Lík feðgin en gjörólík skáld

Júlía Margrét Einarsdóttir fetar í fótspor föður síns, rithöfundarins Einars Kárasonar, og skrifar skáldsögur. Hann sá snemma að hún hafði sjálfstraustið sem þarf til að vera rithöfundur, en sjálfur þarf hann stundum að vinna sér inn sjálfstraust í skrifum sínum. 

 

Feðginin Einar Kárason og Júlía Margrét Einarsdóttir eru bæði skáld. Það var alls ekki meðvituð ákvörðun hjá Júlíu að feta fótspor föður síns, hún hefur einfaldlega alltaf haft unun af því að skrifa og það lá því beinast við að fara þessa leið. Þau reyna samt að vera aldrei með nefið ofan í því sem hitt er að gera, en Júlíu finnst fínt að hafa pabba innan seilingar ef hún vill bera eitthvað undir hann.

„Mér hefur alltaf fundist rosa gaman að segja sögur og líður vel með það. Þegar ég var í grunnskóla voru sögutímar þar sem við áttum að skrifa sögur. Ég skrifaði langa framhaldssögu af flugbangsa, sem ég á ennþá til. Ég sökkti mér algjörlega í skrifin og talaði ekki við skólafélaga mína á meðan. Þetta var eini tíminn sem ég talaði ekki í. Svo þróaðist þetta bara eftir því sem ég eltist og fór að komast í tölvu,“ segir Júlía um upphaf rithöfundarferils síns þar sem við sitjum í stofunni heima hjá Einari, umlukin bókum sem hillurnar svigna undan.

Svipað andlega innréttuð
„Ég áttaði mig frekar fljótt á því að mig langaði að skrifa og verða rithöfundur. Þegar ég hugsaði um framtíðina þá fannst mér rithöfundarstarfið temmilega venjulegt starf. Ég ætlaði að verða kafari eða rithöfundur, en ég tók smá tíma í að ákveða mig,“ bætir hún við. „Hún sá í hyggindum sínum fljótt að fyrst ég gæti þetta þá færi hún létt með þetta,“ skýtur Einar inn í og brosir til dóttur sinnar. Það var því ekki hann sem atti henni út í skrifin.

„Þetta er fjórða dóttirin á heimilinu og henni var ekkert meira ýtt út skrifin heldur en hinum þremur. En við erum auðvitað þetta skyld og svipað andlega innréttuð þannig það er ekki skrýtið að þetta liggi fyrir henni, fyrst það lá fyrir mér. Það er ekkert skrýtið að þetta erfist að einhverju leyti,“ segir Einar, en sjálfur sendi hann frá sér bókina Passíusálmarnir fyrir skömmu, sem hefur fengið glimrandi góða dóma. Júlía er hins vegar að leggja lokahönd á skáldsögu sem kemur út á næsta ári.

Fann sjálfstraustið í Ameríku
Einar segir Júlíu reyndar hafa sagst ætla að verða leikkona þegar hún var 12 ára, en mamma hennar benti henni á að stundum væri lítið að gera í leiklistinni. Leikarar þyrftu að sitja og bíða eftir því að leikstjórar hefðu samband. Júlía sagði það lítið vandamál, enda myndi hún bara sjálf skrifa leikrit meðan hún biði.

„Þá hugsaði ég með mér að hún hefði allavega sjálfstraustið sem þarf í rithöfundafagið. En það er mjög nauðsynlegt. Ég hef sjálfur oft þurft að vinna mér inn sjálfstraust. Ég man til dæmis þegar ég var að byrja að skrifa Djöflaeyju-trílógíuna og við fjölskyldan bjuggum í Danmörku, þá háði það mér að ég hafði ekki hitt ákveðna týpu af fólki og ég hafði aldrei komið til Ameríku og bækurnar áttu að vera innblásnar af Ameríku. Ég djöflaðist við að skrifa en var aldrei ánægður. Svo fattaði ég að ef ég færi til Ameríku þá myndi ég kannski fá nógu mikið sjálfstraust. Og það var nákvæmlega það sem gerðist. Ég notaði ekkert úr ferðinni en ég fann það þegar ég kom heim að ég réð miklu betur við efnið,“ segir Einar.

