Láta stytta tær sínar til að passa í skóna – Öskubuskuaðgerðin

„Öskubuskuaðgerð” er skurðaðgerðin jafna nefnd sem konur undirgangast til að láta stytta tær sínar, slípa tábein og lagfæra fætur í þeim tilgangi að eiga auðveldara með að festa kaup á og ganga í pinnahælum og jafnvel að ganga niður um eina skóstærð. 

Aðgerðin, sem kostar formúu fjár, er afar áhættusöm og hefur valdið einhverjum konum varanlegri örkumlu en þrátt fyrir vel þekktar afleiðingarnar sem oftar en ekki fela í sér að konan sem undirgekkst aðgerðina getur aldrei framar stigið fæti í pinnahæla, er ekkert lát á vinsældunum. Konur víðsvegar um hinn vestræna heim streyma inn til skurðlækna og biðja um eitt: Að fætur þeirra verði lagfærðir svo rándýrir pinnahælar fari betur á fótum þeirra.

 

 

Hér má sjá fyrir og eftir myndir af fótum breskrar konu sem lét smækka tær sínar:

 

article-2665243-1EE4708900000578-395_634x476
Fyrir aðgerð: Þessi kona notaði áður skó númer 8 og var afar óánægð með aðra og þriðju tá sem var mun lengri en stóra táin.

 

 

Dr. Jason Hargrave, virtur sérfræðingur á sviði skurðaðgerða á fótum segir tástyttingar og beinslípun á fótum kvenna hafa tekið örlagaríkan kipp í kjölfar Sex And The City þar sem sjálf Carry Bradshaw fer fögrum orðum um Jimmy Choo og Samantha fitjar upp á nefið í 16 cm pinnahælum.

 

„Pinnahælar þykja hin mesta prýði og konur eru oft eyðilagðar yfir því að fætur þeirra líti ekki jafn glæst út og fætur kvenna sem birtast á hvíta tjaldinu. Allir mínir skjólstæðingar segjast á undantekningar þrá að ganga í opnum hælaskóm, en að þær hinar sömu hati sína eigin fætur. Svo langt ganga þessar sömu konur til að fela „lýtin” að þær fara jafnvel ekki úr sokkunum frammi fyrir eiginmönnum sínum. Nú er loks farið að framkvæma þessar aðgerðir í Bretlandi og konurnar streyma inn á stofuna.

– Dr. Jason Hargrave

 

 

article-2665243-1EE4709000000578-472_634x476
Eftir aðgerð: Í kjölfar aðgerðinnar, þar sem önnur og þriðja tá var stytt í bókstaflegri merkingu, tók við kvalafullt bataferli sem fól í sér að víra tærnar aftur saman í fjórar vikur. Konan gat vart stigið í fæturnar á meðan.

 

 

Stúlkan sem undirgekkst aðgerðina sem má sjá á meðfylgjandi ljósmyndum, sagðist hafa ákveðið að fara í tásmækkun eftir að hafa séð heimildarmynd um aðgerðarferlið.

 

Ég varð eins og slegin eftir að horfa á heimildarmyndina. Frá þeirri stundu var ég ákveðin. Ég færi í tásmækkun. Maðurinn minn hélt í fyrstu að ég væri brjáluð. Hann trúri ekki á skurðaðgerðir í fegrunarskyni en þegar ég fór að leggja aura til hliðar fyrir aðgerðinni, varð honum ljóst að ég myndi ekki láta neitt stöðva mig.

 

Stóra stundin rann svo upp í lok síðasta árs, en stúlkan á myndunum heitir Paulina og lét hún smækka tær sínar um heilan sentimetra en aðgerðin var framkvæmd undir staðdeyfingu.

 

Þetta tók einn klukkutíma og þó ég fyndi ekki fyrir neinu, gat ég vel heyrt hvernig sagað var í beinin og þau mulin niður, en það var hryllilegt að hlusta á. Ég var mjög kvalin að lokinni aðgerð og þurfti að vera með stálvíra í tánnum í fimm vikur og ein táin fékk í sig sýkingu, svo ég varð að taka sýklalyf í kjölfarið.  Þegar vírarnir voru svo loks fjarlægðir og ég gat stigið í báða fætur þurfti ég að ganga á hækjum í nokkrar vikur því ég gat ekki gengið eðlilega og ég gat ekki æft íþróttir í hálft ár. Mér finnst ferlið þó hafa verið þess virði, því ég er með eðlilega fætur í dag og aðeins með illsjáanleg ör eftir aðgerðina en það er ekki allt, því ég hef líka gengið niður um heila skóstærð.  

 

 

Öskubusk
Öskubuskufætur: Í þessu tilfelli heppnaðist aðgerðin afar vel og konan er heil heilsu í dag. Sú hefur þó ekki verið raunin um ófáar konur sem hafa undirgengist tástyttingu í þeim eina tilgangi að passa í opna skó.

