Líf sem aðstandandi

Nú er ég lent, held ég!

Já lífið breyttist á einu andartaki þegar maðurinn minn greindist með krabba í 4 sinn og það ólæknanlegt að sögn lækna. Það hefur tekið verulega á að lenda í þessari breyttu tilveru.

Ég hef upplifað allskonar tilfinningar og allskonar líkamlega líðan, hreinlega verið fárveik á köflum.

Áfallið hrinti af stað mikilli vanlíðan andlega, ég var hreinlega bara þunglynd, held í nokkrar vikur gat ekkert var alltaf þreytt og heilalaus með öllu. Það datt allt út úr heilanum á mér ég mundi ekkert.

Var orðin hrædd um að ég væri komin með Alzheimer eða hreinlega heilaæxli. Ég tví og þríbókaði mig og gleymdi hvar og hvenær ég var búin að plana að hitta fólk og hvert ég var að keyra eða hvað var í matinn í gær. Mjög óþægileg upplifun, flestir höfðu skilning á ástandi mínu en ekki allir og einhverjir urði sárir þar sem ég sveik þá í þessu ástandi, algerlega óviljandi en það er særandi að vera svikin ég skil það.

Ég var mjög verkjuð af gigtarverkjum og svaf lítið sökum verkja.

Máttleysið var algert. Ég rétt gat gert það sem ég nauðsynlega þurfti, en umfram það var engin orka til almennra verka eins og að þrífa og elda og svo framvegis. Sálfræðingurinn minn lagði til að ég virkjaði net til að aðstoða okkur með mat á meðan ég væri þarna svo við myndum fá almennilega næringu en ekki bara lifa á pizzum og öðru sjoppufæði. Ein sem er mér kær, sem hafði reyndar mætt á svæðið með kvöldmat, þekkti þessar aðstæður og vissi að fólk í þessu ástandi þyrfti góða næringu frekar en margt annað. Hún tók við þessu kefli fyrir mig og ég er svo þakklát henni og öllum þeim sem höfðu tíma og getu til að létta undir þarna.

Þessi tími var svolítið eins og að troða marvaða, að bjarga sér frá drukknun. Á þessum vikum var geta mín rétt nægjanleg til að styðja við manninn minn í lyfjameðferð og aukaverkunum og ég setti alla mína litlu orku í það algerlega af fúsum og frjálsum vilja. Enda maki minn til 25 ára maðurinn sem ég elska og á börn með.

Ég skipulagði líf okkar eins vel og ég gat í kringum lyfjameðferðar og við lærðum það að lokinni fyrstu meðferð að fyrsta vikan var erfið, vika tvö aðeins betri og þriðja vika best. Svo lagt var upp með það að njóta eins vel og við getum góða tímans.

Við höfum verið dugleg að fara á tónleika á góðum dögum og í göngur.

Núna er staðan þannig að hann fær viðbótarlyf sem þýðir að við erum niðrá spítala einu sinni í viku og allan daginn þegar krabbameinslyfin eru gefin en það er á þriggja vikna fresti. Það er slítandi en vá hvað ég er þakklát fyrir dagdeild krabbameinssjúkra. Þar vinnur bara frábært fólk og þar er skilningur á því að aðstandendur fara í gegnum heilmikið ferli sem er mjög erfitt og þar er hvatning fyrir okkur um að njóta.

Ég hef verið í mikilli vinnu með sjálfa mig alla tíð og það gaf mér þann þroska að bregðast strax við áfallinu og leita fagaðstoðar og hef nýtt mér sálfræðing og viðtöl við djáknan á Landspítalanum. Það hefur haldið mér á floti og hjálpað mér að rísa og lenda í breyttri tilveru. Einnig hef ég nýtt mér slökun sem er í boði fyrir krabbameinssjúka og aðstandendur þeirra á landspítalanum og ég mæli sko með henni við alla aðstandendur, þvílíkt gott.

Núna er ég að verða líkari mér er að rísa en nýti mér alla þá aðstoð sem ég get fengið og er hætt að þræta við lækninn minn sem setti mig í veikindaleyfi. Það er jú heilmikið að vera í minni stöðu og ég skil núna hvað hann var að fara með því að setja mig í veikindaleyfi.

Ég hef tekið ákvörðun um að nýta veikindaleyfið vel og koma sterkari út úr þessari lífsreynslu og vonandi aðeins betri manneskja.

Ást og friður

SHARE