„Maður segir nú ekki nei við meistara Bó, er það?“

Guðný Gígja Skjaldardóttir og Bjartey Sveinsdóttir, söngkonur í hljómsveitinni Ylju, munu koma fram á Jólatónleikum Björgvins í fyrsta sinn í ár. Þær hafa í nógu að snúast en hljómsveitin Ylja er að gefa út aðra breiðskífu sína 6.nóvember auk þess sem Ylja mun koma fram á Airwaves, sem hefst í dag.

Gera ráð fyrir fjöri og jólastemningu

„Við fengum boð um að vera með og maður segir nú ekki nei við meistara Bó, er það? Við höfum hvorugar farið á svona stóra jólatónleika svo við vitum eiginlega ekkert við hverju við eigum að búast. Við gerum samt ráð fyrir miklu fjöri og jólastemningu! Útsetningar á lögunum eru hafnar, enda mikið batterí í gangi, bæði kórar og stórsveit. En æfingarnar fyrir okkur byrja ekki alveg strax. Á meðan er andlegur undirbúningur í gangi.“

Gígja og Bjartey kynntust í Flensborgarkórnum í Hafnarfirði á framhaldsskólaárunum þar sem mikil vinátta og sameiginlegur áhugi á tónlist spratt upp hjá þeim. Við fengum að forvitnast aðeins um bakgrunn þeirra beggja.

vidtal

Gígja: 

„Ég er alin upp á Patreksfirði með foreldrum mínum og tveimur systkinum, Svanhvíti Sjöfn og Pálma Snæ. Við erum öll mjög náin og það líður ekki sá dagur að ég heyri ekki í einhverju þeirra. Ég hafði alltaf verið að grúska eitthvað í tónlist, enda mikið tónlistarlíf í fjölskyldunni, glamraði á píanó sem við vorum með heima og var alltaf að syngja. Draumurinn um að verða söngkona var alltaf til staðar og fékk hann að njóta sín á hinum og þessum bæjarhátíðum þar sem ég kom oft fram, annað hvort með systur minni eða æskuvinkonu minni, Elvu Mjöll.

Að framhaldsnámi loknu fór ég í heimsreisu og byrjaði svo að vinna á leikskóla. Ég undi mér vel í því starfi þar til núna í mars þegar ég vildi breyta til og fór að vinna á KEX-hostel. Þar er vinnutíminn aðeins sveigjanlegri, sem hentar betur tónlistarlífinu. Ég er í HÍ í Þjóðfræði, ásamt því að vera á fullu í tónlistinni og síðan vinn ég aðeins á KEX með.

 

Bjartey:

Ég er alin upp í Hafnarfirði með foreldrum mínum og tveimur systkynum, Birki og Bylgju. Ég hef sungið mikið frá því að ég var barn og ég var bókstaflega alltaf syngjandi hástöfum alla daga hvar og hvenær sem er. Bróður mínum fannst þetta mjög oft pirrandi hvað ég gólaði mikið.

Á meðan ég bjó Hafnarfirðinum fór ég í Flensborgarkórinn og kynntist þar henni Gígju minni. Við smullum strax svona vel saman, æfðum daginn út og inn og fengum aldrei leið á því sem við vorum að gera. Eftir það fór ég í Iðnskólann í Hafnarfirði á listnámsbraut en við Gígja hættum eki að gera það sem okkur þótti skemmtilegast! Nú vinn ég á leikskólanum Vesturborg ásamt því að spila og bý með Hlyni kærastanum mínum, henni Gígju og Ásgeiri vini okkar og „umba“ í Reykjavík, það er mikið líf og fjör á okkar heimili.

Screen Shot 2014-11-05 at 18.03.01

Hljómsveitin Ylja

 

Hvernig gengur að samræma tónlist, líf og starf almennt?

Gígja: „Það gengur en það er stundum mjög erfitt. Maður veit svo lítið hvað er framundan í tónlistinni og oft koma upp verkefni með stuttum fyrirvara. Við þurfum oft að redda okkur fríi úr vinnu, fara fyrr, eða skreppa í hin og þess verkefni. Það getur oft verið leiðinlegt, en sem betur fer höfum við oftast mætt miklum skilningi og stuðningi. Núna er ég í 100% námi og  þar sem við höfum verið að taka upp plötuna og leggja lokahönd á hana í haust hefur mér þótt svolítið erfitt að ná fullkominni einbeitingu að náminu. Tónlistin og allt í kringum það á svolítið huga manns og oft fylgir því stress. En á sama tíma er þetta svo ógeðslega gaman að maður gæti ekki ímyndað sér annað en að vera á fullu enda býr mikil vinna og ástríða að baki.“

Screen Shot 2014-11-05 at 18.03.14

 

 


Hvernig er staðan núna? Hvað er framundan hjá Ylju?
Bjartey: „Það er oft mikið púsluspil og smá stress, við þurfum alltaf að vera með puttann á púlsinum. En ég gæti ekki verið ánægðari í 100% vinnu á leikskólanum Vesturborg, ég nýt þess virkilega mikið að vinna á leikskóla. Mjög gefandi og skemmtilegt starf og að vera í tónlistinni líka er alveg fullkomið.“

„Platan er tilbúin og kemur út á morgun, 6. nóvember. Við erum ótrúlega ánægð og stolt með útkomuna og hlökkum til að heyra viðtökur. Það er nóg framundan, nú er Airwaves að hefjast þar sem við verðum að spila bæði í Listasafni Reykjavíkur og í Norðurljósum í Hörpu, ásamt þremur off-venue giggum. Útgáfutónleikarnir verða svo haldnir í Kaldalóni í Hörpu 28.nóv þar sem öllu verður tjaldað til! Við förum á Evrópu-túr í vor eða næsta haust og nokkur festivöl hafa sýnt okkur áhuga fyrir sumarið. Þannig að það er bara mikil óvissa og spennandi tímar framundan.“

Screen Shot 2014-11-05 at 15.02.19

Eitthvað skemmtilegt eða spennandi sem þið viljið deila með lesendum?
„Við viljum endilega benda fólki á að læka og fylgjast með Facebook-síðunni okkar þar sem við erum dugleg að setja inn það sem er í gangi hjá hljómsveitinni. Einnig viljum vekja athygli á plötunni okkar sem kemur út núna 6. nóvember og við minnum á útgáfutónleikana 28.nóvember. Miðasala er hafin á www.midi.is

SHARE