LUMBERSEXUAL: Fúlskeggjuð kyntröll sem gneista af karlmennsku

Metrómaðurinn er vaxinn úr grasi, gott fólk. Liðnir eru ljúfir dagar drengjanna sem stigu fínkembdir fram á sjónarsviðið í upphafi síðasta áratugar, betur klipptir en fögur kona á góðvirðisdegi og angandi af rándýru rakakremi. Horfin eru logagyllt armböndin og fínpússaðir lakkskórnir. rándýrir kasmírfrakkarnir rykfalla í gömlum geymslum og viðkvæmnislegur tálsvipurinn er á bak og brott.

Þeirra í stað er fullvaxið karlmenni stigið fram á sjónarsviðið: „Skógar-hönkið” – eða „Lumbersexual” eins og kyntröll samtímans nefnast á frummálinu. Fúlskeggjaðir karlar með hrátt og þungt daðursblik í augum, íklæddir köflóttum (og vatnsheldum) flónelskyrtum, með úfið hár og sterklegar hendur hafa loks tekið völdin í eigin hendur.

screenshot-www.youbeard.com 2014-11-14 16-56-55

screenshot-www.youbeard.com 2014-11-14 16-52-23

Eins og það sé ekki nóg; Lumbersexual er fátæklegt hugtak sem varla nær að lýsa því dýrslega aðdráttarafli sem fúlskeggjaðir karlar með ógreiddan lubba búa yfir, íklæddir hraustlegum gönguskóm og vopnaðir veðruðum baksekkjum sem myndu sóma sér vel uppi á fjalli og voru eflaust hannaðir til að geyma skógarhöggsexi, bláberjabox, látlausan svefnpoka og slitinn vatnsbrúsa í upphafi.

 

screenshot-www.youbeard.com 2014-11-14 17-22-36

screenshot-www.youbeard.com 2014-11-14 17-20-47

 

Látið þó ekki blekkjast af óhömdu yfirbragði Lumbersexual mannsins eða Skógarhönksins eins og hann hér eftir verður nefndur í þessari grein. Skógarhönkið er siðfágað karlmenni sem kann kurteisi upp á tíu og er séntilmaður fram í fingurgóma; hann kann vel að meta fíngerðari blæbrigði lífsins og þénar á við aðra heilbrigða meðborgara sína.

Allar líkur eru á því að Skógarhönkið sé í traustri atvinnu, jafnvel innan tæknigeirans og hann dreypir karlmannlega á dökku öli um helgar. Jafnvel má finna Skógarhönkið á betri börum bæjarins þegar rökkva tekur, svona þegar hann er ekki að munda exina uppi á fjöllum í þeim tilgangi að safna í eldivið – nú, eða einfaldlega til að hefla til við og smíða úr kommóðu. Eða borðstofuborð ….

screenshot-www.youbeard.com 2014-11-14 17-37-52

 

screenshot-www.youbeard.com 2014-11-14 17-40-13

 

Skógarhönkið aðhyllist lífrænan lífsstíl. Hann ræktar kryddjurtir í eldhúsglugganum, smíðar gjarna sín eigin húsgögn og er stórkostlegur félagi á göngu úti í guðsgrænni náttúrunni. Hann státar af brúskuðu og óhömdu skeggi, sem teygir sig voldugt ásýndar allt niður á karlmannlega bringuna og hann hefur sjaldan fyrir að greiða úr sjálfum brúskinum, þó hann sannarlega hirði vel um hárvöxtinn.

Skógarhönkið er líflegur félagi, heilbrigður á líkama sem sál og er tekinn yfir sjónarsviðið, gott fólk. Hann er metródrengurinn sem óx úr grasi, kastaði leðurklædda kortaveskinu og greip bakpokann, gekkst við innri hormónaólgunni og er stoltur af eigin testesterón framleiðslu. Það sem meira er; hann hefur fullt vald á eigin karlmennsku.

screenshot-www.youbeard.com 2014-11-14 17-44-46

screenshot-www.youbeard.com 2014-11-14 17-46-26

 

Ritstjórn styður Skógarhönkið í einu sem öllu og fylgist grannt með framvindu mála; ætlunin hér er ekki að tíunda hlutverk Skógarhönksins til fullnustu heldur fremur að kynna til leiks hinn fullorðna Metrómann sem nú hefur látið sér vaxa skegg og þrammar, vopnaður skógarexi og fjallgönguskóm, til móts við tískupallana.

Fylgist með á næstu vikum – HÚN mun grandskoða hönkið.

#lumbersexual

SHARE