Jólasamviskubitið – Allt of algengt!

Já, það eru að koma jól. Það eru sko að koma jól!

Það eru komin dálítið mörg ár frá því að síðasta jólakortið fór út úr húsinu mínu. Mér flaug það fyrst í hug þegar ég hugsað með mér atriði sem tengdust jólasamviskubiti, þar sem venjan var að jólakortin voru yfirleitt það fyrsta jólatengda atriði sem ég byrjaði að hugsa um í desember.

Nú í dag skrifa ég nokkrar línur á facebook, þar sem ég óska öllum vinum mínum og ættingjum gleðilegra jóla, farsældir á komandi ári og þakka fyrir allt það liðna á aðfangadag. Ég lauma jafnvel einverjum myndum með í þá færslu til að hafa hana meira grípandi fyrir augað. Þar kemur samviskubitið í heimsókn, því einu sinni sendi ég fullt af jólakortum, út um allt land.

Þar sem ég er löngu búin að afskrifa jólakortin, þá er komið að bakstrinum. Ég verð ævinlega þakklát IKEA og öðrum sem útbúa tilbúið deig fyrir manneskju eins og mig til að kippa með mér þegar ég er í búðinni. Þar er hægt að sneiða niður nokkra bita í einu og henda í ofninn til þess að fylla íbúðina af dásamlegri jólasmákökuangan. Einu sinni bakaði ég nokkrar sortir.

Nú er komið að jólagjafakaupum. Ó, guð minn góður! Held að ég hundskammi sjálfa mig á hverju ári fyrir að hafa ekki verið byrjuð á þessu fyrr.

Sjá einnig: Samviskubit mæðra

Nýlega fór ég á Facebook og það fyrsta sem blasti við mér var “memories” af The Grinch, sem ég hafði sett inn á þessum tíma í fyrra í tilefni jólastressins. Það er engu líkara en að ég skokki ítrekað á vegg og strandi á sama atriðinu á hverju ári, en maður reynir sitt besta að aðlagast desember sem fullorðin manneskja.

Jólaskrautið flaug á sinn stað á 5 mínútum og það er ekki fræðilegur að ég festi vandlega upp jólaseríu með sogskálum, límbandi, krókum eða teiknibólum, því ef það hrynur niður, þá verður hún bara hanga þannig þar til milli jóla og nýárs. Það lítur alls ekki vel út, séð frá gangstéttinni og myndi eflaust kveikja í einhverjum tilfinningum innra með mér, sem ég væri annars til í að vera laus við. stundum hef ég tekið fram aðventukransinn minn á síðasta sunnudegi í aðventu og dundað mér við að kveikja á einu kerti í einu, svo þau verði misstór – Hver gerir það eiginlega?

the-grinch-netflix

Ég elska að gefa gjafir, að horfa á börn opna gjafirnar sínar, elska líka að fá gjafir, ég viðurkenni það alveg og það er um það bil það eina sem stendur uppúr um jólin. Mig langar alltaf að allir fái eitthvað frá mér sem þá virkilega langar í, svo ég spyr hvern einasta haus hvað þau langi í, sem leiðir til þess að ég þarf ekki að eyða tíma mínum í að labba um í búðum og vona að ég detti inn á eitthvað sem þeim gæti mögulega líkað og þau myndu kannski eða kannski ekki skila eða henda inn í skáp. Það verður bara að hafa það að gjöfin frá mér komi ekki á óvart en þá veit ég að minnsta kosti að þeim líkar við hana.

Sjá einnig: Stress hefur áhrif á allan líkama þinn

Áður en ég held áfram, þá held ég að það sé réttast að minnast á að ég er hárgreiðslukona, sem útskýrir kannski örlítið jólasamviskubitið. Ætli það eigi ekki sama við um annað fólk sem vinnur aukalega í desember, þessar stéttir sem sofna ofan í súpuskálarnar á aðfangadagskvöldi. Er ég ein um það að vera ekki beinlínis í stuði til að klæða mig í spariföt og dúbba mig upp til þess að vera inni með fjölskyldunni að borða jólamatinn?

Það sem ég er að meina með þessu er að samviskubitið og stressið tekur stóran bita af gleðinni. Hægt og rólega er ég að átta mig á því hvað jólin snúast virkilega um, eða er ég kannski að snúa þessu upp í eitthvað sem hentar mér betur?

Þurfum við að húsið okkar líti út eins og jólaland, þurfum við að ganga um með bros á vör, jafnvel rosalega hægt niður Laugarveginn eða inni í þessum tveimur verslunarmiðstöðvum sem eru hérna á höfuðborgarsvæðinu, staldra við og fá okkur heitt kakó og vöfflu með rjóma eins og í amerískri bíómynd? Geyma allir jólakortið frá þér og setja myndirnar frá þér í ramma? Gerist eitthvað ef þú og börnin þín fá ekki nýja brók um jólin eða ef þú ákveður að gera ekki fimm sortir af smákökum?

Sjá einnig: Elskaðu sjálfa/n þig

Jú, ég vildi svo sannarlega hafa meiri tíma aflögu í desember til þess að njóta, en vanalega þegar að jólunum kemur, þá er ég búin að gera allt sem skiptir mig mestu máli og ég er líklegast búin að átta mig á því að samviskubitið og stressið er alls ekki þess virði. Við gerum okkur upp óþarfa, sem leiðir til neikvæðra tilfinninga tengdar þessum tíma, sem ætti heldur að snúast um ást og umhyggju til náungans. Það eina sem ég mun skúra fyrir jólin er að skúra jólastressið út, henda ajax í tusku og henda á ofninn, svo húsið angi af hreingerningarlykt. Jóla-Grinch má bara fara aftur heim til sín þetta árið, því ég ætla að eiga gleðileg jól.

Endilega munið eftir þeim sem minna mega sín. Það eru sérstök jólatré til að setja litla pakka undir, sem flest okkar munar ekki um að gefa og endilega verum sérstaklega góð við hvort annað, því sumir eiga erfiða tíma um þessar mundir – Það er ekki hægt að setja verðmiða á góðmennsku.

SHARE