Lögreglan auglýsir eftir hælisleitendum

Lögreglan lýsir eftir Albaníumanninum Robert Qyra (til hægri), Afgananum Rahim Jan Salim (í miðju) og Nígeríumanninum Tony Omos (til vinstri). Lögreglan lætur engar upplýsingar í té varðandi tildrög þess að þeir eru eftirlýstir.

Samkvæmt upplýsingum frá DV er Tony Omos í felum eftir að hafa verið synjað um umsókn um hæli og er hans því leitað svo hægt sé að senda hann úr landi. Lögfræðingur hans hefur gagnrýnt vinnubrögðin í málinu harkalega og sagt þau forkastanleg en til stendur að vísa honum úr landi þrátt fyrir að kona gangi með ófætt barn hans hérlendis. Tony er 35 ára.

Rahim Jan Salim, 21 árs Afgani, virðist einnig vera hælisleitandi en hann var dæmdur í þrjátíu daga fangelsi fyrir skjalafals árið 2012, þar sem hann framvísaði fölsuðu vegabréfi.

Athygli er vakin á því að flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna kveður á um að ekki megi fangelsa hælisleitendur fyrir að koma ólöglega til lands. Óvíst er hvort til standi að vísa Rahim úr landi en fjöldi hælisleitenda er í felum eftir að umsókn þeirra um hæli var hafnað. Þess skal getið að um 92 prósent af hælisumsóknum hérlendis er hafnað.

Robert Qyra var hins vegar ekki dæmdur fyrir skjalafals enda er hann Albani og þyrfti ekki að framvísa vegabréfi við komuna til landsins, væri hann hælisleitandi. Því er óvíst hvers vegna lögreglan lýsir eftir honum.

 

SHARE