Kostir brjóstagjafar fyrir barnið – Barnið okkar

Við höfum áður fengið að ræða við Ingibjörgu en það var um aðferðina barnið borðar sjálft en upplýsingar um þá aðferð má finna á heimasíðu Ingibjargar ,,barnið okkar” hér eða viðtalið sem við tókum við hana hér.
Ingibjörg Baldursdóttir er hjúkrunarfræðingur að mennt og er nú að ljúka meistaranámi í klínískri sérhæfingu með aðal áherslu á brjóstagjöf en einnig mataræði barna.
Ingibjörg er brjóstaráðgjafi og hefur unnið við það í 20 ár að aðstoða mæður með börn á brjósti.

Greinin er tekin úr kafla um brjóstagjöf í leiðbeiningum heilsuvernd barna 0-5 ára.
Handbókin er gefin út af landlæknaembættinu.
Höfundar efnis: Jóna Margrét Jónsdóttir og Ingibjörg Baldursdóttir.

Við fengum að birta greinina í heildsinni um kosti við brjóstagjöf:

– – – – – – – – – – – – – 

Mesti og áhrifaríkasti ávinningur brjóstagjafar fyrir ungbarnið eru áhrifin á heilbrigði þess. Brjóstabörn verða síður veik og fjöldi rannsókna staðfesta að dánartíðni ungbarna er meiri hjá þeim sem nærast á þurrmjólk en þeirra sem nærast á brjóstamjólk. Þetta á sérstaklega við í þróunarlöndunum vegna fátæktar, skorts á hreinlæti og takmarkaðrar menntunar mæðra. Rannsóknir hafa þó sýnt að hættan á skyndidauða ungbarna er hærri hjá þeim börnum sem ekki nærast á brjóstamjólk. Brjóstagjöf stuðlar líka að góðum tilfinningatengslum móður og barns og margir líta á þennan tíma sem einn mikilvægasta og ánægjulegasta á ungbarnaskeiðinu. Brjóstabörn fá sjaldnar loftvegssýkingar, miðeyrnabólgu og meltingarfærasýkingar, þar með talið sjúkdóma sem valda niðurgangi en börn sem fá ekki brjóstmjólk. Á fyrstu sex mánuðunum eru þessir sjúkdómar sjaldgæfari hjá þeim börnum sem eru eingöngu á brjósti samanborið við þau börn sem fá brjóst að hluta eða ekki neitt. Verndandi áhrif brjóstamjólkur fyrir sýkingum má skipta í tvennt. Að hluta til eru áhrifin þannig að mjólkin ver slímhúðina beint í efri loftvegi og meltingarvegi gegn sýkingum en auk þess verður betra ónæmisviðbragð í líkamanum hjá barninu þannig að minni líkur eru á því að sýklar nái að festast í sessi. Móðurmjólkin örvar ónæmiskerfi barnsins og brjóstabörn fá t.d. betri ónæmissvörun eftir bólusetningu heldur en börn sem fá ekki móðurmjólk. Þessi örvun á ónæmiskerfi barnsins veitir langvarandi vörn gegn sýkingum sem heldur áfram eftir að barnið hættir á brjósti.

Áhrif á þroska barns

Brjóstagjöf hefur einnig langtíma virkni á þroska barnsins, efnaskipti og sjúkdóma seinna á ævinni. Sjónþroski hjá brjóstabarni er betri en hjá barni sem ekki fær móðurmjólk. Á sama tíma hafa æ fleiri rannsóknir staðfest að vitsmuna- og hreyfiþroski brjóstabarna er betri en þeirra sem fá ekki brjóstamjólk. Skýringin er líklega líffræðileg, þar sem móðurmjólkin, ólíkt þurrmjólkinni inniheldur langkeðju fjölómettaðar fitusýrur sem eru mikilvægar heilanum bæði til vaxtar og þroska. Ennfremur finnst kólesteról í meiri styrkleika í móðurmjólkinni en í kúamjólk og þurrmjólk en kólesterólið er nauðsynlegt í uppbyggingu taugakerfisins.

Heilbrigði barns til langs tíma

Brjóstagjöf hefur verndandi áhrif hjá barninu fyrir mörgum langvarandi sjúkdómum seinna meir á ævinni, þar með talið ofnæmi, offitu, insúlínháðari sykursýki, hækkuðum blóðþrýstingi, krabbameini og bólgusjúkdómum í þörmum. Margar rannsóknir hafa sýnt fram á að minni líkur séu á að brjóstabörn séu í ofþyngd á barns- og unglingsaldri og að brjóstagjöfin verji mögulega gegn hjartasjúkdómum seinna á lífsleiðinni. Margir telja að brjóstamjólkin geti minnkað líkur á því að kornabörn úr ofnæmisfjölskyldum þrói með sér ofnæmi og barnaexsem ef þau fá ekki þurrmjólk eða kúamjólkurafurðir fyrstu fjóra mánuði lífsins.

Kostir brjóstagjafar fyrir móðurina

Brjóstagjöf frestar því að blæðingar og egglos hefjist aftur eftir fæðingu, þannig að tímabilið á milli fæðinga getur aukist. Brjóstagjöf hefur verndandi áhrif gegn brjóstakrabbameini. Talið er að áhættan fyrir brjóstakrabbameini minnki um 4,3% fyrir hvert ár sem konan mjólkar og um 7% fyrir hverja fæðingu. Brjóstagjöf virðist líka minnka áhættuna á krabbameini í eggjastokkum og legi. Við brjóstagjöf losnar hormónið oxytocin sem að hefur áhrif á samdrátt legsins og flýtir því fyrir því að legið dragist saman eftir fæðingu.

Síða Ingibjargar er nýlega opnuð og má finna hér, en þar verður hægt finna allavega fróðleik og nýtsamleg ráð.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here