Hannaði samhygðarkort fyrir krabbameinssjúka með orðum sem hún sjálf þráði að heyra

Að greinast með krabbamein einungis 24 ára að aldri er ekkert gamanmál. Emily McDowell, sem tókst á við níu mánaða þrautagöngu gegnum lyfja- og geislameðferð öðlaðist hins vegar óvæntan innblástur í kjölfar reynslunnar og gaf út og hannaði samhygðarkort.

Kortin spanna þau orð sem Emily segist óska að vinir og vandamenn hefðu látið falla meðan á þrautagöngu hennar stóð, en hún er grafískur hönnuður að mennt og átti því ekki í erfiðleikum með að stílfæra hugmyndina og hrinda í framkvæmd.

150506_EYE_EmpathyCards6.jpg.CROP.original-original

„Öfugt við það sem flestir ætla, fannst mér hvorki erfiðast að missa hárið né þegar fólk á kaffihúsum taldi mig vera karlmann” segir Emily á vefsíðu sinni. „Þvert á móti var það einmanaleikinn og einangrunin sem ég upplifði – áfallið þegar margir af mínum bestu vinum og jafnvel fjölskyldumeðlimir hreinlega gufuðu upp. Þau vissu bara ekki hvað þau áttu að segja. Eða sögðu jafnvel bara einhverja þvælu sem gerði illt verra án þess að gera sér nokkra grein fyrir skaðanum sem orðin ollu.”

150506_EYE_EmpathyCards1.jpg.CROP.original-original

Mörg ár eru runnin til sjávar síðan Emily greindist með krabbameinið, en hún er 38 ára gömul og hefur verið laus við meinið frá lokum síðustu lyfjameðferðar, þá tæplega 25 ára gömul. En sú tilfinningalega upplifun sem veikindunum fylgdi varð Emily sá innblástur sem má lesa á sjálfum gjafakortunum – samhygðarkort ef svo má kalla – sem endurvarpa þeim orðum sem hún þráði sjálf að heyra þegar hún glímdi við krabbamein fyrir svo mörgum árum.

150506_EYE_EmpathyCards8.jpg.CROP.original-original

Í raun er um leiðsögukort að ræða líka, þar sem Emily – á opinskáan og einlægan máta – veitir dýrmæta innsýn í upplifanir þeirra sem greinast með illvíga sjúkdóma og búa sig jafnvel undir banaleguna. En í kortunum liggur líka húmor, glettni og einlægni sem full þörf er á þegar orðin brestur á ögurstundu.

150506_EYE_EmpathyCards7.jpg.CROP.original-original

„Stundum eru batakveðjur einfaldlega ekki viðeigandi og samúðarkort geta verið full leikræn. Jâ og það er allt í lagi að segja FARI KRABBINN TIL FJANDANS en það -hjálpar ekki alltaf. Mér leið ekkert betur við að heyra þau orð meðan ég var í lyfjameðferð. Mêr fannst heldur ekkert fyndið að tala um fría brjóstastækkun og sköllóttar konur. Mér fannst það bara ekkert fyndið.”

150506_EYE_EmpathyCards3.jpg.CROP.original-original

Emily sagði í viðtali við vefmiðilinn SLATE að þó samhygðarkortin væru byggð á hennar eigin upplifunum, leitaði hún líka eftir innblæstri gegnum Instagram og sagði að hún noti miðilinn eins og fókusgrúppu þegar hún er að skissa og sjái þannig hvaða orð veki mesta lukku.

150506_EYE_EmpathyCards5.jpg.CROP.original-original

Bjartir og líflegir litir samhygðarkorta Emily mynda frábært mótvægi við þunga orðanna, en kortin hannar hún í Photoshop og handskrifar orðin með stafrænum penna, en aðspurð sagði hún í viðtali við SLATE að mikilvægast alls væri að muna að sjúklingar væru manneskjur:

150506_EYE_EmpathyCards2.jpg.CROP.original-original

„Fólk sem greinist með illvíga sjúkdóma eru fyrst og fremst manneskjur með tilfinningar og því finnst mér mikilvægt að gæða kortin birtu og hlýju. Ég ætlaði mér í fyrstu aldrei að gera samhygðarkortin svona kvenleg – og ég hygg sannarlega á að gera karlmannlegri kort í framtíðinni. Ég er enn að þróa línuna áfram.”

150506_EYE_EmpathyCards4.jpg.CROP.original-original

Mikilvægasti tilgangur samhygðarkortanna er þó að hjálpa þeim sem glíma við alvarlega sjúkdóma að eiga áreynslulaus samskipti við sína nánustu. „Markmiðið er að hjálpa fólki að yfirstíga hnökra í samskiptum gegnum sannindi og innsæi. Ég vil að viðtakendur samhygðarkortanna finni að ástvinir þeirra sjá, skilji og elski þá sem hinu megin við borðið sitja„

Sjá einnig: Gullfalleg húðflúr kvenna sem hafa upplifað brjóstnám sökum krabbameins

SHARE