Mannaskítur vaxandi óværa á útivistarsvæðum

“Djö.andss. jà afsakid en er brjàlud annad skiptid à stuttum tíma sem èg og hundarnir mínir stígum í mannaskít bara hèrna rètt f.utan Reykjavik”

 

Svona hljóðar stöðuuppfærsla íbúa í Reykjavík sem undanfarið hefur ítrekað stigið ofan í ferskan mannaskít meðan á gönguferðum hennar með tvo hunda hefur staðið. Bæði atvikin áttu sér stað hjá Hafravatni og ofan við Rauðavatn, ca. 3 km norðvestan við vatnið.

 

Konan, sem eðlilega er miður sín og kýs að láta nafns ekki getið, segir stöðuna vera orðna skelfilega á útivistarsvæðum í útjaðri borgarinnar og að hún sé farin að stíga varlega til jarðar á grænum svæðum í nágrenni við Reykjavík.

 

Saur í húsagörðum viðvarandi vandamál í miðborginni

 

Kristín Lóa Ólafsdóttir, deildarstjóri Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar segir embættið ekki hafa fengið veður af mannaskít í nágrenni borgarinnar en segir vandann viðvarandi í miðborginni:

 

“Þetta er skelfilegt ef satt reynist. Við höfum ekki fengið neitt veður af grunsamlegum mannaferðum í nágrenni við Hafravatn og Rauðavatn, en auðvitað veit maður að fólk hægir á sér í náttúrunni og jafnvel í húsagörðum í miðbænum. Enginn vafi leikur á því að sömu einstaklingar eru í miður góðu jafnvægi,” segir Kristín. “Þá er um að ræða mishresst fólk sem er væntanlega undir áhrifum og vill ekki bíða þar til að salerni kemur. Þannig verða garðar og húsasund illa úti fyrir skemmtanalífinu. Það er sjaldan sem við höfum hendur í hári sökudólga og getum lítið gert annað en að skrá tilvikin niður og jafnvel fara á staðinn til að hreinsa upp óværuna.”

 

Klósettpappír og mannaskítur myndar slóða á göngustígum

 

Kristín segir sóðaskapinn þó síst bundinn við borgina eingöngu og að á almennum gönguleiðum á landsbyggðinni fari vandinn fyrst að gera vart við sig fyrir alvöru:

 

“Útlitið við Heklu er orðið skelfilegt, en þar má sjá slóðina af klósettpappír við vegaslóðana og jafnvel mannlegan úrgang á gönguleiðum. Fólk getur þurft og vill fara á klósettið en hægir bara á sér við stígana þess í stað. Kannski finnst göngufólki svo bara allt í lagi að kúka hreinlega úti við vegaslóða og göngustíga, en fyrir þá sem á eftir koma er útlitið hrikalegt ásýndar og mannaskíturinn stingur mjög í augu. Þetta er svo aftur vandi sem viðkomandi byggðarlag þarf að takast á við, koma þarf upp salernisaðstöðu hið fyrsta við rætur Heklu, því þetta er hreint út sagt ekki í lagi. Og að fólk taki ekki upp sinn eigin úrgang heldur láti liggja fyrir augum allra er enn hryllilegra,” segir Kristín ennfremur.

 

Lögreglan telur að langhlaupurum verði brátt í brók

 

Hjá lögreglunni fengust þær upplýsingar að ekki hefði orðið vart við grunsamlegar mannaferðir í nágrenni við Hafravatn og Rauðavatn, en að líklegt væri að um úrgang eftir maraþonhlaupara, göngugarpa og erlenda ferðamenn í náttúruskoðun væri að ræða.

 

“Þetta er auðvitað bara sóðaskapur og ekki siðferðislega rétt. Enn sem komið er hafa engar tilkynningar borist lögreglunni, en nú er fólk farið að taka upp svo stífar æfingar sem standa jafnvel lengi yfir. Við erum hér farin að tala um 40 kílómetra maraþonæfingar og fleiri þolíþróttir sem standa yfir í langan tíma. Líklegast er að íþróttafólk og göngugarpar hægi á sér í háu grasinu þar sem friður ríkir og hafi hreinlega ekki rænu á að hirða úrganginn upp í poka og farga þegar heim er komið.”

 

 

SHARE