Marensrúlla

Það er svo gott að vera með uppskriftir sem þú getur gripið í og hent í þegar þú hefur ekki of mikinn tíma. Þessi uppskrift er einmitt þannig og kemur frá snillingunum á Matarlyst.

Afar einfalt og fljótlegt er að útbúa marensrúllu, hægt er að útfæra þær á ýmsa vegu þ.e bragðbæta rjómann, eða skreyta með því sem hugurinn girnist.

Þessi er hefðbundin og afar góð, rjómafylling, toppur rjómi, jarðaber og bláber.

Marens

4 eggjahvítur
1 tsk maizena mjöl
220 g sykur

Fylling og toppur
½ l rjómi þeyttur (í léttara lagi)
Ber að eigin vali.

Aðferð

Hitið ofninn í 180 gráður og blástur. Þeytið hvítur þar til þær byrja að freyða, bætið út í maizena og sykri stífþeytið tekur um 4 mín. Prufið að hvolfa skálinni, hann á ekki að leka. Setjið bökunarpappír ofan í rúllutertuform smyrjið marensnum jafnt út í formið. Athugið að formið er ca 39×26 er 2 cm á þykkt. Ef ekki er til rúllutertuform er hægt að smyrja honum út á bökunarpappír í ofnskúffu í c.a þessari lengd, breidd og þykkt. Rúllutertuformið gerir botninn jafnan. Bakið við 180 gráður og blástur í 5 mín, lækkið hitann í 160 gráður bakið áfram í 20 mín.

Takið út og kælið.

Rífið niður bökunarpappír jafn stóran og botninn leggið ofan á hann, hvolfið botninum. Þannig að toppurinn snúi niður þá liggur hann á pappír. Þeytið rjómann, takið slettu frá til að smyrja á toppinn. Takið bökunarpappír af botninum, smyrjið rjómanum jafnt yfir. Rúllið upp með því að notast við bökunarpappír sem er undir, hann heldur við botninn. Færið á disk, látið samskeytin snúa niður. Smyrjið restinni af rjómanum yfir miðju rúllunnar, skreytið að vild.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here