„Maður væri sálarlaus ef maður tæki þetta ekki stundum inn á sig“

„Maður væri sálarlaus ef maður tæki þetta ekki stundum inn á sig“ viðtal við Frímann Andrésson útfararstjóra og plötusnúð

 

Hvernig kom það til að þú fórst að starfa sem útfararstjóri, hvernig verður maður útfararstjóri?

„Að verða útfararstjóri er ekki sér nám hér heima. Það þarf fyrst og fremst að vera lipur í mannlegum samskiptum og hafa góða nærveru til að geta unnið þessa vinnu.

Sjálfur byrjaði ég að vinna í Fossvogskirkjugarði með framhaldsskóla og á sumrin. Eitt árið tók ég mér jafnframt frí frá námi og vann í garðinum. Árið 1993, eftir útskrift, var ég stefnulaus og þáði fasta vinnu sem grafari og vélamaður. Þremur árum seinna losnaði síðan sumarstarf hjá útfararstofunni og ég hef unnið þar síðan.“

 

Hvað felst í starfi þínu?

„Starfið snýr að öllu sem varðar andlát, það er útför, kistulagningu og líkflutninga. Þegar andlát verður á sjúkrastofnunum, heimahúsum eða annars staðar erum við kallaðir til og flytjum hinn látna í líkhúsið í Fossvogi. Við aðstoðum einnig aðstandendur við að skipuleggja útförina. Það þarf ýmislegt að gera, til að mynda undirbúa hinn látna fyrir kistulagningu, standa kistulagningu og útför, keyra kistuna í viðkomandi kirkju fyrir útförina. Að lokum þarf síðan að keyra kistuna í garðinn þegar athöfninni lýkur.

Menn eru einnig á bakvakt og eru kallaðir út, til dæmis af lögreglu þegar andlát ber skyndilega að. Starfið fer sem sagt mikið til fram á bak við tjöldin.“

 

Þú ert þó helst þekktur fyrir að vera plötusnúður sem spilar raftónlist. Hvernig kom það til?

„Ég hef haft brennandi áhuga á danstónlist síðan ég var unglingur, en slík tónlist fór að ryðja sér til rúms þegar ég var í menntaskóla. Ég veit ekki alveg hvernig þetta kom til, plötusnúðar voru mikið að taka við af sveitaböllunum.

Þegar maður var að byrja voru nánast engar plötubúðir á Íslandi og pabbi, sem fór reglulega erlendis, fékk gjarnan lista með sér og var látinn kaupa plötur.

Núna er ég þó farinn að kaupa allt stafrænt. Ég á enn fullt af plötum, örugglega á bilinu 5-6.000 plötur, sumar sem ég mun aldrei selja. Vínillinn hefur þó verið í sókn undanfarin ár. Það er svo ótrúlegt magn gefið út á stafrænu formi að það er orðið pínu sterílt. Efni er dælt á netverslanir. Tugir þúsunda titla á mánuði. Margir vilja sneyða hjá því og vilja meðhöndla plöturnar, það er nefnilega skemmtilegt. Stafræna tæknin er þægileg, en hitt hefur sinn sjarma.“

 

Finnur þú fyrir fordómum í vinnunni vegna tónlistarinnar? Eða kemur það kannski ekki mikið til tals?

„Nei, alls ekki. Þó að starfið sé alvarlegt er mikill og góður mórall. við sláum þessu með tónlistina frekar upp í grín, að þegar mín kynslóð fari að falla frá verði ég aðal maðurinn. Þetta eru vissulega miklar andstæður, en gaman að því.“

 

Af hverju raftónlist? Hvar og hvenær komstu fyrst í kynni við slíka tónlist?

„Hún hefur bara alltaf höfðað til mín, Fyrst spilaði maður popptónlist, svo kom danstónlist í beinu framhaldi og í rauninni af sjálfu sér. Ég var alltaf meira í hörðu deildinni, Techno, heldur en þeirri mjúku eða house tónlist. Þessi tónlist skiptist í dag í nokkrar stefnur, og það er í raun hægt að flokka hana endalaust ef menn vilja.“

 

Hefur þú einhvern bakgrunn í tónlist? Lærðir þú á hljóðfæri?

„Nei í rauninni ekki, ég lærði á píanó einn eða tvo vetur. En fyrir utan það hef ég engan grunn í tónlist. Það hefur heldur aldrei höfðað til mín að búa til mína eigin tónlist, ég hef ekki þolinmæði í það.“

 

Þú sagðir í gömlu viðtali að þú hugsaðir starf útfararstjórans sem millibilsástand. Að þú ætlaðir ekki að gera þetta að ævistarfi þínu því þú taldir það geta lagst á sálina. Síðan hafa liðið 15 ár og þú ert enn starfandi útfararstjóri. Hvað breyttist?

„Þá hafði ég unnið sem útfararstjóri í einhver 3 ár, var tiltölulega ungur og sá ekki fyrir mér að þetta yrði ævistarf mitt. Nú er ég orðinn fjölskyldumaður og ráðsettari. Síðan er ekki ólíklegt að maður verði sjóaðri, maður fær meiri reynslu og allt verður þægilegra og einfaldara. Maður væri sálarlaus ef maður tæki þetta ekki stundum inn á sig, sérstaklega þegar ungir einstaklingar kveðja, en þetta er einnig mjög þakklátt og gefandi starf.“

 

Þú ert einnig virkur björgunarsveitamaður, og hefur verið í fjölda ára. Hvað er það við björgunarsveitirnar sem þér þykir heillandi?

„Þetta er fyrst og fremst frábær félagsskapur og alltaf nóg að gera. Maður stjórnar því mikið til sjálfur hvað maður gerir og velur sér áhugasvið. Ég var mikið í skyndihjálp og fallhlífarstökki og starfaði með Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík. Í kringum 1995-96 fór ég að spila mikið og dró mig að hluta til út úr starfinu. Svo seinna var ég spurður hvort ég vildi koma í aðgerðarstjórn björgunarsveitanna og er búinn að vera í henni síðan 2003. Þetta er púsluspil, helgarnar eru síðan stundum undirlagðar af spileríi, svo maður verður að velja og hafna.“

IMG_0651

 

Að lokum, ætlar þú á Sónar? Ef svo er, hverju ertu spenntastur fyrir?

„Já ég ætla að kíkja. Ég var að spila þar í fyrra, en það eru svo margir sem vilja komast að þannig að ég verð í fríi í ár. Ég er til dæmis spenntur fyrir Ninu Kraviz, Paul Kalkbrenner, Grétari, Adda exos, Bjarka, Thor og fleiri spámönnum.“

 

 

Tengdar greinar: 

„Ég held ég hafi alltaf þjáðst af kvíða“

„Ég reyndi að fremja sjálfsmorð“ – Sigga Kling um þunglyndi og sjálfsvíg

 

 

SHARE