra eru að nær engu höfð:

Þetta eru tíu hættulegustu landsvæði heims fyrir börn og mæður þeirra: 

tíu verstu löndin

Skjáskot tekið af vefútgáfu ársskýrslunnar: Mother Index – (Mæðrastuðli) Save The Children

Þá eiga öll þau ríki sem telja má hættulegust velferð mæðra og barna þeirra það sameiginlegt að liggja sunnan við Sahara eyðimörkina og eru þriðja heims ríki, en stjórnvöld hafa hreint út sagt ekki bolmagn til að leggja út fjármuni fyrir heilbrigðisþjónustu barna né styðja við menntakerfið, svo tryggt verði að öll börn megi eiga kost á grunnmenntun.

Í skýrslunni kemur einnig fram að 15% sómalskra barna lætur lífið áður en þau ná fimm ára aldri, en til samanburðar má geta að 0.3% finnskra barna nær ekki fimm ára aldursmarkinu. Þá njóta sómölsk börn að öllu jöfnu 3 ára skólagöngu, meðan finnsk börn ganga að meðaltali í skóla í ein 17 ár.

Frekari upplýsingar um velferð barna og mæðra þeirra í öllum helstu ríkjum heims má lesa um HÉR 

SHARE