Klæddu þig við hæfi

Það getur vafist fyrir mörgum að velja sér fatnað fyrir vinnuna og við tókum saman nokkra punkta sem er gott að hafa í huga ef þú ert í einhverri óvissu.

img-la-femme-emmanuelle-alt_110041557079

Það er lang mikilvægast að þér líði vel í því sem þú klæðist. Þetta snýst ekki einungis um það í hverju þú ert heldur hvernig þú klæðist því. Það versta er að vera í fötum sem passa illa og sniðum sem fara manni ekki vel, það er óhjákvæmilegt að taka eftir slíku.

Þú vilt gæta þess að vinnufötin þín séu í góðu ásigkomulagi; engir lausir spottar, týndar tölur eða sjúskaðir skór. Ef þér er sama um útlitið getur fólk búist ósjálfrátt við því að þú gætir ekki að smáatriðum í vinnunni. Vertu snyrtileg sama hvað.

Ef þú ert mikil glamúrtýpa skaltu tóna þig örlítið niður, minnka skartið, fara í lægri hæla og vera ekki í allt of djörfum fatnaði.

 

 

Ef þú ert andstæða glamúrtýpunnar og virkilega látlaus skaltu vera með „statementpiece“ eins og fallega tösku til þess að koma í veg fyrir leiðinlegt heildarútlit.

Minna er meira þegar kemur að förðun. Undirstrikaðu fegurðina sem er til staðar og bættu við örlítilli skyggingu eða fallegum tóni af varalit. Æpandi partíförðunin getur beðið fram á kvöld.

Reyndu að farða þig og klæða í góðri dagsbirtu. Förðunarvörur geta átt það til að plata mann ef þær eru settar á í vondri birtu. Það langar engan að vera ein og illa skyggð gulrót. Sumar flíkur verða einnig gegnsæjar í dagsbirtu.

Hælaskór gera mikið fyrir líkamsbygginguna svo veldu þér par af klassískum hælaskóm sem þú átt auðvelt með að ganga í. Við útilokum þó alls ekki flatbotna skóna.

Screen Shot 2015-03-09 at 11.03.35

Gættu þín á trendum ef þau eru ekki vinnustaðarhæf, nú nema þú sért að vinna í tískubransanum. Reyndu að komast að því hvernig starfsfólkið á vinnustaðnum klæðir sig. Sumir vinnustaðir eru afslappaðri en aðrir svo það er mikilvægt að aðlaga skápinn svolítið ef þú ert að byrja að vinna á nýjum stað.

Ef þú ert á leiðinni í atvinnuviðtal skaltu þó klæða þig eins vel og þú getur frekar en að velja eitthvað hversdagslegt. Dress to impress!

Sjálfstraust er aðlaðandi eiginleiki og þinn besti fylgihlutur svo aldrei skilja það eftir heima. Það fer öllum vel.

Þessa punkta er gott að hafa til viðmiðunar en veittu þér þó frelsi til að fylgja þínum persónulega stíl og vera samkvæm sjálfri þér, svona upp að vissum mörkum allavega.

Smelltu hér til þess að lesa nýjasta tölublað Nudemagazine!

nude-logo-nytt1-1

 

 

Tengdar greinar: 

Tískuslys vikunnar: Hárlengingar hrynja úr Britney Spears á sviði

16 stórfurðulegar myndir frá tískuvikunni í New York

Úr spandexgalla í pífubuxur – Ofurhetjur klæðast aftur í tímann

SHARE