Kostir og gallar við vax

Photo by Ambro
Photo by Ambro

Vax er ein leið til háreyðingar og að mínu mati mjög þægileg. Húðin er mjög mjúk eftir vax og helst lengi mjúk og fær ekki brodda eins og koma þegar við rökum. Hárunum er kippt upp með rót og þess vegna sleppum við við broddana og það er líka ástæðan fyrir því að vaxið „dugir“ betur heldur en rakstur og háreyðingarkrem. Hárið þarf að myndast aftur í hárpokanum en það tekur smá tíma og er það sá tími sem húðin er hárlaus. Hins vegar getur það nú verið þannig að hárin geta verið á misjöfnu vaxtarstigi og því geta verið hár, sem eru alveg við það að koma upp á yfirborðið, komið upp fljótlega eftir vaxið. Þetta kemur til með að lagast eftir nokkur skipti, er alltaf verst fyrst en það er eins og hárin „samstilli“ sig betur en auðvitað er einstaklingsbundið með hárvöxt hversu mikill hann er.

Gallinn er hins vegar að þetta er frekar sárt, að flestum finnst. Misjafnt eftir svæðum þó og mjög misjafnt hvar hverjum og einum finnst verst. Sumum finnst inngrónu hárin verða meiri eftir vax en þá er um að gera að hugsa um að skrúbba og næra húðina til að gera hárunum betur kleift að komast upp á yfirborðið. Auðvitað kostar það líka að fara í vax en spurningin er, hver er forgangsröðin? Ef þú vilt fá háreyðingu sem dugir lengur en 2 daga, sleppa við brodda og fá silkimjúka húð, ætti þetta að borga sig. Ég tala nú ekki um ef þú ferð á stofu og færð þetta gert fyrir þig því heimavax er mikið maus og auðvitað hægt að brenna húðina ef vaxið er ekki við rétt hitastig.

 

 

 

SHARE