Líkamstjáning – lærið að ráða í hvort annað

Allir skynja líkamstjáningu, en taka ekki endilega mark á henni. Við erum ekki nógu meðvituð um hana. Við reynum á stundum að dylja það sem okkur raunverulega liggur á hjarta, en gleymum því að við getum ekki slegið ryki í augun á börnunum!

Þau bregðast við líkamstjáningunni vegna þess að þau skynja heiminn með eðlisávísun. Það sama á við um fullorðna ef tilfinningar eru í spilinu. Fólk sem er illa statt tilfinningalega er afar háð því að sá sem það sýnir trúnað sé traustsins verður. M.ö.o., að orð, látbragð og líkamstjáning séu sanfærandi. Minnsta merki um skort á hluttekningu af hendi þess sem hlustar, veldur þeim sem talar óöryggi.

Ein aðferð við að læra líkamstjáningu er að setjast fyrir framan sjónvarpið og lækka alveg niður í því hljóðið, og reyna að ráða í hvað fólk er að segja út frá látbragði þess. Þú munt komast að raun um að fólk segir margt með munninum – sem í raun og veru andmælir því sem andlitsdrættir og líkminn segja. Skilaboðin eru tvíræð.

Ef barnið á að taka mark á foreldrunum þegar þeir segja þeim að fara snemma í háttinn, þá er til lítils ef foreldrarnir segja það með orðum en ekki látbragði, þá skilst barninu að það að fara snemma að sofa sé svona gott, af því að það henti fullorðna fólkinu.

Taka skal líkamstjáningu með fyrirvara þrátt fyrir að hún gefi margt til kynna sem geti verið á skjön við það sem sagt er í orðum. Líkamstjáningin getur líka verið komin til vegna þess að viðmælandinn er með kæk.

Ekki er sama líkamstjáningin norður í landi og í höfuðborginni. Einnig getur verið um að ræða mismunandi menningarsvæði. Ef Grikki segir nei kinkar hann kolli. Já er gefið til kynna með því að hrista höfuðið.

Heili manneskjunnar sendir skilaboð út í líkamann um að setja sig í vissar stellingar. Mál líkamans er ómeðvitað og hefur þann tilgang að jafnvægi sé milli þess sem er innra með manneskjunni og þess sem kemur fram út á við.

Ef við verðum meðvitaðri um eigin líkamstjáningu og þýðingu hennar, verðum við einnig betur í stakk búin til að ráða í hana hjá öðrum.

Hægt er að sjá hvort maneskja, sem verið er að tala við er kát, leið, fúl eða pirruð. Hvort hann eða hún er að segja ósatt, er óþolinmóður eða leiðist. Fólk finnur hvort viðkomandi kann vel eða illa við það, er því sammála eður ei, hefur horn í síðu þess, er tortrygginn, reiður eða áhyggjufullur.

Með því að vera vakandi fyrir slíku er hægt að greina duldar félagslegar kenndir, fordóma, kynferðisleg áform, allt með því að bera skynbragð á það sem hægt er að sjá og skynja í umhverfinu.

Líkamstjáningin er fólgin í limaburði, líkamsstöðu, hvernig fólk situr, svipbrigðum í andliti, göngulagi, augnhreyfingum. Venjulegt látbragð, eins og til dæmis að snerta hár sitt eða nef o.s.frv.

Ef maður hallar undir flatt, þýðir það „ég er ekki hættulegur. Það tengist því að mamma hallaði höfðinu á ská, þegar þú hafðir dottið og meitt þig á hnénu. Þannig sýndi hún að hún var ekki reið, heldur hafði samúð með þér. „Æ, en leiðinlegt, ég skal kyssa á bágtið. Þetta gerum við einnig, þegar við eru orðin fullorðin, þó að mamma og pabbi séu ekki til staðar til að hugga okkur. Við klöppum sjálfum okkur á kinnina eða handlegginn, eða núum höndunum saman.

Ef til vill bera menn hendurnar upp að andlitinu, þegar þeir ætla að segja eitthvað, sem er oft merki um óöryggi; það sama á við, ef skeggjaðir menn fikta í skegginu, eða hárinu, klórar sér í hnakkanum eða bak við eyrað. (Látbragð sem við munum mörg eftir úr æsku, þegar við áttum í basli með stærðfræðina, ef til vill í von um að snúa heilastarfseminni í gang.)

Þessi kækur er raunar náskyldur því að klóra sér í höfðinu: „Nú er ég að hugsa. „Ég þarf svolítinn tíma. (Eða kannski klæjar mann bara).

Nafntogaður róttækur stjórnmálamaður er með þann kæk að núa vísifingri undir nefið. Hugsanlega lekur úr nefinu á honum, en það er vafalaust túlkað á þann veg að: „Það getur hugsast að ég sé ekki alveg viss, sem sagt, verulegur vafi!

Sumir halda fyrir munninn þegar þeir tala – merki um feimni – en þeir tala milli fingra sér einsog þeir vilji segja það sem þeir þurfa að koma á framfæri. Einnig getur hugsast að einhver sé móðgaður. „Þvílík ósvífni! Eða sé að segja ósatt, þannig að hann tjái sig í hálfum hljóðum. En það getur líka hugsast að hann sé með skemmda tönn, eða andfúll.

