Konan sem átti húsið sem Anne Heche keyrði á, fer í mál

Konan sem átti hús sem eyðilagðist í banaslysi leikkonunnar Anne Heche, hefur höfðað mál til að fár greitt úr dánarbúi leikkonunnar. Slysið átti sér stað 5. ágúst og lá hún í dái í 6 daga áður en hún lést.

Anne var aðeins 53 ára þegar hún lést og kom í ljós í blóðprufu að hún hafði verið að neyta fíkniefna.

Konan sem höfðar málið, Lynne Mishele, segist hafa verið á heimili sínu í Los Angeles, ásamt gæludýrum sínum, þegar bíll Anne, Mini Cooper, keyrði inn í húsið. Síðan hafi kviknað í bílnum. Bíllinn stöðvaðist rétt hjá Lynne, hundum hennar og skjaldböku.

Greint hefur verið frá því að það hafi tekið 59 slökkviliðsmenn meira en klukkutíma að „ná að slökkva eldinn að fullu.“ Anne var mestallan tímann föst í bílnum á meðan verið var að slökkva eldinn.

Leikkonan var ekki búin að gera neina erfðaskrá en hún átti tvo syni með tveimur mönnum svo erfðamálin eru flókin. Faðir yngri sonar Anne hefur sagt að eignir hennar séu metnar á 2 milljónir dollara á meðan eldri sonur hennar segir þær einungis um 400 þúsund.

Talið er að Lynne fari fram á rúmlega 2 milljónir dollara í bætur, en hún gæti viljað fá meira því tjónið á heimili hennar var mikið. Lögfræðingar hennar halda því fram að Heche hafi sýnt gáleysi, auk þess hafi þessi reynsla valdið henni tilfinningalegri vanlíðan. Lynne þjáist vegna martraða eftir atburðinn og sé hrædd við að fara út að ganga. Þar að auki hafi hún engan stað til að búa á.

Vinir Lynne hafa sett upp GoFundme síðu fyrir hana og hafa náð að safna fyrir hana tæpum 200 þúsund dollurum.

SHARE