Íslensk kona segir frá: Lenti í alvarlegu atviki sem var þaggað niður

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is. Ef þú vilt deila reynslu þinni í Þjóðarsálinni, mátt þú endilega senda okkur póst á hun@hun.is og saga þín verður birt. Þú ákveður hvort hún eigi að vera nafnlaus eða ekki. 

Mig langar að segja mína sögu af slysi sem hafði „engar afleiðingar“ og var þ.a. l. aldrei talað um. Ef ég sagði frá þá var ég að ljúga vegna þess að þetta var ekki til í sjúkraskrá minni. Ég hef verið að ganga til sálfræðings í 5 ár og núna fyrst er þessi saga að opnast fyrir mér og ég skil að ég má segja frá og það er eitthvað að hjá mér.


Það tók mig næstum því 50 ár af lífinu mínu og langa úrvinnslu erfiðra tilfinninga og upplifana að finna til og mega segja frá, ekki þessi þöggun og alls ekki skammast sín. Bæði að skrifa og birta þessa grein þar sem ég segi frá, án þess að fá í magann og eða finna taugakerfið nötra af ótta við áliti annarra. Þetta er fortíðin mín sem ég upplifði.

Frásögn af brunanum 1975


Í febrúar lok árið 1975 var ég í Skátunum. Við vorum saman komnar við skóla nokkrar stúlkur á aldrinum 12 til 13 ára. Við áttum að læra að gera varðeld, kveikja eld og elda. Það var rigning svo skátaforingjarnir okkar höfðu keypt 5L sprittbrúsa til að geta kveikt eld. Þetta voru engar venjulegar kennsluhugmyndir, það vantaði timbur, pappírinn og steinahleðslu til að halda utan um eldinn. Sprittinu var eingöngu hellt beint á stéttina fyrir framan anddyri skólans, því þar var skjól fyrir rigningunni. Skátaforingjarnir voru ungar og fallegar stúlkur sem nokkrir aðkomudrengir voru hrifnir af, og þurftu þeir því að vera með mannalæti.


Við byrjuðum að kveikja eld, en þetta var nú ekki eldur heldur sprittlogi sem við vorum að grilla pylsur og brauð á. Þessir yndislegu drengir voru að stríða skátaforingjunum eins og unglingar gera og annar drengurinn tók sprittbrúsann, brúsin var ekki með tappanum á. Drengurinn hljóp í burtu frá okkur með brúsann og annar skátaforinginn byrjaði að elta viðkomandi. Hann fór um víðan völl, út á götu, yfir í næstu lóð svo kom hann inn í garðinn þar sem við vorum, en garðurinn er afmarkaður með grindverki. Hann kemur í áttina að okkur og það er þverbiti í grindverkinu sem hann hljóp á og við höggið þá missti hann brúsann úr höndunum og við horfðum á sprittbrúsann fara í loftköstum upp í loft og koma niður með stútinn niður að eldinum og svo kom mikil sprenging og bál. Við hentumst frá vegna þrýstings frá sprengingunni ca 2 til 3 m og lágum flest öll á jörðinni. Við stóðum upp og vorum að átta okkur á hvað hafði gerst en þá rétti ein stúlka út hendina og höndin var með bláan loga og ég setti höndina á henni í hennar eigin handakrika.


