Lífið er svo óvænt og ófyrirséð

Það hafa komið ófá verkefni upp í mínar hendur frá lífinu og stundum hafa þau verið æði erfið. Já svo erfið að mig hefur hreinlega langað að grafa holu og grafa yfir eða fara til Bankok þar sem engin þekkir mig og ég get týnst í mannfjöldanum. Bankok er kanski ekki besti staðurinn til að týnast í mannfjöldanum, ég svona hvít og allt það!

Þessar hugsanir lýsa vel hversu þreyttur maður hefur verið og uppgefin þegar hörðustu verkefnin hafa herjað á. Jú þannig er að vera mannlegur það er að búa yfir þessari mennsku að vera tilfinningavera.

En seigla mín er umtalsverð og mér hefur auðnast að nýta þessi verkefni mér til þroska.

Nýverið greindist maðurinn minn með illkynja krabbamein í fjórða sinn, já fjórða sinn!

Ekki bara það að hann hafi greinst í fjórða sinn, heldur þá greindist hann með þriðju tegundina, já þriðju tegundina.

Það er víst mjög ótrúlegt og sjaldgæft. Ekki nóg með það heldur er þessi tegund víst ólæknanleg.

Stórt högg sem við áttum ekki von á, nei við áttum von á að hann yrði útskrifaður úr eftirliti þar sem það eru 5 ár síðan hann var með krabba síðast.

Ég ætla aðeins að hleypa ykkur inn í heim aðstandandans enda ekki mitt að skrifa um hann, nema hann óski eftir því.  Óneitanlega mun hann birtast í þessum pistlum mínum og það er algerlega með hans samþykki sem ég skrifa um þessi veikindi.

Áfallið skall á mér þegar hann hringdi og sagði mér að rannsóknin hefði ekki komið vel út, vá hvað það var sárt. Blettir í lungum og þykkildi í hálsi, allt útlit fyrir að um væri að ræða meinvörp.

Ég fékk alveg líkamleg einkenni með þessum fréttum það var eins og einhver hefði sparkað í magann á mér í skóm með stáltá og andlega fór af stað tilfinningafellibylur.

Ég fann hvernig sorgin og óttinn heltust yfir mig og hugurinn fór á flug.

Hvað þýðir þetta? Af hverju?

Nú er allt rólegt og gott og við að njóta, eins og við höfum ekki tekist á við nóg, úff ég þarf að segja börnunum þetta einu sinni en það er svo óhemju sárt, ætli þetta rústi fjárhagnum aftur? En við vorum búin að plana að fara út á tónleika, helvítis fokking fokk þetta er ósanngjarnt og ég nenni þessu ekki aftur. „Kommon“ þú þarna guð er aldrei komið nóg. Fjandinn ég vil ekki þroskast meira, þið vitið erfiðleikar þroska mann og allt það.

Ofantalið er brot af þeirri ringulreið hugsanna sem fóru af stað og ég ætla ekki að þykjast neitt stærri en ég er. Eftir komu nokkrir dagar í ótta og örlaði fyrir vonleysi en ég er svo lánsöm að búa að því að hafa unnið vel með mig í fjöldamörg ár og átti því góða innistæðu á tilfinningabankanum og hef búið mér til stórt stuðningsnet.

Svona áfall hefur mikil áhrif á mann líkamlega og andlega þess vegna var mikilvægt að eiga góða innistæðu.

Síðan þessi greining lá fyrir hefur lífið einhvernvegin umhverfst og ný tilvera tekið við. Tilvera sem við kunnum ekki almennilega á, þrátt fyrir að hafa gengið í gegnum krabbamein af og til í 21 ár.  Já það er rétt í 21 ár, mér finnst það ósanngjarnt og fúlt.

En ekkert er með öllu illt og lífið hefur kennt mér að verkefni verða auðveldari ef ég leitast við að sjá björtu punktana, já það er alltaf eitthvað ljós þó það sé bara smá týra. Stundum samt ótrúlega erfitt að halda í þessa ljóstýru. Suma daga var ég algerlega tóm, bara svona sprungin eins og tóm blaðra en það er eðlilegt þegar maður er í áfalli.

Við erum ótrúleg samstíga hjón þegar kemur að því að slást við lífið og það er ekki efi í mínum huga að við munum standa þétt saman í þessari baráttu. Auk þess er ég svo lánsöm að hafa stórt og öflugt stuðningsnet. Svo er ég líka mjög hlynnt því að fólk nýti sér aðstoð fagaðila, svo eitt stykki sálfræðingur virkjaður og ekki má gleyma þeim stuðningi sem krabbameinsdeildin bíður uppá fyrir aðstandendur og svo eru félög eins og Ljósið og Krabbameinsfélagið með fullt af góðum stuðningsúrræðum, á reyndar eftir að skoða það betur.

Semsagt allt úti til að styðja við eigið sjálf svo ég verði hæf til að styðja við minn mann og mín börn á heilbrigðan máta.  Það er engin skömm að upplifa vanlíðan eða leita sér aðstoðar að mínu mati er það „taboo“ að gera það ekki. Sálræn vanlíðan getur sprottið af stað við svo margt og ef ekki er hugað að henni er ekki langt í að líkaminn veikist með.  Þekki það af eigin raun.

Ást og friður

SHARE