Kennir jóga með frjálsri aðferð

Évi Bácsi kennir óhefðbundna jógatíma í Sporthúsinu í sumar. Hún kynntist jóga eftir að hafa slasað sig illa í vinnu á íslensku kúabúi.

 

Hin ungverska Évi Bácsi, jóga- og ketilbjöllukennari, kom fyrst til Íslands fyrir um tíu árum og starfaði þá meðal annars á kúabúi þar sem hún slasaðist illa. Þegar hún var að jafna sig á meiðslunum fór hún að sækja jógatíma hjá Jóhönnu Karlsdóttur í Sporthúsinu og fann mjög fljótt hvað jógað gerði henni gott.

Jógað heillaði strax

„Jógaði hjálpaði mér að jafna mig á meiðslunum og sársaukinn dvínaði hratt, en ég hafði verið mjög kvalin,“ segir Évi sem byrjaði einnig að stunda ketilbjölluæfingar meðfram jóganu og árið 2010 fékk hún kennararéttindi í ketilbjöllum. En hún vildi læra meira og geta miðlað þekkingu sinni til annarra. Hún varð sér því út um jógakennararéttindi í Tælandi árið 2012. „Jógað heillaði mig alveg og ég hef lifað og hrærst í þessum heimi síðan ég kynnist fyrstu æfingunum.“

Síðan Évi fékk kennararéttindi hefur hún kennt jóga um allan heim, meðal annars á Íslandi fyrir nokkrum árum, en er nú komin aftur til landsins með spennandi æfingar í pokahorninu sem hún ætlar að kenna í Sporthúsinu næsta mánuðinn eða svo.

Lúmskt krefjandi tímar

Évi kann vel sig á Íslandi, enda á hún marga íslenska vini, eftir að hafa búið hér í sjö ár. Hún talar líka svolitla íslensku en segist þó vera feimin við það. „Það er mjög erfitt,“ segir hún feimnislega við blaðamann á þokkalegri íslensku, þegar hann hvetur hana til að æfa sig. Svo skiptum við aftur yfir í enskuna.

„Þó ég sé sjálf kennari þá er ég alltaf að læra eitthvað nýtt og ég er duglega að notfæra mér ýmsar nýjungar í tímunum sem ég kenni. Þá nýti ég mér ýmislegt úr ketilbjölluæfingunum þegar ég kenni jóga. Ég legg áherslu á að tímarnir mínir séu krefjandi en ég vil að þeir séu það á lúmskan hátt, þannig fólk átti sig ekki á því hve erfiðar æfingarnar eru. Mér finnst líka mikilvægt að tímarnir séu skemmtilegir.“

Les fólkið í salnum

Évi segist í raun kenna jóga með frjálsri aðferð og hún er aldrei búin að ákveða fyrirfram hvaða æfingar hún ætlar að fara í gegnum í hverjum tíma. Engir tveir tímar eru eins og fólk veit aldrei hverju á hverju það á von. „Þegar ég kem inn í salinn finn ég hvernig orkan er og les í fólkið. Ég reyni að miða æfingarnar út frá því hvernig ég upplifi fólkið á staðnum. Þess vegna skipulegg ég ekki tímana fyrirfram. Það getur verið mjög ögrandi fyrir fólk að vita ekki hvað það er að fara að gera, en ég vil helst fá fólk til að stíga aðeins út fyrir þægindahringinn sinn. Samt þannig að því líði vel. Fólk þarf bara að koma í tímana með opinn huga og sjá hvað gerist. Það er líka það sem jóga snýst um.“

Viðtalið birtist fyrst í amk, fylgiblaði Fréttatímans.

Mynd/Rut

SHARE