Jólaminning frá árinu 1940

Það var kominn þriðji í jólum,  pabbi var aftur farinn að vinna, jólafríið hans búið og hvunndagurinn tekinn við. Úti er snjór og við förum í hversdagsfötin okkar. Og mamma er að elda. Hún er að elda fisk. Þessi kunna lykt- soðning og kartöflur fer nú um húsið í stað hangikjötslyktar sem hafði verið alls ráðandi. Það eru ekki alltaf jólin, börnin góð sagði mamma og fiskur á borðum fimm daga vikunnar er aftur orðinn veruleiki.

Við höfðum öll tekið þátt í jólaundirbúningum- hver eftir sinni getu.

Þú heldur kannski að mamma hafi bara rennt á bíl út í einhvern stórmarkaðinn og við höfum farið hlaðin heim af alls konar góðgæti?

Nei, það var ekki svona. Smáverslanir voru í flestum kjöllurum í húsunum sunnan megin við Laugaveginn, þar sem við áttum heima. Kaupmenn stóðu innan við búðarborðið og vigtuðu upp úr sekkjum hveiti, kannski ½ pund og 1 pund af sykri og hvað annað sem þurfti að ná í til heimilisins. Og mjög víða var fólk í reikningi, þ.e. úttektin var skrifuð í bók og svo reyndi fólk að koma um mánaðarmót og greiða reikninginn. Margt var það sem lítið var um þegar ég var barn. Fyrir jólin hurfu t.d.egg af markaðnum og rjómi var skammtaður. Við vorum þrjár, systurnar og mamma bað okkur að reyna að komast að hvort einhvers staðar væru til egg – svo að hún gæti bakað fyrir jólin. Við fóum búð úr búð og spurðum um egg en auðvitað fengum við engin egg þar því að kaupmenninrnir létu þau heimili sem voru í reikningi og mest versluðu fá þau fáu egg sem þeir fengu til dreifingar. Svona var þetta þá. Og svo var það rjóminn. Við áttum heima við Laugaveginn og í hverfinu  tvær mjólurbúðir og eitt bakarí þar sem líka var seld mjólk. Mjólkin var mæld upp úr brúsum með lítra eða hálfslítra máli en rjóminn var mældur með desilítramáli. Fyrir jólin var farið að skammta rjómann, fékk hver og einn 1 desilítra. Og þá hófst „hamstrið“  því að ekki var hægt að búa til jóladesertinn úr einum desilítra af rjóma. Daginn fyrir Þorláksmessu vorum við systur mættar í biðröð fyrir utan mjólkurbúðirnar og bakaríið, hver með könnu eða krukkur til að fá desilítrann af rjóma mældan í. Sumir fullorðnir reyndu að ýta okkur aftur fyrir sig  til þess að þeir fengju örugglega afgreiðslu fyrst en yfirleitt voru afgreiðslukonurnar góðar við okkur og afgreiddu okkur! Svo var hlaupið heim og farið í næstu mjólkurbúð og á þennan hátt tókst okkur alltaf að fá nægilegan rjóma í jóladesertinn.  Eggjaskorturinn leystist líka alltaf. Í Eskihlíð bjó bóndi sem hét Geir Gunnlaugsson. Býlið Eskihlíð stóð rétt fyrir sunnan þar sem síðar varð Miklatorg og er hluti af fjósinu notaður undir  úthlutunarstarfsemi Fjölskylduhjálparinnar í dag. Geir heyjaði tún sem faðir minn hafði  ræktað í Fossvoginum þar sem nú standa reisuleg einbýlishús og var hann afar ánægður sem samskiptin við föður minn. Þegar fór að líða að jólum var hann vanur að senda mjólkurpósitnn, hann Kristján með eggjapoka til mömmu og kom hann stundum fleiri en eina ferð með egg til okkar. Mikil var gleði okkar og enn finn ég fyrir þessari gleði og þakklæti þegar ég fer í búðina í dag, tek eggjabakka úr stæðunni og læt í innkaupakerruna hjá mér eins og ekkert sé!

Svo leið tíminn milli jóla og nýjárs og komið gamlaárskvöld. Ég vissi að álfar og huldufólk flutti á gamlaárskvöld og ég vissi líka að dýrin töluðu mannamál þessa einu nótt ársins. Mig langaði ákaflega mikið til að heyra dýrin tala en það gerðist ekki fyrr en um miðnætti. Ég bað um að fá að vaka til að reyna að heyra í dýrunum. Nú spyrð þú ef til vill hvort einhver dýr hafi verið við Laugaveginn?

Var þar nokkuð annað en íbúðir fyrir fólk, verslanir og kannske barir- eða hvað?

Þegar ég var stelpa, kringum 1940 var mikið um dýr við Laugaveginn. Þar sem Landsbankinn stendur nú var t.d. bæði hesthús og kindakofi á baklóðinni og beint á móti húsinu heima var hesthús. Á baklóðinni heima var kindakofi svo að nóg var af dýrunum. Foreldrar mínir sögðu að ég mætti  alveg vaka og freista þess að heyra í dýrunum. Svo að ég tók mér stöðu við gluggann sem snéri út að Laugaveginum, opnaði efri gluggann upp á gátt og beið í eftirvæntingu. Ekki veit ég hvað gerðist en man það næst að mamma var að leiða mig í rúmið. Hún sagði mér á nýjársdag að líklega hafi ég sofnað áður en dýrin fóru að tala, og ég skyldi bara reyna aftur um næstu áramót. Og stundum töluðu dýrin líka lágt svo að  erfitt væri að heyra í þeim. En ég skyldi bara halda áfram að tala við þau eins og ég hefði alltaf gert, þau skildu mannamál og það skipti miklu máli fyrir þau að vel og fallega væri talað  við þau.

Og með þessa vitneskju gengum við mót nýju ári.

Gleðilegt nýtt ár.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here