Kynsjúkdómar – Hvað er algengast á Íslandi?

Kynsjúkdómar hafa fylgt manninum frá örófi alda og gera enn þrátt fyrir að miklu sé varið í forvarnir og fræðslu. Kynsjúkdómar eru sjúkdómar sem berast á milli manna með náinni snertingu eða kynmökum, en hafa ber í huga að ýmsir sjúkdómar og sýkingar geta herjað á kynfæri án þess að teljast til kynsjúkdóma.

Í heiminum eru á þriðja tug kynsjúkdóma þekktir, á Íslandi eru klamydía, kynfæravörtur og kynfæraáblástur algengastir, en einnig greinast hér á ári hverju mörg tilfelli af kláðamaur og flatlús auk allnokkurra tilfella af lekanda og sárasótt. Ekki má gleyma alvarlegum sjúkdómum eins og HIV og einnig ber að geta þess að lifrarbólga B og C getur smitast á milli manna með kynmökum.

Á Íslandi er starfrækt göngudeild kynsjúkdóma í Þverholti 18, Reykjavík, en þar er boðið upp á ókeypis læknisskoðun, rannsóknir, meðferð og fræðslu. Mikils trúnaðar er gætt á þessari deild, m.a. öll sýni merkt með öryggisnúmeri en ekki með nafni sjúklings og hvorki foreldrar né aðrir læknar fá upplýsingar um sjúklinginn nema með hans leyfi. Algengustu sjúkdómarnir sem greindir eru og meðhöndlaðir á göngudeildinni eru klamydia og kynfæravörtur.

Klamydía

Klamydía orsakast af bakteríunni Chlamydia trachomatis, en hún er algengasta bakteríusýkingin sem berst á milli manna með kynmökum. Árið 2000 greindust 1838 manns með klamydíu á Íslandi, um 40% karlmenn og 60% konur. Tíðni sjúkdómsins hefur verið að aukast töluvert undanfarin ár , bæði hér á landi og sama þróun verið á hinum Norðurlöndunum.

Smitleiðir: Klamydía smitast við snertingu slímhúða eins og við samfarir. Við samfarir eru um 40% líkur á smiti frá sýktum manni til konu en heldur minni smithætta frá sýktri konu til manns eða rúmlega 30%.

Einkenni: Klamydía er oft einkennalaus sérstaklega hjá konum en ef einkenna verður vart gerist það yfirleitt fyrstu 7-14 dagana eftir smit þó stundum löngu síðar. Algengustu einkennin eru:

Konur:

  • Útferð frá leggöngum.
  • Blæðingatruflanir.
  • Sviði við þvaglát.
  • Tíð þvaglát.
  • Verkir í neðanverðum kvið.

Karlar:

  • Útferð frá þvagrás.
  • Sviði eða kláði í þvagrás.
  • Sviði við þvaglát.
  • Verkir og bólga í eistum.

Greining:

Klamydía er oftast greind í þvagi og þá mikilvægt að sýni sé rétt tekið, morgunþvag er ráðlagt bæði hjá konum og körlum og best er að nota fyrsta hluta þvagbununnar til greiningar. Þá má taka strok frá leghálsi kvenna í stað þess að nota þvag . Á göngudeild kynsjúkdóma fást niðurstöður yfirleitt innan tveggja sólarhringa.

Meðferð:

Klamydía er meðhöndluð með sýklalyfjum, oftast nægir að gefa sýklalyf í einum skammti. Mikilvægt er að geta þess að tíma tekur fyrir lyfið að virka og því nauðsynlegt að stunda ekki samfarir í að minnsta kosti viku frá meðferð. Einnig er mikilvægt að meðhöndla samtímis fastan rekkjunaut einstaklings með klamydiusmit og kalla í próf alla rekkjunauta hans síðustu sex mánuðina fyrir greiningu. Ekki talin þörf á því að endurtaka þvagprufu eftir meðferð nema einkenni geri vart við sig á ný.

Fylgikvillar:

Klamydía getur valdið ófrjósemi og við hverja sýkingu aukast líkur á ófrjósemi verulega einnig ef greining eða meðferð dregst. Klamydía getur einnig valdið utanlegsfóstri og sýkingu í augum.

Kynfæravörtur

Kynfæravörtur orsakast af veirum sem heita Human papilloma virus (HPV). HPV eru algengustu veirurnar sem berast á milli manna með kynmökum, næst á eftir Herpes veirunni sem veldur kynfæraáblæstri. Meira en 80 tegundir af HPV eru þekktar, þar af geta yfir 20 tegundir valdið vörtum. Tíðni þessara sýkinga hefur verið að aukast jafnt og þétt s.l. þrjá áratugi og nú er talið að meira en þriðjungur þeirra sem stunda kynlíf sé sýktur af HPV en einungis lítill hluti þeirra greinist með vörtur.

Smitleiðir:

HPV smitast við nána snertingu og um 60% líkur eru á smiti milli rekkjunauta. Smithætta er meiri ef einstaklingur er með sýnilegar vörtur. Smokkur kemur ekki í veg fyrir smit en dregur verulega úr líkum á smiti.

Einkenni:

Einkenna verður yfirleitt vart mánuði og allt að ári eftir samfarir sem leiddu til smits. Vörtur sjást á og við kynfæri og endaþarm. Vörturnar geta verið flatar og það litlar að þeirra verður ekki vart, einnig geta þær verið í þvagrás og í leggöngum og á leghálsi kvenna. HPV sýkingu fylgir stundum kláði og sprungur sjást í slímhúð kynfæranna.

Greining:

Yfirleitt getur læknir greint vörtur með skoðun einni saman þó stundum þurfi að taka vefjasýni til frekari staðfestingar.

Meðferð:

Byggist fyrst og fremst á því að útrýma vörtunum en ekki veirunni sjálfri. Oftast er byrjað á því að pensla vörturnar með lyfi sem heitir Condyline og inniheldur afur ð unna úr plöntu sem heitir podophyllotoxin. Sjúklingurinn penslar sig sjálfur heima eftir ákveðnum fyrirmælum en geta skal þess að þetta lyf er ekki til notkunar á vörtum í leggöngum eða á leghálsi kvenna né á vörtur í þvagrás. Því fyrr sem meðferð hefst þeim mun betri árangur næst. Ef penslunin bregst er gripið til frystingar eða brennslu. Þá er í þróun bóluefni gegn algengustu HPV tegundunum.

Fylgikvillar:

Sumar HPV veirur eru tengdar frumubreytingum og/eða krabbameini í leghálsi kvenna og því mikilvægt fyrir konur sem greinst hafa með kynfæravörtur sem og aðrar konur að fara í reglulegt eftirlit hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins.

Göngudeild húð- og kynsjúkdóma
Þverholti 18
105 Reykjavík
Deildin er opin vikra daga frá kl. 8-16
Tímapantanir alla virka daga milli kl. 8 og 9 í síma 560-2320
Niðurstöður rannsókna fást alla virka daga kl 13-14 í síma 560-2319

 doktor.is logo

Tengdar greinar:

Hverjar eru ástæðurnar á bak við sársauka við samfarir?

Holl ráð um kynsjúkdóma

Blöðrubólga: Hvað er blöðrubólga?

SHARE