Svo fann ég mikinn hita upp eftir fótleggjunum og leit niður. Þá var ég sjálf logandi á báðum fótum þessum bláa loga. Það sem fer í gegnum minn huga er „hvar eru djúpir pollar sem ég get slökkt á mér?“ Ég byrja að finna poll, henti mér niður byrjaði að velta mér upp úr þeim pollum sem voru þarna, eins og hundur og örugglega hef ég öskrað eins og brjálæðingur. Krakkarnir voru að reyna ná mér til að hjálpa mér en ég var mjög dugleg að velta mér upp úr þeirri bleytu sem var á götunni. Svo sá ég að eldurinn var alltaf að færa sig ofar og ofar á báðum fótum, svo ég tók með báðum höndum utan um annan fótinn fyrir ofan hné, til að stoppa eldinn í að fara lengra upp eftir fætinum og annar drengurinn gerði það sama með hinn fótinn. Hendurnar á okkur loguðu en svo komu margar hendur og hjálpuðu að slökkva eldinn. Þegar hann var slökktur þá stóðum við upp og vorum mjög ringluð. Þá kom stúlka með bala fullan af vatni og spurði hvað ætti að gera við vatnið? Við fórum að hlæja. Ég hef ekki hugmynd hvað þetta tók langan tíma eða hvort einhver hafi heyrt í okkur, en það var engin sem hringdi á lögguna eða sjúkrabíl. Við vissum svo sem ekkert hvað átti að gera. Ég bjó upp í Breiðholti og þetta var vestur í bæ. Jú ég átti frænku sem bjó ekki langt frá og nokkrar stúlkur voru á hjóli svo þær reiddu mig til hennar.

Vinkonan hélt utan um hana


Þegar við komum þangað þá voru þau að fara í bíó með dóttur sinni og ég reyndi að segja þeim hvað hefði gerst og lyfti upp buxunum, sem voru alveg heilar, þannig að það sást ekkert utan á mér að ég hafði orðið fyrir eldi. Mér fannst það. Þegar ég lyfti upp buxunum þá hrundi niður skinnið af mér og ég sá í kjöt. OK ég var ekki alveg heil. Eiginmaður frænku minnar hringdi upp á slysó og þeir sögðu þeim að koma með mig og til að skoða málið. Buxurnar virtust vera heilar á þessu augnabliki og það virtist allt vera í lagi. Ég fann ekkert fyrir einu eða neinu.

Við fórum í bílinn og góð vinkona mín kom með okkur. Hún hélt utan um mig allan tíma og talaði við mig í rólegum tóni. Hún var sú eina sem tók utan um mig í þessu ferli og talaði um allt annað en þetta sem hafði gerst og ég er henni afar þakklát fyrir. Ég hafði ekkert grátið.

Fékk hvorki vott né þurrt og engin verkjalyf


Þegar við komum uppá Borgarspítala þá löbbuðum við öll inn og ég settist á gluggakistuna við gluggann, vinkona mín settist hjá mér og frænka og hennar maður fóru inn að afgreiðsluborðinu fyrir innan hurðina. Allt í einu komu tveir stæðilegir menn hlaupandi með börur á milli sín og hlupu út og engin var að pæla í hvað er um að vera. Svo komu þeir inn aftur og sögðu „það er engin fyrir utan slasaður,“ og fara spyrja okkur um “hvort að við vissum eitthvað um brunasjúkling“. Jú það var víst ég og ég gekk sjálf inn að sjúkrabekknum með sterku ljósi yfir og lagðist á bekkinn og það var byrjað að skoða málið.
Ég var tekin úr buxunum, man ekki hvernig og skoðað og jú byrjað að kæla með vatni. Svo var ég sett á stól með bala fyrir fæturna og svo var lak sett í balann og sett svo á hnén á mér. Það varð annað slys um svipað leyti og þeir þurftu að nota bekkinn svo ég var sett inn í einhverja geymslu inn af þessu rými, rýmið var geymsla fyrir hluti. Ég sat þar ein og engin var með mér eða talaði við mig. Ég var ekki með bjöllu til að láta vita af mér eða nokkuð. Þarna var ég farin að detta inn og út úr meðvitund. Ég byrjaði að kasta upp (hef ekki borðað pulsur síðan) á gólfið. Gólfið var undirlagt og ég reyndi af veikum mætti að láta vita af mér. Það hlýtur einhver að hafa komið inn því ég var drifin upp á bekkinn aftur og byrjað að meðhöndla mig. Á meðan þessu stóð þá fékk ég hvorki vott né þurrt og engin verkjalyf. Ég var orðin mjög kvalin.

