Kveikjum á kærleiksorkunni

Ég hef lengi trúað því að allt sem þú gerir, færðu tvöfalt til baka. Þess vegna er gáfulegast að gera gott, maður vill jú ekki fá eitthvað slæmt til baka!

Með þessu er ég ekki að meina að þau þroskaverkefni sem lífið sendir okkur hætti að koma né myndi ég vilja það, því þroskaverkefnin mín hafa gert mig að mér.

(þroskaverkefni = erfiðleikar)

Fyrir mér eru þroskaverkefnin tækifæri til þess að vaxa sem manneskja.

Ég játa samt góðfúslega að stundum hefur mér fundist nóg um þroskaverkefni og hugsað með mér „Þetta er orðið gott af þroska” en ég hef aldrei gefist upp.

Hvað hafa þessi þroskaverkefni gefið mér sem er svo dýrmætt?

 

Sjá einnig: „Með kærleikann að vopni eru manni allir vegir færir“

Ég hef lært að mæta sjálfri mér í kærleika og auðmýkt, lært að dæma mig ekki vegna þess hvernig mér líður, heldur samþykkja tilfinningar mínar hverjar svo sem þær eru.

Ég hef lært að elska fólkið mitt í verki með því að segja það og sýna það.

Ég hef lært að dæma ekki líf annara, engin hefur í raun hugmynd um líf annara og því ætti engin að setjast í dómarasætið.

Ég hef lært að hafa aðgát í nærveru sálar, því ég veit aldrei hvað aðrir eru að upplifa.

Ég hef lært að lífið er stutt og hver dagur gjöf, það er ekkert sjálfgefið að ég eða aðrir séu hér á morgun.

Ég hef lært að láta gott af mér leiða og uppskorið það ríkulega.

Með þessum litla pistli langar mig að kveikja á kærleiksorkunni og fá alla í lið með mér að gera heimin betri með því að láta gott af sér leiða.

Það eru margar leiðir til þess að gefa gott frá sér, eitt lítið bros getur verið ljós inn í tilveru einhvers.

Kærleikskveðja

Kristín Snorradóttir

Heimasíða Sterk saman og Facebook.

SHARE