Listflug er gott fyrir geðheilsuna og stórkostlegt fyrir útlitið

„Eftir að mér var sagt upp á Stöð 2 tók ég ákvörðun um að gera helst ekkert sem mér finnst leiðinlegt, vinna bara nákvæmlega eins lítið og ég þarf og leika mér þeim mun meira,“ segir sjónvarpskonan Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir sem eyðir nú flestum stundum úti á flugvelli þar sem hún smíðar, ásamt félögum sínum, listflugvél og lærir að fljúga henni. Það er ekki vinna sem slík og því „þarf“ hún að eigin sögn að vinna nokkra daga í mánuði sem leiðsögumaður. „Ég fer nokkra túra með ferðamenn og nýti mér síðan tengslanet mitt í jaðaríþróttum til að hjálpa til að mynda með kvikmyndagerðarmönnum sem koma hingað til að taka upp þætti og myndir.“

En það er listflugið sem á hug hennar allan og hún bókstaflega lifnar við þegar talið berst að því. „Ég gæti nú eiginlega skrifað sjálfshjálparbók um þetta undur. Listflugið er nefnilega ekki bara gott fyrir geðheilsuna heldur gerir líka stórkostlega hluti fyrir útlitið,“ segir Sigríður Elva og hlær. Hún viðurkennir fúslega að vera adrenalínsjúklingur og að listflugið uppfylli þörf hennar fyrir háska og hættu.

26269 Sigríður Elva
Sigríður Elva segir flugið draga fram fegurðina í andlitinu.

 

Eins og sakir standa eru hún og félagar hennar að smíða Pitts listflugvél. Verið er að leggja lokahönd á vængina og síðan verður byrjað á skrokknum. „Þetta er í það minnsta tveggja ára verkefni og síðan þarf ég víst að læra að fljúga þessu. Reyndar stefnir allt í að ég verði fyrsti próflausi heimsmeistarinn í listflugi. Ég er frábær í að fljúga á hvolfi en ég kann ekki að lenda. Flugkennarinn minn segir mér þó að hafa ekki áhyggjur af því þar sem þessar vélar lenda alltaf á endanum,“ segir Sigríður Elva sem í millitíðinni flýgur um háloftin á annarri vél sömu gerðar.

26269 Sigga

Og þótt verið sé að smíða eina vél þá er líka unnið í vélinni sem flogið er á í dag. „Dvergurinn ég næ ekki niður á pedalana með fallhlíf á bakinu eins og vélin er í dag. Það er víst bæði æskilegt að vera með fallhlíf og ná niður á pedalana þegar maður flýgur svo við þurftum að smíða nýtt sætisbak í hana með ramma til að skorða fallhlífina. Þá verð ég alveg til fyrirmyndar í vélinni, með fallhlíf og næ niður á pedalana,“ segir Sigríður Elva.

 

Birtist fyrst í amk, nýju fylgiblaði Fréttatímans.

SHARE