Lá við að mannskapurinn vildi bara fara uppá hvort annað á dansgólfinu – er neikvæð umfjöllun skemmtistaða betri en jákvæð?

Barir og skemmtistaðir er eitthvað sem nóg framboð er  á Íslandi enda íslendingar þekktir fyrir að vera all in í öllu sem að þeir gera og líka því að fara út að skemmta sér. Eins og gengur og gerist þá spretta slíkir staðir upp eins og gorkúlur en eru jafn fljótir að loka ef að þeir ná ekki að hala inn viðskiptavini og helst fastan kúnnahóp sem heldur staðnum gangandi.  Staðirnir reyna margir ýmislegt til að trekkja að í stað þess að vera bara bar eða bara bar sem selur líka mat.

Nýjasta lenskan virðist vera öfug sálfræði. Neikvæð umfjöllun sem trekkir (nýja) viðskiptavini að sem eru æstir í að sjá „what all the fuzz is about“. Þekktasta dæmið nýlega er sennilega Loftið í Austurstræti sem hefur á stuttum tíma orðið þekkt fyrir að henda fólki út fyrir að vera með tattoo (sem kostar sennilega meira en alklæðnaður margra annarra gesta og Berglind vinkona mín ber mjög vel enda glæsileg kona) og láta heilan kúnnahóp standa upp fyrir einum frægum erlendum gesti.

Nú hefur lítill bar á Suðurnesjum, nánar tiltekið í Grindavík sennilega ákveðið að prófa þessa aðferð.  Í vikulegum fjórblöðungi sem borinn er inn á öll heimili í Grindavík auk þess að liggja frammi á mörgum stöðum segir þetta orðrétt:

„Fólk kom hér undir miðnætti, draugfullt og slefandi. Það skreið hér um gólfið, öskrandi og æpandi og hafði drukkið sig draugfullt heima hjá sér áður en það kom. Engu var líkara en fólk vildi bara fá nógu mikið fyllerí fyrir nógu lítið. Við vorum fljót að fá nóg af slíku. Oft lá við að mannskapurinn vildi bara fara uppá hvort annað á dansgólfinu.“

Eigandi Bjarmahússins endar svo pistilinn með að segja að hann hafi ekkert á móti kynlífi en hann vilji bara ekki að það eigi sér stað á dansgólfinu hjá honum. Bráðum muni hann hinsvegar opna gistiheimili og þar geti gestir haft alla sína hentisemi. Það gistihús mun þá keppa á litlum markaði við þau sex sem eru hér fyrir (held að sú tala sé rétt hjá mér).

Ég veit ekki með ykkur en ég myndi ekki heimsækja (aftur) stað sem póstaði því svo opinberlega að ég hefði mætt öskrandi, sauðdrukkin og ríðandi á dansgólfinu. Mér finnst þó leitt að hafa misst af kynlífi þarna, sem ég hef ekki orðið vör við á einu einasta dansgólfi sem ég hef heimsótt á mínum næstum 30 ára djammferli. Er þó sammála eigandanum að sennilega er skemmtilegra að stunda það annarsstaðar en á dansgólfum. Ég mun frekar heimsækja staði sem sýna viðskiptavinum, bæði fyrrverandi, núverandi og tilvonandi virðingu. En ég hvet alla þá sem áhuga hafa á að fara og athuga sjálfir „what all the fuzz is about“.

(Myndin er úr safni og tengist hvorugum staðnum).

SHARE