Kynlíf og sykursýki

Sykursýki og vandamál í kynlífi eru algeng og þessi grein birtist á Doktor.is og er birt með góðfúslegu leyfi þeirra.

Veldur sykursýki erfiðleikum í kynlífi?

 • Margir sykursýkisjúklingar eiga við kynlífsvandamál að stríða. Yfirleitt eru það karlmenn og þeir kvarta undan stinningarvandræðum. Það þýðir að þeim stendur ekki, stinning er ekki nægjanleg eða endist ekki nógu vel.
 • Nokkuð er um að menn greinist með sykursýki eftir að hafa kvartað undan stinningarvandræðum. Eftir að sjúkdómurinn hefur verið meðhöndlaður með réttu mataræði, töflum eða insúlínsprautum, hverfa kynlífvandamálin venjulega og þeir fá stinningu á ný.
 • Engu að síður virðist fjórða hver kona og allt að helmingur karla með sykursýki eiga við erfiðleika í kynlífinu að stríða. Þetta á bæði við um löngun til samfara og stinningarvanda (getuleysi).
 • Margar sykursjúkar konur þjást af endurteknum skeiðarsýkingum, oft sveppasýkingum. Þær valda kláða, sviða og sársauka ef reynt er að hafa samfarir. Einnig getur þeim verið hætt við blöðrubólgu.

Er hægt að lifa virku kynlífi með sykursýki?

 • Ef þú ert sykursýkisjúklingur og finnst þú eiga í vandræðum með kynlífið skaltu ræða það við lækninn þinn. Það er mikilvægt að fá úr því skorið hvort óþægindi þín eru af líkamlegum toga og afleiðing sykursýkinnar – t.d. í taugakerfinu eða hjarta- og æðakerfi, eða hvort um er að ræða svokallaða sállíkamlega sjúkdóma.
 • Þetta þýðir að ytri aðstæður, eða bara það að þú ert með sykursýki, getur verið ástæða þess að kynlíf þitt er ekki eins og best verður á kosið.

Þú getur reiknað með því að kynlífið komist í lag á ný ef þú ert með sykursýki og færð úr því skorið að sykursýkin hafi ekki skemmt taugakerfi þitt né hjarta- og æðakerfi.

 • Þú verður sjálfur að stuðla að því og oft er þörf aðstoð.

Hvað á ég að gera ef sykursýkin er ekki ástæða kynlífsvandans?

 • Vera kann að nauðsynlegt sé að ræða við lækni svo að bæði þú og maki þinn fáið tækifæri til að ræða við sérmenntaða manneskju í kynferðismálum.
 • Ykkur verður hugsanlega vísað á samlífsráðgjafi sem ræðir við ykkur ef til vill í 6-12 skipti. Þetta getur tekið nokkra mánuði, og þið getið reiknað með að mæta bæði saman í flest skiptin. Meðferðin krefst því tíma og þolinmæði.
 • Ef þú þjáist af sykursýki verður þú að reyna að leiða hugann frá því að sjúkdómurinn geti valdið þér erfiðleikum með kynlífið. Enginn hefur hvort sem er tryggingu fyrir því að líkamsstarfsemi haldist óbreytt fram á síðasta dag. Þessi sannindi eiga við hvort sem þú ert sykursjúkur eður ei.
 • Að öðru leyti gildir sú gullna regla að því meira sem kynlífið er ástundað, því betur gengur það. Mundu það og taktu mark á því.

Gefstu ekki upp

Ekki afgreiða málið með því að segja að þú sért svo undirlagður af sykursýkinni að þú hafir ekki líkamlega burði til að stunda eðlilegt kynlíf. Þú mátt ekki gefast upp. Það að hafa sykursýki er eitt og sér engin ástæða til að hætta að stunda kynlíf.

SHARE