Kraftaamman hlustar á Rammstein fyrir æfingar

Dagmar Agnarsdóttir er 64 ára, æfir kraftlyftingar af kappi og er á leið á heimsmeistaramót í sumar. Hún hlustar á Rammstein og Metallica til að gíra sig upp og lyftir vel yfir 100 kílóum. 

„Þetta byrjaði þannig að dætur mínar voru báðar í þessu og drógu mig með sér upp úr sófanum. Það var fyrir þremur árum. Ég hafði ekki verið að æfa neitt í langan tíma og var algjört sófadýr,“ segir hin 64 ára gamla kraftlyftingakona Dagmar Agnarsdóttir, sem er á leið á heimsmeistaramót í klassískum kraftlyftingum í Texas í júní.

Fyndið og skemmtilegt

Dagmar, sem æfir undir handleiðslu Ingimundar Björgvinssonar kraftlyftinga- og einkaþjálfara hjá Gróttu, viðurkennir að það hafi verið ansi mikil átök að stíga upp úr sófanum og fara að lyfta. „Við Ingimundur höfum tekið þetta í hænuskrefum og allt í einu er ég komin hingað,“ segir Dagmar og hlær. Henni finnst þetta nefnilega pínulítið fyndið, að vera á leið á heimsmeistaramót í kraftlyftingum á þessum aldri. „Það var aldrei ætlunin að fara þangað en það er voða gaman að vera orðin þetta framorðin og taka þátt í svona keppnum. Mér datt ekki einu sinni í hug að þetta væri eitthvað sem ég ætti eftir að gera. Áður en maður fer út í þetta sjálfur þá er maður kannski með smá fordóma gagnvart þessu. Það er nefnilega stundum sagt að konur verði svona og hinsegin af því að lyfta, en það er eflaust mjög misjafnt.“

Öll fjölskyldan með á mótið

Í fyrstu fannst Dagmar mest gaman að fá að deila áhugamáli með dætrum sínum og eyða tíma með þeim. „Ég hugsaði oft að ég nennti ekki að fara aftur en það var bara svo gaman að vera með þeim, þannig ég hélt áfram að fara.“
Svo þróuðust málin þannig að önnur dóttir hennar varð ólétt og hin sneri sér að golfi þannig hún varð ein eftir í kraftlyftingum. „Ég sat ein í súpunni og er ekkert á leiðinni að hætta,“ segir Dagmar og tekur fram að félagsskapurinn í kraftlyftingunum sé mjög góður og mikil samheldni í hópnum. Þannig að hún er alls ekki ein á báti.
En þó dæturnar séu hættar að æfa þá eru þær enn hennar dyggustu stuðningsmenn, ásamt eiginmanni og barnabörnum, og ætlar öll fjölskyldan að fylgja henni á mótið í sumar.

Hlustar á Rammstein og Metallica

Á æfingum lyftir Dagmar 90 kílóum í réttstöðu en í keppnum lyftir hún eitthvað meira. Þá vel yfir 100 kílóum. Hún segist annars ekkert vera að leggja þyngdina neitt sérstaklega á minnið, enda lyfti hún sér til skemmtunar. „Ég er samt sterk,“ segir hún ákveðin og skellir upp úr. Og það fer ekkert á milli mála. „Annars segir Ingimundur mér bara hvað ég á að gera og ég geri það,“ bætir hún við og vísar þar til þjálfarans. „Svo hlustar maður á Rammstein og Metallica áður en maður lyftir. Stillir tónlistina hátt og verður alveg brjálaður í skapinu. Það gírar mann ansi vel upp.“

 

Viðtalið birtist fyrst í amk, fylgiblaði Fréttatímans

SHARE