Mörgum konum finnst erfitt að fara í skoðun til kvensjúkdómalæknis, sérstaklega í fyrsta skipti, enda er það svo að margar konur fara ekki fyrr en þær neyðast til þess vegna þungunar, kynsjúkdóms eða einhvers annars.  Þó að mörgum finnist erfitt að fara í kvenskoðun er mikilvægt að gera það reglulega. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að konur þurfa að fara í skoðun, t.d. verkir í móðurlífi, grunur um kynsjúkdóm, til að fá getnaðarvörn, láta taka krabbameinssýni eða eitthvað annað. Ungar stúlkur eiga oft mjög erfitt með að fara til kvensjúkdómalæknis en ef er til staðar grunur um kynsjúkdóm er það hins vegar nauðsynlegt. Ef kynsjúkdómur er ómeðhöndlaður lengi getur hann valdið ófrjósemi. Þess má einnig geta að margir heimilislæknar geta t.d. greint kynsjúkdóma og meðhöndlað þá. Mörgum konum reynist mikill styrkur í því að fá einhvern sem þær treysta með sér s.s. móður, hjúkrunarfræðing eða góða vinkonu.

Kvensjúkdómalæknar eru yfirhöfuð afar nærgætnir og gera sitt besta til þess að konunni líði sem best við þessar annars óþægilegu aðstæður. Sífellt fleiri konur eru kvensjúkdómalæknar og er það vel því þá geta konur valið hvort þær vilja heldur fara til konu eða karls.

Krabbameinsleit

Mikilvægt er að konur fari reglulega í skoðun og láti taka krabbameinssýni. Með reglulegri krabbameinsskoðun má finna frumubreytingar á algjöru frumstigi og koma í veg fyrir að þær verði að krabbameini. Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins boða allar konur frá 23 – 65 ára í þriggja ára fresti. Eftir 67 ára geta konur látið taka sýni reglulega ef þær kjósa en þær eru ekki boðaðar nema sérstök ástæða þyki til. Konur geta farið á Leitarstöðina og látið taka sýni þar eða kvensjúkdómalæknir þeirra eða heimilislæknir tekur sýni og sendir til Krabbameinsfélagsins. Jafnframt er Krabbameinsfélagið með skoðunardaga á heilsugæslustöðvum úti á landi til að auðvelda konum að sækja þessa þjónustu.

Hvernig fer kvenskoðun fram?

Þegar kona kemur til læknisins í fyrsta sinn er gangur skoðunarinnar sá að konan byrjar á því að setjast við borð og ræða við lækninn. Læknirinn spyr útí ástæður komunnar, hvort eitthvað sérstakt sé að eða hvort konan er að koma í reglubundið eftirlit. Í þessu viðtali er mikilvægt að læknirinn nái trausti konunnar því ef það tekst verður skoðunin sjálf auðveldari. Í viðtalinu metur læknirinn hvort ástæða sé til kvenskoðunar. Ef ástæða er til þess þarf konan að fara úr að neðan og leggjast upp á sérstakan bekk sem er með stoðir fyrir fæturna svo læknirinn komist vel að við skoðunina. Skoðunin sjálf tekur yfirleitt stuttan tíma en hún felst meðal annars í því að farið er upp í leggöngin með legskoðunaráhaldi sem hægt er að glenna í sundur til að auðvelt sé að taka sýni. Sumir læknar eru einnig með svokallaðan leggangasónar á stofunni hjá sér og geta þeir þá jafnframt skoðað legu eggjastokka, þykkt slímhúðar í legi, fóstur ef það er til staðar eða annað sem ástæða þykir til að skoða nánar. Að þessu loknu getur konan farið niður af bekknum, klætt sig og síðan er nokkurs konar framhaldsviðtal þar sem læknirinn fer yfir það sem skoðun hans leiddi í ljós og hvert sé framhaldið.

Konur upplifa þessar skoðanir á ólíkan hátt. Ég held þó að við eigum það allar sameiginlegt að finnast þetta með því erfiðasta og óþægilegasta sem við gerum. Enda er það svo að þegar við hittum á kvensjúkdómalækni sem okkur líður vel með förum við helst ekkert annað.

Heimild: doktor.is

 

SHARE