Kardimommuhnútar

 

Á vefnum allskonar.is má finna alveg frábærar uppskriftir, hér kemur ein frá  Allskonar .

Sjúklega girnilegt!

Þú getur notað kanil í staðinn fyrir kardimommurnar í þessari uppskrift ef þú vilt hefðbundna kanilsnúða/hnúta.

Hnútana er einfalt að hnýta, deigið er smurt og svo brotið í tvennt. Þú skerð svo 1/2 cm ræmur úr deiginu. Hverja ræmu skerðu svo aftur í tvennt eftir ræmunni endilangri, tekur upp, snýrð upp á og hnýtir í hnút.
Uppskriftin er fyrir um 16 hnúta.

 • 40 gr smjör
 • 125 ml mjólk
 • 7 gr þurrger
 • 50 gr sykur
 • 1 egg, slegið saman
 • 320-375 gr hveiti( fer eftir stærðinni á egginu)
 • 1/2 tsk salt
 • 75 gr smjör, mjúkt
 • 1 tsk vanilludropar
 • 2 msk sykur
 • 2 tsk kardimommur, malaðar
 • smá mjólk til að pensla hnútana

Undirbúningur: 5 mínútur
Hnoðun og hefun: 100 mínútur
Bakstur: 12-15 mínútur
Byrjaðu á að bræða smjörið í skaftpotti, helltu þar næst mjólkinni út í og slökktu undir.
Settu þurrger og sykur í stóra skál og helltu mjólkinni með smjörinu út í. Láttu standa þar til gerið fer að freyða.

Sláðu egginu saman með gaffli í skál og hrærðu varlega út í gerblönduna, helltu henni svo hægt og rólega út í hveitið og hnoðaðu. Það er best að byrja á 2/3 af hveitinu og bæta svo afgangnum hægt og rólega saman við þegar er hnoðað. Ekki svindla á að hnoða vel, hnoðaðu í um 10 mínútur þar til deigið er mjúkt og teygjanlegt. Láttu í stóra skál og settu eldhúsfilmu yfir. Láttu hefast á hlýjum stað í 1 klukkustund.

Þegar deigið hefur hefast þá breiðirðu varlega úr því með kökukefli, það á að vera um 1/2cm á þykkt. Hrærðu saman smjörinu, vanilludropunum, sykri og kardimommunum og smyrðu jafnt yfir allt deigið. Brjóttu deigið saman og skerðu það í 1/2cm ræmur. Gott er að taka hverja ræmu og skera hana aftur í tvennt eftir endilöngu. Hver ræma er tekin, snúin og bundin saman í hnút. Settu hnútana á bökunarpappír á plötu og leggðu viskustykki yfir. Láttu hefast í 30 mínútur.

Hitaðu ofninn í 200°C á meðan hnútarnir hefast.

Þegar hnútarnir hafa hefast vel þá penslarðu þá með örlítilli mjólk og bakar í miðjum ofninum í 12-15 mínútur. Láttu kólna í nokkrar mínútur á bökunargrind.

Dásamlegir með köldu mjólkurglasi, kaffi – eða hverju því sem þér finnst best.

Sjá einnig:Ristaðar möndlur með kanil

 

 

SHARE