Kæri þrjótur, þú sem keyrðir á bílinn minn!

Þessi mynd og texti gengur manna á milli á facebook:

Kæri þrjótur, þú sem keyrðir á bílinn minn þar sem honum var lagt kurteisislega á bílastæði, mölvaðir brettið og beyglaðir það einhvern veginn fast við framdekkið, og stakkst af vettvangi:

Takk fyrir að minna mig á að ég er enn ríkur í ástum.

Við eigum það líklega eitt sameiginlegt að fá brjóstsviða við tilhugsunina um viðgerðarkostnaðinn — og svona rétt fyrir jólin er það mér sönn ánægja að tilkynna þér að ég er námsmaður án vinnu, „lifi“ á loforði frá LÍN, og veit ekki hvernig ég á að borga viðgerðina.

Megir þú bryðja högl úr jólarjúpum, skera þig á jólapappír, tannbursta þig uppúr trélími, stíga berfættur á lego kubba, hnerrhósta brennheitu kaffi yfir aðfangadagsmatarborðið, renna á kaf í slabbpoll fyrir utan jólaboðið, gleyma veskinu á Gullnámunni, kaupa rándýrt lúsugt jólatré, klára gaskútinn, týna mikilvægustu jólagjöfinni, og umfram allt, sætta þig við að líf þitt verður aldrei jafn gott og mitt.

Ég vona samt að þú njótir jólanna. Ég veit nefnilega að karmavíkingasveitin er búin að kynda undir prumpuslímpottinum og er að reima á sig skóna.

Farðu í rassgat, að eilífu, amen.

thrjotur

 

SHARE