Lugu því að koffeinklæði tættu kílóin af konum

Það er ekki öll vitleysan eins og fátt sem auglýsendur megrunarlyfja leggja ekki á sig í þeirri von að ginna grunlausa neytendur til að kaupa vitagagnslausa vöru sem ætluð er að grenna fólk með öllum ráðum.

Nú hafa lífstykki, brjóstahaldarar og sokkabuxur sem sagðar voru bættar með koffeinlegi sem átti að stuðla að þyngdartapi verið teknar úr sölu á bandarískum markaði en fyrirtækin sem að baki svindlinu stóðu hafa verið skikkuð til að endurgreiða kaupendum að fullu.

Þetta kemur fram á fréttaveitu Reuters en neytendasamtökin þar í landi skárust í leikinn eftir að undirfatnaður sem sagður var bættur með koffeini, náði talsverðri fótfestu á markaðinum en nærfötin voru sögð þeim eiginleikum gædd að grenna konur.

Ef einhver reynir að telja þér trú um að þú getir keypt þér föt frá ákveðnu vörumerki sem hreinlega tæti af þér kílóin, skaltu halda þér í órafjarlægð. Ekki trúa þessu bulli. Besta leiðin í átt að kjörþyngd er einföld – líkamsæfingar, mataræði og heilbrigður lífsstíll. — Jessica Rich, formaður bandarísku Neytendasamtakanna.

Svo langt gekk svindlið að fyrirtæki nokkuð sem gerir út frá Oregon, Norm Thompson, setti fatnað á markað undir vörumerkinu Lytess sem sagður var koffeinbættur og loforðið var að efnið bryti hreinlega niður líkamsfitu. Það eina sem þyrfti að gera væri að klæðast fatnaðinum.

Stinnandi og grennandi áhrifa má gæta innan mánaðar – sagði í yfirlýsingu frá fyrirtækinu í einni auglýsingu sem kærð var til neytendasamtakanna.

Annað fyrirtæki, Wacoal America, staðhæfði þá í sínum auglýsingum að míkróöreindir sem innihéldu koffein, E vítamín og önnur styrkjandi efni væru ofin í efnisstrangana sem klæðin væru sniðin úr. Ein auglýsingin staðhæfði að hin byltingarkennda iPant undirfatalína ynni viðstöðulaust að því að brjóta niður appelsínuhúð á erfiðum líkamshlutum.

Við nánari athugun reyndist hvorugt fyrirtækið geta fært almenn rök fyrir voguðum yfirlýsingum sínum og engar haldbærar rannsóknir virtust liggja að baki megrunarloforðunum.

Fyrirtækin tvö hafa nú verið sektuð um háar fjárhæðir og krafin um fulla endurgreiðslu vegna sviksamlegrar vöru og nemur talan hvorki meira né minna en 180.000 milljónum íslenskra króna.

Skyndilausnir duga skammt sem áður, fatnaður sem grennir er ekki til og eina svarið við þyngdartapi mun breyttur lífsstíll en ekki koffeinofinn nærfatnaður sem sagður er tæta kílóin af konum. Slíkur fatnaður er því miður ekki til.

SHARE