Tuskudýr sem sárabætur
Júlía hefur alltaf verið mikil pabbastelpa og henni fannst frekar leiðinlegt hvað hann þurfti að ferðast mikið út af vinnunni þegar hún var lítil. „Hann bætti mér það reyndar alltaf upp með því að kaupa handa mér bangsa, en ég elskaði tuskudýr og lék mér eiginlega ekki með neitt annað. Einn var alltaf í algjöru uppáhaldi en það er blettatígur sem pabbi keypti handa mér í París þegar ég var þriggja ára og heitir „Huggakisa““ segir Júlía en blettatígurinn dró nafn sitt af hlutverki sínu, sem var að hugga.

„Hún hefur alltaf verið frekar hlynnt foreldrum sínum, það verður nú að segjast. Við áttum mjög snemma skap saman og ég las fyrir hana uppáhaldsbækurnar mínar frá því ég var krakki. Henni fannst það frábærlega skemmtilegt. Svo voru alltaf miklir leikir í gangi þegar við löbbuðum saman á leikskólann og þá voru líka sagðar sögur,“ segir Einar.

Bannaði henni að horfa á Reimleika
„Ég er náttúrulega örverpi þannig naflastrengurinn hefur kannski verið lengst að slitna hjá mér. Ég eyði rosa miklum tíma hér og upplifi mig alltaf sem yngsta barn. Jafnvel þó að ég sé að verða þrítug á næsta ári, þá finnst mér ég alltaf vera tíu ára þegar ég er í Barmahlíðinni,“ segir Júlía og hlær þegar hún rifjar upp nýlega sögu af því þegar pabbi hennar hafði vit fyrir henni svo henni liði ekki illa.

„Ég er rosalega myrkfælin og hef alltaf verið. Og þó að ég sé fullorðin og löngu flutt að heiman þá hefur alltaf verið passað vel upp á mig þegar ég kem í heimsókn í Barmahlíðina. Ég hef unnið í Þjóðleikhúsinu í nokkur ár og finnst húsið æðislegt, en fæ stundum óþægindatilfinningu þegar ég er þar ein á ferli a kvöldin og mamma og pabbi vita það. Um daginn var ég heima hjá þeim þegar þátturinn Reimleikar byrjaði og ég ætlaði að horfa. Þá var verið að fjalla um draugagang í Þjóðleikhúsinu svo pabbi slökkti á sjónvarpinu. Ég sagðist hafa ætlað að horfa en hann sagði: „Það kemur ekki til mála Júlía mín, þú færð bara martraðir og sefur illa elsku vina.““
Það fer því ekki á milli mála að Einar lítur ennþá á Júlíu sem litlu stelpuna sína, þó hún sé að verða þrítug. „Mér finnst örstutt síðan hún var pínulítil. Hún var alltaf litla systirin og kunni að notfæra sér það. Eldri systurnar voru voða hrifnar af henni,“ segir Einar og Júlía grípur orðið: „Þær voru allar frekar spenntar fyrir því að eignast litla systur, en ég hefði aldrei tekið slíkt í mál. Ég vissi enga martröð verri en að einhver fengi meiri athygli en ég. Það var því mjög passlegt að ég væri yngst.“ Þau hlæja bæði og vita að þetta er rétt.