 

Eins og fram kemur hér að ofan eru skurðaðgerðir á fótum þó varasamar og geta falið í sér óbætanlegt tjón fyrir konuna sem undirgengst aðgerðina í fegurðarskyni, en því fékk hin 38 ára gamla Danielle að kynnast, þegar hún ákvað að leggjast undir hnífinn í þeim tilgangi að láta lagfæra krepptar tær sínar.

Krepptar tær eru vel þekktar og orsakast af rangri stöðu í háum hælum – en þá kreppast smærri tærnar vegna of þröngra skó – og aðlagast þeirri stöðu jafnvel án skófatnaðar. Að lokum, sé ekkert að gert, taka örsmáir vöðvarnir í annarri, þriðju og fjórðu tá að kreppast og verða ófærir um að slaka á stöðu sinni aftur, sem gefur tánnum kló-líkt yfirbragð.

 

Þegar ég var unglingur, gekk ég gjarna í þykkbotna skóm með háum sóla og þá held ég að vandinn hafi byrjað. Þegar ég var orðin 16 ára gömul var ég farin að taka eftir því að tærnar á mér voru orðnar bognar. Eins og litlar klær. Eftir því sem árin liðu urðu tærnar á mér verri og verri og vandinn hélt áfram að vinda upp á sig þar til það var orðið erfitt að finna skófatnað sem passaði á mig. Ég gat ekki lengur gengið í bandaskóm eða hælaskóm og mér fannst fæturnir á mér líta hræðilega út og það gerði mig enn sjálfsmeðvitaðri. Maðurinn minn ráðlagði mér frá því að undirgangast skurðaðgerð og ráðlagði mér að leita hjálpar sjúkraþjálfara en ég vildi ekki hlusta á hann.

 

  

danielle1
Danielle fór í aðgerðina til að láta rétta úr krepptum tám og slípa tábeinið en aðgerðin olli henni ólýsanlegum sársauka og hafði hræðilegar afleiðingar í för með sér.

 

Danielle fékk staðdeyfingu í aðgerðinni en krókar voru settir inn í tær hennar til að rétta þær við. Tábeinið var líka slípað í sömu aðgerð, en skera þurfti fætur hennar opna og rétta af stöðu stóru táarinnar og slípa af tábeininu um leið.

 

Ég upplifði svo mikinn sársauka í kjölfar aðgerðarinnar að það fór ekki milli mála að eitthvað hafði farið úrskeiðis. Tærnar á mér vísuðu beint upp og út í allar áttir. Tærnar á mér voru hættar að snerta gólfið þegar ég stóð upp. Nokkrum vikum seinna voru krókarnir teknir úr en það skipti engu – tærnar á mér vísa út og suður og snerta ekki enn gólfið í dag. Það var svo sársaukafullt að láta taka krókana úr tánnum að það var nær liðið yfir mig. Ég varð að taka mér sex mánaða veikindaleyfi frá vinnu, því ég gat ekki stigið eðlilega í fæturna sem voru yfirgengilega bólgnir í marga mánuði. Þetta var hræðilegt.

 

danielle2
Danielle þurfti að undirgangast aðra aðgerð til að lagfæra þá fyrri, sem fór úrskeiðis, en hún upplifði ómældan sársauka meðan á ferlinu stóð og enn þann dag í dag vísa tær Danielle upp á við og snerta ekki gólfið.

 

 

Danielle, sem er algerlega ófær um að ganga í háum hælum í dag, biður konur að hugsa sig vandlega um áður en lagst er undir hnífinn í þeim tilgangi að lagfæra útlit fóta.

 

Ég sat föst heima í marga mánuði að lokinni aðgerð sem misheppnaðist, ég var ófær um að sinna vinnu og gat ekki gengið eðlilega. Enn þann dag í dag eru vöðvarnir í fótum mínum stífir og ég get ekki beygt hné og ökkla eins og áður. Ég hugsa að skurðlæknirinn hafi verið uppteknari af útliti fóta minna en eðlislægum eiginleikum þeirra og tilgangi fóta. Hann útskýrði aldrei fyrir mér að uppskurðurinn gæti haft áhrif á alla líkamstöðu mína eins og raunin varð.

 

Danielle er í það minnsta á þeirri skoðun að íhuga skuli þá ákvörðun vandlega hvort ferlið sé þess virði, áður en kona leggst undir hnífinn í þeirri von að hljóta fegurrri fætur að launum. Eins og sjá má er ferlið vandasamt, langdregið og nokkuð flókið en að því sögðu er einni spurningu ósvarað:

 

Myndir þú láta stytta tær þínar í þeim eina tilgangi að komast í fallega skó? 

 

 

SHARE