Kynferðisafbrotamenn í múgsefjandi smábæjum

Leyfist mér aðeins að snerta á þessu málefni. Ekki er ég frá því að í eyrum margra hljómar þetta eins og fordómar eða jafnvel einhver yfirlætiskennd, en fyrir mér er það svo fjarri lagi. Ég ætla meira að segja að gerast svo kræf að segja að múgsefjun er afar sorgleg aðstaða. Við Íslendingar þekkjum það svo sem mjög vel. Við, á okkar litla landi, þar sem meira að segja borgin okkar hagar sér eins og lítill smábær í stærra landi, en því minni sem bærinn er, þeim mun meiri múgsefjun er þar að finna. Við lútum flest öll einstaklingum í hærri stöðu í goggunarröðinni en við eða forðumst að standa upp fyrir sjálfum okkur í þeim tilgangi að fá aðeins frið og láta sem minnst fyrir okkur fara. Við skulum bara sætta okkur við það að við lútum því sem ýtir okkur niður.

Já, kynferðisafbrotamenn. Er samfélagið bara svona lítið að það má ekki draga einn meðlim þess til réttar síns? Ef þú brýtur af þér, þá þarft þú ekki að hafa miklar áhyggur, því þú færð í versta falli snefil af samviskubiti eða léttar skammir, sem er þó klárlega ekki nóg svo viðkomandi kynferðisafbrotamaður láti af hegðun sinni.

Sjá einnig: Opnum augun! – Bæði kyn eru gerendur kynferðisofbeldi – Þjóðarsálin

Kynferðisafbrot er stórhættulegur glæpur! Því að verða fyrir slíku, er ekki eins og að bein þín brotni, heldur líkt og sál þín verði hulin örum það sem eftir er lífs þess einstaklings sem fyrir því verður. Leyfist mér að kalla það sálarmorð, jafnvel með undirstrikun.

Hafa skal í huga að kynferðisafbrot gegn börnum hefur gríðarlega mikil áhrif á þroskaferli barnsins sem fyrir því verður. Þeir sem beita barn slíkri ósæmilegri hegðun eru haldnir hreinni og tærri siðblindu og eru því einstaklega hættulegir samfélaginu. Í mörgum tilfellum þó, fá þeir sem fela sig í hornum lítilla samfélaga ekki málagjöld sín og jafnvel ekki flett ofan af þeim fyrr en þeir eru komnir yfir móðuna miklu og þá finnst mér þeir hafa sloppið aðeins of vel með skrekkinn.

Sjá einnig: Kynferðisofbeldi: Um sifjaspell

Þrátt fyrir orð mín, hef ég gríðarlega mikla samkennd með aðstandendum þessa fólks, bæði fyrir þá sem standa næst fórnarlömbunum og aðstandendum glæpamannsins. Þöggun og múgsefjun gerir okkur þó að smápeðum og það eiga allir rétt á því að geta staðið teinréttir og látið í sér heyra með hjartað utan á erminni. Verið stolt af því að standa sterk fyrir réttlætinu algjörlega óháð því hvað einhver annar segir eða gerir, því þegar á botninn er hvolft er verra að vera með bullandi samviskubit yfir því að hafa ekki annað hvort staðið með sjálfum þér eða þeim sem voru þér næstir í hjartastað.

Það er þó aldrei of seint að breyta til aldrei of seint að standa upp og láta ekki yfir þig vaða. Hvernig væri nú bara að finna smá hugrekki og láta sér fátt um finnast, jafnvel bæta upp fyrir mistök þín á árum áður.

Barn sem hefur orðið fyrir kynferðisafbroti á það til að bera með sér vanmátt fram eftir ævinni. Siðblindur einstaklingur, sem brýtur á barni, sem hefur ekki enn tekið út þann mótunarþroska sem til þarf til þess að vita hvað er rétt og rangt í slíkum aðstæðum, skilur eftir sekt sína hjá barninu og barnið þarf að burðast með það hlass sem glæpamaðurinn kastar á það. Barn veit ekki hvað er rétt eða rangt þegar vel liðinn einstaklingur í samfélaginu sýnir því þessa hrikalegu hegðun og því veit barnið ekki að viðkomandi er að fremja glæp sem á eftir að elta það út ævina.

Sjá einnig: „Ég var misnotuð sem barn“ – Af stjúpföður sínum

Það er svo sem hægt að lesa sér mikið til um afleiðingar kynferðisglæpa, hvort sem við á börn eða fullorðna einstaklinga. En ég vil brýna fyrir ykkur öllum að glæpur er glæpur og það getur verið gríðarlega erfitt að lækna þau sár sem verða á sálu þeirra sem fyrir því verða. Notið röddina ykkar og hættið bara að vera smeyk um það sem öðrum finnst, því það er í raun ástæðan fyrir því að þið þorið ekki að standa upp. Það er enginn þér æðri en þú sjálfur í þínu ríki, svo verið svo væn að hætta að hylma yfir glæpamönnum.

SHARE