Oft er ekki tilviljun hvernig fólk situr á stól. Ef einhver situr í kuðung og dinglar höndum og fótum gefur það til kynna að honum líði vel og sé afslappaður. Ef einhver situr á brún stólsins, teygir fæturna fram og krossleggur þá, getur það þýtt: „Hvað kemur það mér við!

Dæmi: Vitni í réttarsal sat eins og lýst er hér að ofan, með krosslagðar rosabullur og í volduguri dúnúlpu. Hann krosslagði hendurnar. Dómarinn sagði: „Réttu úr þér, farðu úr yfirhöfninni, annars er það skilið sem vanvirðing við réttirnn.“ Maðurinn var snöggur að hrökkva í lag þegar hann heyrði að hann ætti á hættu að vera sektaður.

Sá sem er að fara til tannlæknis, eða að fara að sækja um vinnu, situr ef til vill á stólbrúninni og klemmir fæturna saman. Ef það er kona rígheldur hún í veskið. Spennan í líkamanum kemur einnig fram í önduninni sem verður grunn og ör. Þegar fólk situr þannig, gæti það stokkið burt, ef þetta verður of hættulegt. Í sjóvarpinu má sjá hvernig fólk grípur svo fast um arma stólsins að hnúarnir verða hvítir.

Ég hef ekki trú á að hægt sé að kenna fólki algerlega að hafa stjórn á líkamstjáningu sinni, fyrr eða síðar muni því verða fótaskortur þegar það verður of uppveðrað – eða er reitt til reiði.

Ef litið er á stjórnmálamenn í heitum umræðum þá eru þeir ef til vill yfirvegaðir – einnig þegar þeim hitnar í hamsi – en fjörfiskur kemur fram við munnvikið eða æðar þrútna á enni þeirra og þeir skipta litum. Konur verða einnig rjóðar í vöngum ef þær finna til feimni eða reiði, en karlmenn verða yfirleitt rauðir á eyrunum.

Í sjónvarpsþættinum „Líf mitt var viðtal við Erik Clausen. Hann er alvanur skemmtikraftur og kallar ekki allt ömmu sína. En þegar Gregers Dirkinck-Holmfeld lék viðtal, þar sem móðir Eriks sagði á hljóðsnældu sem hann hafði meðferðis, „Erik fór alltaf að væla þegar hann tapaði í Matador sem barn, var Erik Clausen nóg boðið, og eyru hans lýstu eins og rauð jólaljós það sem eftir var viðtalsins.

Þegar túlka á líkamsmálið verður að tengja það við það sem viðmælandinn segir, vegna þess að annars er hætt við misskilningi. Þetta verður að meta út frá heildarmyndinni. Mörg atriði verða að gefa það sama til kynna ef hægt á að vera að ráða í að viðmælandi þinn er til dæmis óöruggur með sig. Athuguð eru svipbrigði, hvernig hann notar munninn, augnhreyfingar, augasteinarnir, sem þenjast út eða dragast saman.

Rannsóknir hafa leitt í ljós að yfirleitt er það andlitið sem gefur áreiðanlegustu vísbendingarnar um hugarástand þess, sem er að tjá sig. Svipurinn leiðir í ljós gleði, undrun, reiði eða fyrirlitningu. En ótti heyrist. Til að átta sig á tilfinnigalegu ástandi viðmælanda síns er best að beina athyglinni að andlitsvöðvum hans, hvernig þeir stífna, eða hvernig drættirnir kringum munninn mýkjast og hrukkurnar kringum augun fá þau til að geisla, þegar andlitið tjáir gleði og hamingju.

S ömu drættir sýna fram á reiði eða móðgun, en mjúkir drættir gefa til kynna vináttu og blíðu – en áttaðu þig á því; aðeins ef það nær til augnanna. Brosandi munnur án þess að augun fylgi með virkar falskur og miður traustvekjandi.

Ef maður lyftir og lækkar augabrúningar hratt er það skilið sem viðurkenndur tjáningarmáti. Þegar maður tjáir sig á þann hátt gefur það til kynna undrun – jafnvel vanþóknun.

Þegar maður lyftir augabrúnunum og deplar öðru auganu á sama tíma er það daður. Í Japan, til dæmis, er það afar óviðeigandi, jafnvel dónaskapur að lyfta augabrúnunum.

Tár og hlátur eru tjáningarform sem halda mætti að auðvelt sé að skilja. En tár spretta fram við ýmis tækifæri og geta haft ýmsa þýðingu, ýmist sorg, gleði eða reiði. Hlátur getur verið til merkis um gleði og vináttu, en einnig fyrirlitningu og háð. Við getum einnig brugðist við með hlátri, ef við fyllumst skelfingu, eða verðum fyrir óhugnanlegri reynslu.

Af og til kemur fyrir, að fólk, sem vinnur með öðru fólki, m.a. í félags- og heilbrigðiskerfinu, skellir upp úr, ef það sér eða heyrir eitthvað skelfilegt, þar sem ofbeldi, svívirðing eða dauði kemur við sögu. Þetta eru varnarviðbrögð, til að brotna ekki saman og fara að gráta. Fólk, sem er með dauðann inni á gafli daginn út og inn, þarf að geta fíflast, til að halda sönsum.

Líkamstjáning er spennandi viðfangsefni, en hún er ekki algild og því þarf að fara með aðgát. Manni getur auðveldlega skjátlast.

doktor.is logo

SHARE