Með alvarleg sár á báðum fótum


Þegar ég var komin upp á bekkinn voru komnar blöðrur á annan fótinn og þær voru sprengdar. Það voru ekki blöðrur á hinum fætinum en það var ekkert skinn og hann var mun dekkri. Allt var hreinsað og svo settar grisjur á báða fæturnar, yfir og undir og allt í kring og svo var ég sett í gifs upp í nára á báðum fótum og send heim. En ég heyrði þegar frænka mín var að tala við lækni sem sagði að ég væri örugglega að fara að enda í hjólastól því fæturnir væru mjög illa farnir. (Það stóð ekkert um þetta í sjúkraskýrslunni minni.)


Jú ég fékk að vita ég væri með 2. stigs bruna á öðrum fæti og 3. stigs bruna á hinum fætinum frá hné og niður undir iljar og tær og smá bruni á höndum. Hermannaúlpan sem ég var í bjargaði mér frá meira líkamstjóni, en buxurnar voru með brunagötum og sokkarnir voru bráðnaðir. Skóna hef ég ekki séð síðan.

Ég var send heim og það var sagt, að þar sem ég væri barn þá finndi ég ekki mikið til og þ.a.l. þarf ekki að gefa mér verkjalyf eða þ.h.

Var haldið niðri af fjölda hjúkrunarfræðinga

Á öðrum degi þurfti að fara með mig niður á slysó. Ég var orðin viðþolslaus af kvölum og pirringi svo mamma fór með mig. Ég er sett inn í skoðunarherbergi og þar er byrjað að taka gifsið af, sem var ákveðinn léttir. En svo var byrjað að pilla grisjurnar af fætinum, draga þær eða rífa af eins og plástur sem er fastur við skinnið, en grisjurnar voru frá miðju læri og niður undir iljar. Það var helvíti!! Ég öskraði þegar byrjað var á fyrstu og í staðinn fyrir að stoppa þá var fengið fleira fólk til að aðstoða við að halda mér niðri. Sitthvor hjúkrunarfræðingurinn á hendurnar, tveir til að halda búknum og tveir til að halda fótunum á mér. Grisjan var rifin af, fyrst af hægri fæti og svo af þeim vinstri. Ég var ekkert deyfð og þetta var allt gert með valdi. 12 ára barn átti bara að taka þessu, sem ég gerði. Ég öskraði, því þetta var mjög sárt. Mamma mín hafði orð á því eftir á að hún hafi skammast sín fyrir hvernig ég „hagaði“ mér og svona mætti aldrei gerast aftur.

Þegar allt var búið nú þá voru aftur settar grisjur og gifs yfir og ég send heim. Þetta var gert við mig á tveggja til þriggja daga fresti í 4-6 vikur. En ég var farin að gera þetta sjálf eftir nokkur skipti. Á meðan á þessu stóð fékk ég engin verkjalyf, engin deyfilyf, ekkert samtal eða nokkuð.

Það sem var erfiðast í þessu ferli er hvað ég var afskipt eins og ég væri ekkert slösuð og það væri ekkert að mér, fékk enga eftirfylgni, enga sjúkraþjálfun, enga sálfræðiaðstoð. Enginn talaði við mig um slysið og ég fékk enga aðstoð við að koma mér á fætur aftur. EF ég reyndi að tala um þetta slys þá var ég bara sussuð niður. Ég fékk mikið af martröðum öskraði af öllum sálar kröftum hverja einustu nótt í mörg ár og foreldrar mínir vissu ekkert hvernig átti að meðhöndla svona áfall, þannig að þau slógu mig utan undir til að vekja mig upp. Ég þróaði með mér að sofa stutt í einu 2-3 tíma í senn og geri enn í dag.

