Mánaðarleg hormónastjörnuspá getur fullkomnað líf hverrar konu

Konur eru flóknar í eðli sínu og oftlega átaldar ýmist öfgafullar eða óútreiknanlegar. Konur eru dularfullar, margbrotnar og magnaðar verur sem rísa og hníga eins og tunglið í lægð og vexti og margar hverjar sveiflast nær með sjávarföllunum, hefja fyrsta dag blæðinga á fullu tungli; finna til aukinnar félagsþarfar á fimmta degi tíðahrings, verða áræðnari og ævintýragjarnari kringum tíunda dag tíðahrings og upplifa skarpari minni, aukna löngun til kynmaka og verða jafnvel ástfangnar á fimmtánda degi mánaðarlega hringsins.

Hver dagur hefur sín sérkenni og sum eru sjarmerandi

Sjálf sykurþörfin, laumutárin og tilfinningalega viðkvæmnin gerir iðulega ekki vart við sig fyrr en á 22 degi tíðahringsins og á 26 degi tíðahrings, eða rétt fyrir blæðingar er konan orðin viðkvæm fyrir áreiti og getur verið snögg upp á lagið. Tíðahringurinn er hringrás fæðingar og dauða í lífi hinnar frjóu konu og gerir konur undursamlega flóknar, óútreiknanlegar á tíðum og hreint út sagt dásamlega fjölbreytilegar í eðli sínu.

Með lagni má læra að gernýta tíðahringinn til gagns

En hvað er að verki? Þrjár gerðir hormóna stýra ferlinu sem rís og hnígur gegnum mánaðarlegan tíðahring konunnar, en hér eru estrogen, testesterón og progesterón að verki. Allir þessir þættir hafa áhrif á skapgerð, líðan, minnishæfni, ástsækni, kaupvenjur, félagslyndi, matarlyst og í raun allt sem viðkemur sólarhringsvenjum frjórra kvenna á barneignaraldri. Að sjálfsögðu eru ekki einungis hormónar að verki, því lífið sjálft er margslungið en þó er freistandi að beina sjónum sínum að áhrifum hormóna á kvenlíkamann.

Hormónastjörnuspáin: Sterkt vopn í baráttunni við fyrirtíðaspennu

Hvernig þætti þér að snúa á sveiflurnar? Lesa í merkin áður en þau rísa, læra að dansa gegnum hormónasveiflur tíðahringsins; umfaðma egglosið og stíga varlega til jarðar kringum ástvini á erfiðari tímum mánaðarins með nægum fyrirvara? Þó hormónar geti ekki stýrt lífshlaupi einstaklinga, (upp að ákveðnu marki þó) eru ansi sterkar líkur á því að hormónastjörnuspáin geti komið að einhverju gagni; þó ekki væri nema upp að ákveðnu marki.

Hormónastjörnuspáin snýst í raun um að reikna út fyrsta dag tíða, læra á vikurnar fjórar og fylgja eftir flæðinu eftir bestu getu, meðvituð um að síbreytilegur hringurinn er að verki og litar tilfinningalífið.

Auðvitað láta konur ekki einungis stjórnast af hormónum og þannig hefur undirrituð aldrei upplifað mánaðarleg sykurköst sem fela í sér ofsafengna kauptúra í gotteríisbúðum, né heldur kastað sér í gólfið af bræði einni saman af völdum estrógenkasta, en þó um flóknari og dýpri samverkandi þætti sé að ræða en einungis hormónasveiflur í daglegu lífi, er kenningin skemmtileg. Og hver veit nema hún gagnist einhverjum þegar upp er staðið.

… og hér eru leikar rétt að hefjast!

Gabrielle nokkur Lichterman, fjölmiðlakona sem ritað hefur mikið um heilsu og lífsstíl heldur úti einkar skemmtilegri vefsíðu sem tengist tíðahringnum sem hún nefnir einfaldlega The Hormone Horoscope og inniheldur talsvert magn af greinum sem tengjast tíðahringnum, hvernig vinna má með hormónasveiflum og læra að gernýta þær breytingar sem verða á líkama kvenna í hverjum mánuði.

Þó ekki væri til annars en að prófa, mælum við með að þú gluggir í hormónaspánna.

Síðuna, sem er stórskemmtileg, má finna HÉR

SHARE