Kynlíf og taugasjúkdómar

Hvaða taugasjúkdóma er átt hér við?

Eftirfarandi á við um þá taugasjúkdóma sem orsakast af völdum sköddunar á miðtaugakerfi, og valda þannig lömun á stóru eða smáu svæði líkamans.

Veldur MS(heila og mænusigg) vandamálum í kynlífi?

  •  Sjúkdómurinn MS getur hjá báðum kynjum raskað hæfni til að fá fullnægingu og hjá körlum raskað stinningu og sáðláti. Auk þess geta komið fram truflanir á snertiskyni og vöðvakrampar meðan á kynlífi stendur.
  • Sem betur fer lifa þó margir góðu kynlífi þrátt fyrir sjúkdóminn, sérstaklega ef fyrir hendi er skilningur milli hjónanna og þau eru samtaka um að vinna saman að því að viðhalda góðu kynlífi.

Sjá einnig: Kynlífsvandamál

Valda skemmdir á hrygg vandamálum í kynlífi?

  • Skemmdir af völdum slysa á hryggjarsúlu og mænu sem valda lömun, hafa einnig áhrif á kyngetu.
  • Hjá körlum getur það bitnað á stinningu, en samt halda þrír af hverjum fjórum getu til stinningar við ertingu. Það þýðir með öðrum orðum að flestir geta stundað samfarir að einhverju leyti þrátt fyrir mænuáverkann.

Getur fólk með taugasjúkdóm getið af sér börn?

  • Oft reynist erfitt að fá fullnægingu. Það getur valdið vandræðum ef fólk vill eignast börn. Hægt er að styðjast við vélknúin hjálpartæki, t.d. titrara, sem settur er á reðurhöfuðið eða í endaþarminn. Þannig tekst oft að fá sæði til frjóvgunar.
  • Þótt takist að fá sæði, er frjósemi þess oft lítil, þannig að lítill hluti þeirra á kost á barneign.
  • Konur geta haldið fullri frjósemi þrátt fyrir lömun sína. Þær fá áfram egglos og tíðablæðingar, og þungun og fæðing er möguleg, þó að lömunin hafi áhrif á tilveru þeirra að öðru leyti.

Sjá einnig: Höfuðverkur upprunninn frá hálsi

Eiga konur við sömu vandamál að stríða og karlar?

Konur eru ekki í sömu vandræðum með kynmök. En löngun og hæfni til fullnægingar er skert. Samt lifa margar þeirra þokkalega fullnægjandi kynlífi þrátt fyrir fötlun sína, vegna þess að þær og makar þeirra hafa fundið aðferðir til að gleðja og fullnægja hvort öðru.

Hvernig stundar fólk kynlíf þrátt fyrir taugasjúkdóm?

Löngunin dalar hjá báðum kynjum, ef lömun hrjáir þau, og við því er vafalaust lítið að segja. En þegar þannig háttar til, er mikilvægt að bæði hjónin taki höndum saman um að varðveita kynlíf sitt.

  • Hafið í huga að skaðað snertiskyn þýðir ekki þar með, að tilfinningar gagnvart ástvininum hafi horfið.
  • Munið að getuleysi þýðir ekki endilega að þú sért sleginn úr leik kynferðislega. Til eru fjölmargar leiðir til að vera virkur og gefandi.
  • Mundu líka að þó að kynfæri þín séu sködduð, geturðu alveg notið ásta með elskunni þinni, og þið bæði haft unað af.

Lestu fleiri áhugaverðar greinar á doktor.is logo

SHARE