„Þeir einu sem hafa verið yngri eru kettirnir,“ bætir Einar við, en þau hafa alla tíð verið með að minnsta kosti einn kött á heimilinu. Nú eru þeir tveir; Jón Stúart og Dúlsínea, sem eru reyndar tæknilega séð í eigu Júlíu, en hafa dvalið í Barmahlíðinni í tvö og hálft ár. Það var neyðarúrræði þegar Júlía var í vandræðum með leiguhúsnæði. „Ég fæ þau aldrei aftur. Mér var gert það ljóst eftir tvær vikur að þetta gengi vel og að ég fengi aldrei að taka þær aftur héðan.“

Til New York að læra handritaskrif
En það er kannski ágætt að kettirnir séu í góðu yfirlæti í Barmahlíðinni því eftir áramót mun Júlía fara lengra í burt frá fjölskyldunni en hún hefur nokkurn tíma gert.
Hún er nefnilega á leiðinni til New York þar sem hún ætlar að læra sjónvarpsþátta- og kvikmyndahandritaskrif í New York Film Academy. En áður en hún fer út mun hún skila inn handriti að fullvaxta skáldsögu til bókaforlags, sem gefur bókina út á næsta ári. Hún stefnir á að fara í gegnum ritstjórnarferlið samhliða náminu, en hún telur það hafa jákvæð áhrif að skipta um umhverfi.
Einar tekur undir það, enda gekk honum sjálfum ekkert að skrifa fyrstu skáldsöguna, Þetta eru asnar Guðjón, fyrr en hann flutti til Danmerkur.

„Hún skilur mig eftir með kettina,“ segir hann og brosir. Í sumar teygðist þó aðeins á naflastrengnum hjá Júlíu þegar hún fór í tveggja mánaða Evrópureisu með kærastanum sínum. „Mér fannst það alveg skelfilegt. Ég var alltaf að hringja heim og pabbi var duglegur að segja mér fréttir af kisunum. Mér fannst það mjög mikilvægt. En ég ætla nú að fá pabba og mömmu í heimsókn til New York,“ segir Júlía sem kvíðir aðskilnaðnum augljóslega, þó að hún sé spennt að hefja nýjan kafla í lífi sínu.

Kvíðin fyrir frumsýningu
Einar og Júlía hafa einu sinni unnið saman að verkefni, en þá fékk hún að túlka sögupersónur úr bók hans, Skálmöld, í samnefndri sýningu í á baðstofuloftinu í Landnámssetrinu í Borgarnesi. Skálmöld var síðasta bókin af fjórum sem fjallaði um Sturlungasögu og í henni var mikið af kvenpersónum. „Kjartan Ragnarsson fékk þá hugmynd að dóttir Einars tæki þátt í sýningunni. Ég er náttúrulega yngst og athyglissjúkust og finnst rosa gaman þegar fólk hlustar á mig blaðra, þannig það lá beinast við að það yrði ég,“ segir Júlía hreinskilin.

„Maður fer yfir ákveðinn þröskuld í svona verkefni. Það vex mörgum það í augum að koma inn í stofu þar sem eru 80 manns og ætla að tala upp úr sér í tvo klukkutíma. Ég var sjálfur mjög kvíðinn þegar ég gerði þetta fyrst, en af því mér tókst þetta þá finnst mér ekkert mál að halda ræður.“

Júlía fann einnig fyrir þessum kvíða á frumsýningunni. „Þá var ég ákveðin í því að ég ætlaði að opna dyrnar og segja fólki að því miður yrði engin sýning. Mér fannst engin leið til þess að ég gæti haldið þetta út. Ég var svo stressuð, sem er mjög skrýtið því ég á að auðvelt með að koma fram.“

Ólíkir höfundar
Júlía segir þau feðginin mjög ólíka höfunda, með ólíkan stíl og vinna með ólíkt efni. „Ég áttaði mig á því þegar ég byrjaði að skrifa af alvöru, í meistaranámi í ritlist uppi í HÍ, að mig langaði oft að skrifa á ákveðinn hátt og langaði að setja mig í einhverjar stellingar. Mér finnst til dæmis pabbi hafa rosalega flottan stíl og er mjög hrifin af hans skrifum. Ég væri stundum til í að geta skrifað eins og hann, en ég áttaði mig á því þegar ég fór að þróast sem höfundur að ég er aldrei jafngóð og þegar ég geri nákvæmlega það sem mér finnst réttast að gera. Og útkoman er gjörólík pabba verkum. Ég hef því aldrei speglað mig í honum þó við séum bæði skáld.“

Mynd/Hari

SHARE