Hefur verið algjörlega ein í endurhæfingu

Fyrir slysið stundaði ég dans, sund, íþróttir, frjálsar og handbolta. Ég reyndi að fara stunda allt aftur og skildi ekki hvað ég væri kraftlaus, var ekki alveg með stjórn á fótunum, illt í hnjám og ökkla. Ég spurði, en engin voru svörin því það var ekkert í sjúkraskrám sem studdi mitt mál og ég væri bara að ljúga. Mér var sagt að stunda sund sem væri svo gott fyrir líkamann. Þegar ég fór í sturtu áður en ég fór ofan í laugina þá fékk ég neikvæð viðbrögð og aðkast vegna útlitsins á fótunum. Ég sjálf kom ekki við fæturna á mér. Þegar ég var ca 20 ára í einni ferðinni í sundlaugina þá heyrði kona hvernig var talað við mig og hún stóð með mér og sagði við „að bera á mig laxerolíu“ það gæfi húðinni styrk. Ég gerði það reglulega í ca. 15- 20 ár. Ekki fékk ég aðstoð sjúkraþjálfara svo ég þjálfaði mig með kraftlyftingum til að fá vöðva á fæturna aftur, það voru engin fagaðilar sem leiðbeindu mér, ég bara gerði. Ég fékk vöðva og húðin var sæmileg. Hvort ég gerði rétt eða rangt hef ég ekki hugmynd en allavega er ég ennþá upprétt, en ég finn ekki mun á heitu og köldu á fótunum. Ég má heldur ekki reka mig í því þá fæ ég svöðusár og fæturnir eru alltaf mjög kaldir viðkomu. Ef ég reyni á mig þá er eins og ég hafi gengið upp á hnjám og þar fyrir neðan er allt dofið.

Árið 1992 þá fór ég að leita að þessu skýrslum og eina sem ég fékk í hendurnar voru 2 setningar með stikkorðum, sem skrifaðar voru á servíettu eða klósettpappír. Annað fann ég ekki. Mér hefur ekki verið trúað að þetta hafi verið svona, svo á endanum þá hætti ég að segja frá eða kvarta því það er ekkert að mér og það hefur ekkert gerst því þöggunin er alger. Ég skildi ekki af hverju ég gæti ekki hjólað eða dansað (sem ég elskaði að gera) og ég spurði og alltaf voru svörin „hættu þessu væli, það er ekkert að þér. Þú ert ennþá með tvo fætur.“ Þessi svör fékk ég hjá heilbrigðisgeiranum.
Það er verið að tala um að það sé allt í sjúkraskránni og það sem þar stendur „er raunveruleikinn“ og það sem sjúklingurinn (ég) segi, er ekki verið að taka trúanlegt því það stendur ekki í sjúkraskránni. Allt mitt líf hef ég ekki skilið hvers vegna ég get ekki þetta eða hitt. Af hverju er ég með skrítið hitaskin, doða, eins og rakvélablöð renni um æðar mínar. Ég átti erfitt um gang, var alltaf að misstíga mig, detta um litla hluti og gat ekki hitt upp á gangstéttina. Átti erfitt að labba upp tröppur og hjóla. Ég fæ mikla vöðvaspennu (sinadrátt) bæði á daginn og næturnar.

Ef ég kvarta þá er alltaf sagt þú þarft að fita þig, þú þarft að grenna þig, þú þarft að borða hollara, þú þarf að labba meira, fara út að hjóla, þú þarft að þetta og hitt ………. en ekkert gerist ég er ennþá svona. Ég hætti að hugsa um þetta og beit á jaxlinn og hélt áfram sama hvernig mér leið.
Ég hef stundað yoga, sundleikfimi, pilates og venjulega leikfimi, en alltaf gefist upp vegna verkja. En alltaf prufa ég allt sem aðrir segja mér að prufa en alltaf er ég á sama stað, kraftlaus, verkjuð og upplifi mig sem aumingja. Í næstum 50 ár hef ég prófað nánast allt. Ég hef dagdreymt um að geta hjólað, frjáls, gengið fjöll og dáðst að útsýninu og gleymt mér í dansi. Þetta get ég ekki lengur. Ég hef alltaf reynt og ekki gefist upp en kvalirnar eftirá eru bara ekki þess virði.


Þegar ég lít yfir farin veg þá hugsa ég EF ég hefði fengið rétta meðferð í upphafi, stuðning, væri líf mitt öðruvísi?

Nafnlaust

SHARE