„Má ég kynna fyrir ykkur kvöldmatinn í kvöld”

Ásdís Sólrún Arnljótsdóttir, fimm barna móðir og öryrki, birti færslu á facebook á dögunum sem vakið hefur athygli. Þar birtir hún mynd af kvöldverðinum sínum og bendir á að nýjustu neysluviðmið ríkisstjórnarinnar séu ekkert í líkingu við það sem öryrkjar hafi þurft að taka mið af síðastliðin ár. Textinn er átakanlegur og gefur innsýn í bágan veruleika margra sem eru óvinnufærir vegna veikinda.

Hún.is birtir hér myndatextann í heild sinni með góðfúslegu leyfi Ásdísar Sólrúnar, sem segist vera 75% öryrki og þjást af nýrnabilun.

Ásdís Sólrún skrifar:

„Ríkið segir 250 krónur duga fyrir máltíðinni… og allir flippa yfir. Ég er 75% öryrki með lífshættulegan erfðasjúkdóm. Var einnig orðin öryrki þegar ég hélt heimili með 5 unglingum á örorku. Allt skammtað og allir læra að það er ekki við hæfi að borða sig sadda. Matur er aðeins fyrir næringuna og efnað fólk. Allir komist vel frá borði!

Við öryrkjar og láglaunastéttir sem erum langt undir kr. 200.000.- á mánuði borgum skatta, reikninga, rándýr lyf og rándýra sérfræðinga. Öll útgjöld eru í forgangi ásamt matarkostnaði. Stundum hafði ég kr. 250 á dag í mat, stundum kr. 340,- Það hefur ekki breyst með tímanum, þó fækkað hafi í heimili.

Má ég kynna fyrir ykkur kvöldmatinn í kvöld. 7 spínatblöð með brotabroti af gulrót í forrétt. Belgbraunir (gamlar) (ræðum það ekki.) Gatorade-lögg en ein flaska dugar mér í 3 sólarhringa. Spara heilbrigðiskerfinu milljónir að drekka slurk og slurk og lenda ekki lengur í dripp-inndælingum á Lsp. v/meðfædds galla í millufrumuvef eins og óteljandi oft áður. (Vökvi og steinefni ruglast í líkamanum.) 7-9-13…

Aðalrétturinn eru eplabitar í ab-mjólk laktósafrí (því annars lendi ég í uppköstum og á spítala.) Hún er EKKI frá MS heldur ÖRNU, Bolungarvík. Muna að bera allan mat fram á barnadiskum, undirskálum eða diskum úr dúkkuhúsum barnabarnanna. Reyndu ekki að halda veislu eða bjóða einhverjum í mat. Farðu í ferðalög á kostnað annarra. Lærðu og reyndu að venja þig við að vera þiggjandi um leið og þú reiknar fram í tímann langt yfir eðlilegum streitumörkum. Hvernig þú borgar persónulegar skuldir eins og t.d. tannviðgerðir og liðin jól, páska og jólin fyrir 2 árum. Mundu að vera kurteis og þakka meðal annars fyrir sundkortið sem þú færð hjá Sjálfsbjörg og kostar kr. 1.500,- að leysa út. Umvefðu græna örorkukortið og farðu með það eins og sjáaldur augna þinna eða giftingahring.

Þetta er eini maturinn sem ég öryrkinn og örugglega fleiri hef borðað í dag. Sumir jafnvel ekkert. Börnin mín láta mig hafa vasapeninga svo ég fæ kaffibolla og hollustubrauðsneið með góðum konum fyrir hádegi sem kostar kr. 370.- En þarna skýt ég mig í fótinn því á myndinni sést að ég fer yfir græðgismörkin í mat og í óþökk ráðamanna.

Hvernig hef ég lifað síðastliðin þrjú ár. Tek það fram að ég reyki ekki, drekk ekki, kaupi aldrei föt, skó eða snyrtivörur. Borða aldrei sælgæti eða kaupi ís. Rek ekki lengur gamla 14 ára Volksvagen Golfinn. Fer aldrei á mannamót eða eitthvað til upplyftingar sem kostar peninga.

Ég elda mánaðarlega þrjár heitar máltíðir. Alltaf í byrjun mánaðar. Borða hjá borginni oftast tvisvar í vikur (máltíðin 650 kr.) Fæ að borga þær um hver mánaðarmót af örorkunni. Borða einu sinni í viku heima hjá dóttur minni og fjölskyldu. Reyni einnig að borða einu sinni í mánuði hjá syni mínum og fjölskyldu ásamt einni máltíð hjá vinkonu minni. Fæ oft kjúklingabita og sætar kartöflur hjá öðrum syni mínum ásamt hafragraut.

Án gríns þá er kúnst að læra að þakka fyrir að missa heilsuna og þurfa að lifa á bótum! Eins og kona sagði við mig um daginn, sem er einnig öryrki og í sama bruðlinu í mat eins og ég og lendir oft á útrunnum mat sem er gefinn;- “Ef efnaða fólkið, ráðherrar og hálaunastéttir ásamt millistéttinni sem eiga alltaf fyrir mat: Hafa einhverntíman kynnst því að verða svöng. Þá eru þau ÖLL búin að gleyma því.”

Matarlöggan mætir á Grandann á morgun og fer fram á skerðingu á eplunum í ab-mjólkinni, spínatinu og gatorade.
Með þessum sannleika og meðfylgjandi mynd er ég alls ekki að biðja um vorkunn. ALLS EKKI. Heldur staðreyndir á mynd til umhugsunar við hvaða kjör öryrkjar, aldraðir sem eru eignalausir og láglaunastéttir höfum búið við lengi, lengi, lengi. Löngu fyrir hrun og ekki glæðist ástandið.

Sundkortið er ljós mitt í skammdeginu eins og margt sem er gefandi til dæmis með áhugaverðum samskiptum við fólk. Hvar í stétt eða stöðu sem það er.”

Færslu Ásdísar Sólrúnar má sjá með því að smella hér.

SHARE