Kaflarnir í bókinni þinni

Okkur finnst viss afþreying í því að segja frá kaflaskilum. Margir þrá kaflaskil og aðrir forðast þau, en vita þó ekki að lífið skiptir yfirleitt sjálfkrafa um kafla í lífsbókinni þinni, hvort sem þú viljir það eða ekki. Við tökum stundum ekki eftir því þegar blaðsíðunni hefur verið flett og tökum frekar eftir þeim sem enduðu með spennuþrunga og jafnvel hádramatík.

Ef þú ímyndar þér líf þitt sem bók og byrjar á byrjuninni, áttu eftir að finna þig sem saklaust lítið og hjálparvana barn, sem lærir bæði það sem fyrir það er lagt og samblandast það síðan við persónuleg einkenni barnsins.

Fyrsti kaflinn er sá sem við munum vart eftir okkur, en margt gerðist á þeim kafla sem kenndi okkur svolítið fyrir framhaldið. Síðan kemur sá kafli, sem við munum fyrst eftir okkur. Það sem stendur kannski mest uppúr eru atvik sem kveiktu einhverjar tilfinningar, eða hafði áhrif á okkur sem elta okkur síðan fram í næsta kafla. Jafnvel eru margir litlir kaflar á þessum þroskastigum okkar sem elta okkur til dagsins í dag. Það getur verið slæm lífsreynsla sem gerði stóra rispu í hjartað eða viss gleði sem einkennist af dásemd ábyrgðarleysisins.

Næst koma unglingsárin og kaflaskilin velta á því sem gerðist og allar þær stórvægilegu breytingar sem áttu sér stað, skilja eftir sig góðan stimpil á blaðsíðurnar sem á eftir að lesa. Unglingurinn lifir eftir því sem hann lærði sem barn, hvort sem um ræðir góðar eða slæmar tilfinningar og mótast eftir því áfram inn í fullorðinsárin.

Nú eru fullorðinsárin mætt á svæðið og þú klórar þér í höfðinu og veltir fyrir þér hvernig manneskja þú átt að vera og hvernig manneskja þú vilt vera, en sumir átta sig hreinlega ekki á því að sagan um hvernig manneskja hún á að vera, er manneskjan sem hún var í upphafi og þar með er sagan löngu skrifuð. Það hljómar kannski of innantómt og einfalt svar, en það er samt sem áður rétt að svo mörgu leiti.

Við lifum lífi okkar sem fullorðnir einstaklingar og gerum okkar besta til þess að falla inn í mótin eða heildina, en í þessari heild virðist stundum ekki vera pláss fyrir “of áberandi” sérkenni. En samt sem áður er eins og að “dimmer” hafi verið settur á ljósið þitt og það brýst stundum inni í þér að þig langi til að vera eitthvað annað.

Sjá einnig: Andleg vanlíðan og líkamlegir verkir

Hvað er þetta annað?

Þetta annað er nefnilega þú! Þú í fyrsta kaflanum. Borið hefur á því að fólk fari aftur í tímann til að leysa vandamál sem valda þeim mikilli vanlíðan í dag. Það er eins og að það sé að greiða úr flækjum sem urðu á sálinni í einhverjum kaflanum í fortíðinni. Aðrir kjósa að loka á fortíðina og horfa aldrei aftur, en báðar aðferðirnar hafa sín takmörk.

Þegar við erum fullorðin er þroskastigum okkar í fræðilegri merkingu lokið. Breytingin sem verður á, er að við erum þá orðin okkar eigin yfirmenn. Mörgum finnst það erfiður kafli til að stökkva inn í og veltur það algjörlega á fyrri reynslu hvernig þér tókst til. Þú getur leitað aftur til að finna uppruna vanlíðunar sem hefur elt þig í áraraðir og mótað þig á verri veg en þú hefðir kosið og þú getur lokað á upplifanir sem eru of sárar til að takast á við til þess að halda áfram lífi þínu.

Hver einn og einasti kafli lífsins mótar okkur. Stundum tökum við ákvarðanir sem leiða okkur á aðra braut, hvort sem þær eru góðar eða slæmar, en oft á tíðum er eins og ákvarðanirnar séu teknar fyrir okkur. Leikurinn er til þess gerður að við lærum.

Sjá einnig: Kynferðisafbrotamenn í múgsefjandi smábæjum

Við getum horft á það þannig að hver ein og einasta lífsreynsla sem situr í okkur geri okkur að þeirri manneskju sem við erum í dag og þakkað fyrir allt það sem við höfum lært. Við getum líka farið til baka og tekist á við vandamál okkar og starað beint í andlitið á þeim, í þeim tilgangi að taka upp spottann þar sem við skildum við hann og gera okkur að þeim sem við áttum í upphafi að vera.

Mig langar til að segja að það taki stundum gríðarlegt hugrekki og kraft til þess að stara gömlu kaflana beint í fésið, en það er ekki að ástæðulausu að hugtakið “Þú kemst ekki í næsta kafla ef þú heldur alltaf áfram að lesa þann síðari aftur og aftur”,  hefur komist í fréttirnar. Ef þér líður eins og þú komist hvorki lönd né strönd, en líður samt eins og þú þurfir að komast áfram, þá er alveg spurning um að finna í þér smá púður til að takast á við það sem þér finnst miður í lífi þínu og orsök þess.

Kröfurnar í dag eru mjög miklar svo virðist sem ekki er mikið pláss fyrir sérkenni, en það sem þig grunar kannski ekki er að með því að láta þín einstöku einkenni skína, ert þú jafnvel að greiða veginn fyrir öðrum. Að vera einlægur og sannur við sjálfan þig opnar þú leiðina þína að nýjum kafla.

Við berum ábyrgð á lífi okkar og það er enginn sem sagði að það myndi ekki krefjast hugrekkis, vinnu á okkur sjálfum og innri krafts til að takast á við hlutina án ótta og hræðslu við afleiðingarnar.

Innsæi er stærsta orðið í orðabókinni, því þar er hjartað, tilfinningarnar þínar, aðstæðurnar þínar, fortíðin þín og barnið sem er inni í þér að tala við þig. Ofhugsanir, kvíði, vanlíðan, hræðsla, ótti við framhaldið, fortíðarþrá og of miklar væntingar til sjálfs þín eru tilefni til þess að skoða þig enn betur og stefna beina leið aftur á þann stað sem það byrjaði. Það sem þú græðir á því, er að þú kemst á brautina sem var ætluð þér til að byrja með.

Sjá einnig: Hvernig er þín ást?

Notaðu jákvæðnina til að loka gamla kaflanum og til þess að opna þann nýja fagnandi. Það er gott að hafa það hugfast að allir þurfa að ganga í gegnum bölvað puð og harka af sér til að komast yfir hraðahindranir og ef enginn gerir það fyrir þig eða að það hreinlega gerist af sjálfu sér, er gott að gramsa eftir smá hugrekki og gera ekki of miklar kröfur um fullkomnun.

Fullkomið líf, er stútfulla af öllu því fallega ófullkomna.

SHARE