Mamma elskar mig!

Hæ! Ég er lítill drengur sem kemur í heiminn í nóvember. Ég get því miður ekki kynnt mig með nafni að svo stöddu þar sem foreldrar mínir báðu mig um að hafa ekki hátt um það fyrr en ég er mættur á svæðið. Ég er samt alveg með nafnið mitt á hreinu, mamma hvíslar því oft að mér. Mamma, pabbi og stóri bróðir geta ekki beðið eftir að hitta mig en þau svindluðu smá um daginn og kíktu á mig. Þau fengu að sjá mig í 3D sónar, þau fengu meira að segja að sjá mig hreyfa mig. Ég veit nú ekki alveg hvað mér finnst um að það sé verið að trufla mig svona þegar ég er að reyna að hvíla mig. Mér finnst best að kúra mig upp við fylgjuna og ég er ekki mikið fyrir það að láta taka myndir af mér. Ég vil helst kúra upp við fylgjuna mína með hendur fyrir andliti en ég er strax farinn að leita eftir einhverju til að sjúga, ég sýg puttana mína og jafnvel táslurnar líka. Mamma, pabbi, stóri bróðir, báðar ömmur mínar, afi minn og langamma komu öll til þess að sjá mig en ég var búin að steingleyma því svo að ég var einmitt að leggja mig þegar þau ætluðu að heilsa upp á mig. Mér fannst þau nú örlítið ósanngjörn að vekja mig svona, og ég ætlaði ekkert að gefa mig neitt.

Mamma hljóp upp á 7undu hæð og skreið á gólfinu, ég var bara í svo góðri stellingu, mig langaði ekkert að breyta henni. Ég gaf mig þó á endanum og leyfði þeim að sjá mig í smá stund. Ég er nú alveg hissa á viðbrögðum þeirra. Þau áttu ekki orð yfir því hvað ég er fallegur. Mamma sagðist aldrei hafa séð neitt fallegra og amma sagði að ég væri líkur bróður mínum. Ég opnaði augun enda var ég alveg hissa á þessu brölti í mömmu.

Ljósmóðirin sagði foreldrum mínum að ég yrði eflaust mikið fyrir það að kúra með mömmu og pabba og að ég muni sækjast mikið í knús. Mamma er ekki mikið fyrir knús en hún ætlar aldeilis að

gera undantekningu þegar ég kem í heiminn og knúsa mig mikið og lengi, hún ætlar meira að segja að kyssa mig líka, ég veit nú ekki hvað mér mun finnast um það!


Mamma, pabbi og stóri bróðir minn voru að tala um það í gær hvað þau væru spennt að fá mig til sín, ég heyrði það allt saman. Þau sögðu að 3D sónarinn hefði verið dásamlegur og að nú sé þetta allt saman enn raunverulegra. Mamma segir að henni finnist 11 vikur ótrúlega langur tími, hún vill helst bara fá mig til sín strax en hún veit að ég þarf að fá aðeins meiri tíma til að vaxa og dafna og bæta aðeins á bollukinnarnar. Mamma og pabbi sögðu að ég væri með bollukinnar, þeim finnst þær voðalega sætar.

Mamma segir að henni sé alveg sama þó ég haldi stundum vöku fyrir henni. Stundum sefur hún lítið yfir nóttina vegna þess að ég hreyfi mig svo mikið. Ég er nefnilega nátthrafn eins og mamma. Henni finnst bara notalegt að fá að finna aðeins fyrir mér og henni finnst leiðinlegt að pabbi fái ekki að finna það líka, nema þegar ég sparka svo fast að hann finnur það. Þó að mamma geti sofið minna hefur hún sjaldan verið orkumeiri, hún er svo ánægð að hún er loksins laus við sólarhringsógleði að nú þakkar hún fyrir að vera bara með bakverki, það er kannski svolítið skrýtið en hún er að reyna að kenna mér að vera jákvæður. Hún sér sko ekkert eftir því að hafa lagt svolítið á sig fyrir mig, henni finnst ég nefnilega alveg þess virði.

Mamma hefur aldrei áður kynnst þeirri tilfinningu að sakna einhvers sem hún hefur aldrei hitt. Henni finnst ótrúlega skrýtið að sakna lítillar mannveru sem hún hefur ekki hitt áður. Henni finnst líka alveg merkilegt að allt í einu setur hún mannveru sem hún hefur ekki hitt í forgang. Hún hugsar alltaf um mig fyrst, hún er aldrei númer eitt. Það skiptir hana mestu máli að ég hafi það gott í maganum hennar.

SHARE