K100 verður GAY100 í einn dag

„Við viljum fagna margbreytileikanum í samfélaginu, styðja við réttindabaráttu hinsegin fólks og að sjálfsögðu gera eitthvað skemmtilegt í tilefni þessarar frábæru hátíðar,“ segir Siggi Gunnars, útvarpsmaður á K100.5. Í tilefni af gleðigöngu Hinsegin daga sem haldin verður á laugardag, verður öll dagskrá á stöðinni á föstudag miðuð að réttindabaráttu hinsegin fólks.

„Ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem útvarpsstöð gerir svona hér á Íslandi, að skipta algjörlega um gír í einn dag. Öllu efni á stöðinni verður breytt, logoið, stefin á milli laga, það sem stendur á skjánum í útvarpinu þínu o.s.frv. K100 verður hreinlega ekki til í einn dag,“ segir þessi hressi útvarpsmaður. „Þetta verður einstaklega lifandi dagur á stöðinni, mikill gestagangur og mikið fjör. Sigga Beinteins, Páll Óskar, fólk frá Hinsegin dögum og Samtökunum 78 hafa öll boðað komu sína ásamt fleirum.“

Mikilvæg málefni um réttindabaráttu samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og trans fólks verða rædd og mun K100 skarta öllum regnbogans litum þennan dag með frábærri dagskrá.

„Tónlistin verður líka aðeins í öðrum gír en venjulega, t.d. ætlum við að vera með Gay-Klassík kl 10 í stað hinnar vinsælu K-Klassík þar sem við munum spila svokölluð „gay anthem“ í heilan klukkutíma. Ég viðurkenni að það verður kannski smá steríótýpa í því“ segir Siggi og brosir.

K100 sendir út á FM 100.5 á öllu suður- og suð-vesturlandi, FM 93.9 á Akureyri, FM 100.5 á Ísafirði og FM 101.5 í Bolungavík. Einnig er hægt að hlusta í Sjónvarpi Símans og Vodafone, Digital Ísland og á vefnum á www.k100.is.

 

SHARE