Íþróttaskór – hvernig á að velja þá?

Fæturnir okkar eru ólíkir, þess vegna þarf mismunandi skólag fyrir mismunandi fætur.

Það er mjög mikilvægt að velja skó sem henta fót- og hlaupalagi. Skórnir verða að hafa mikla höggdempun, því þyngdin niður í fæturna margfaldast við höggið í lendingunni. Bein, liðir, liðbönd, vöðvar og sinar styrkjast við þetta aukna álag. Á meðan líkaminn er að venjast álaginu og styrkjast, er hætt við alls konar álagsmeiðslum.  Það sem skiptir mestu máli er að kaupa sér skó sem henta fótlagi og niðurstigi.

  • Skórinn verður að vera nógu langur, ½ númeri lengri en venjulegir skór. Ágætt að koma putta fyrir aftan hælinn ef tærnar eru komnar fram í yfirleðrið.
  • Skórnir verða að vera nógu breiðir yfir tábergið.
  • Konur eiga að kaupa sérstaka kvengerð, sem eru þrengri í hælinn og víðari yfir tábergið og karlar sérstaka karlagerð sem eru ekki eins þröngir í hælinn og ekki eins breiðir yfir tábergið.
  • Skórinn verður að hafa góðan veltisóla.
  • Skórinn verður að vera stöðugur, þú átt ekki að geta snúið upp á skóinn.
  • Skórinn verður að vera með öflugan hælkappa.
  • Skórinn verður að hafa laust innlegg, þannig að hægt sé að skipta um innlegg í skónum og auka þannig endingu skónna. Eins er hægt að setja sérsmíðað innlegg fyrir þá sem þess þurfa.

Sjá einnig: Átröskun og íþróttir

Styrkingar í íþróttaskóm

Innanfótarstyrktir (motion control).

Henta vel þeim sem þurfa mikinn stuðning að innanverðu og þeim sem eru í þyngri kantinum (over pranation). Innanfótarstyrktir skór eru oft spelkaðir að innanverðu og svolítið klunnalegir í útliti.

Stöðugir (stability).

Henta þeim sem detta inn á við í skrefinu (pronation). Skórnir eru auðkenndir með gráu í millisólanum innanverðum, gráa svæðið er harðara en það hvíta. Oft mjög tæknilegir.

Utanfótar styrktir (supination).

Henta vel þeim sem eru með álagið mikið út á jarkann, skórnir eru oftast með polyurethane millisóla (er stífari en phylon) og þurfa að vera með mikla höggdempun. Þá, sem eru með þungann í niðurstiginu út á jarkanum (supinera), vantar dempun í fæturna.

Léttir íþróttaskór.

Geta verið styrktir að innan- eða að utanverðu, henta þeim sem eru að eltast við sekúndur og kannski mínútur. 100 gramma létting á skóm getur bætt tímann í maraþoni um 1% (2-4 mín.), en þeir fara miklu mun verr með líkamann. Alltaf búið að taka eitthvað úr skónum, s.s. stuðning eða höggdempun.

Grófir utanvegaskór (trail).

Yfirleitt betur vatnsvarðir en venjulegir íþróttaskór og með grófan ytri sóla sem gefur betra grip. Henta til hlaups utan vega og oft notaðir sem léttir gönguskór.

Venjulegir íþróttaskór (casual).

Eru notaðir í staðinn fyrir fínni skó, sandala og klossa. Þú færð samt öflugan hælkappa, stöðugan millisóla, veltisóla, góða dempun og oft styrkingu í millisólann.

 

Þrír megin flokkar af hlaupaskóm:

  • Innanfótar styrktir (motion control) sérstaklega stöðugir.
  • Dempun (cushioned) sérstaklega mikil höggdempun.
  • Stöðugleiki (stability) stöðugir og vel höggdempandi.

Innanfótar styrktir (motin control):

Mest styrktu skórnir eru fyrir hlaupara sem detta illa inn á við í skrefinu (over pronation), eru með slök liðbönd í ökklanum. Þeir skór sem eru mest styrktir eru oftast byggðir á beinan leista. Oft eru þessir skór stífaðir með spelku (medial post) í innanverðum millisólanum. Mest styrktu skórnir eru ekki með þykkan sóla, vegna þess að til að stöðugleikinn verði sem mestur, verður fóturinn að vera sem næst jörðinni. Skórnir eru oft með polyurethane eða stífuðu EVA í millisólanum. Ytri sólinn er oftast úr hertu gúmmí (carbon rubber), sem er endingarbetra en blásið gúmmí (blown rubber). Þeim sem nota mest styrktu skóna líður yfirleitt betur með sérsmíðuð innlegg. Skórnir eru djúpir og henta því vel fyrir sérsmíðuð innlegg.

Dempun (cushioned):

Þeir sem eru með stífan fót (oftast há rist) eða með álagið út á jarkann (oft hjólbeinóttir), þurfa hámarksdempun í stað stöðugleikans. Margir hlauparar í þyngri kantinum eru með stífan fót. Þessir hlauparar þurfa mikla höggdempun í skóna, skórnir eru oftast byggðir á boginn leista. Vegna þungans þurfa þessir hlauparar þykkan sóla. Niðurstigið skiptir líka miklu máli. Fyrir þá hlaupara sem stíga mjög fast í hælinn eða eru með fitupúðann undir hælnum lélegan (fitufylltur vefur undir hælnum sem tekur högg), skiptir miklu máli að vera með mjög öfluga dempun í hæl. Ef þunginn í niðurstiginu kemur mestur á miðhluta eða framhluta skónna, þarftu skó með öflugum stuðningi í millisólanum og þykkum framsóla (meiri dempun) .

Stöðugir skór (stability).

Stöðugir skór henta þeim sem þurfa stuðning að innanverðu, mýkt og góða endingu í sama skónum. Yfirleitt er millisólinn helmingi stífari að innanverðu (dual density).  Stöðugir skór eru yfirleitt byggðir á hálf-sveigðan skóleista. Hlaupahraðinn þinn og líkamsástand skiptir einnig miklu máli í vali á skóm. Því hægar sem þú hleypur, því meiri stuðningur og dempun þarf að vera í skónum vegna þess að fóturinn er lengur í snertingu við undirlagið í hverju skrefi.

Vitlaus hugsunargangur:

Ekki velja  ódýrustu hlaupaskóna heldur  öfluga skó sem henta  þínu fótlagi.

Hvernig átt þú að vita hvaða skó á að velja

Best er að skoða niðurstigið með því að fara á hlaupabretti.  Eins getur vanur sölumaður lesið heilmiklar upplýsingar úr gömlu pari af íþróttaskóm. Hann sér hvort skórnir halla inn (um 70% kvenna detta eitthvað inn á við í niðurstiginu og 60% karla detta eitthvað inn á við), sölumaðurinn sér einnig hvernig ytri sólinn er slitinn.

 

SHARE