Harpa Einarsdóttir fatahönnuður er nú stödd í Cannes þar sem hún dvelur í glæsihýsi á meðan kvikmyndahátíðin stendur yfir. Hún er þar í boði fyrirtækisins Beverly Hills Haute Coutere, líkt og hún greindi frá í viðtali í amk í síðustu viku. Þá hlakkaði hún mikið til ævintýrisins, sem nú er orðið að veruleika.

Tilgangurinn ferðarinnar er að taka þátt í sýningu á vegum áðurnefnds fyrirtækis þar sem hún fær tækifæri til að kynna nýja fatalínu sem hún hefur hannað undir vörumerkinu Myrka, fyrir fína og fræga fólkinu. Þá sérhannaði Harpa kjól fyrir einn af aðstandendum Beverly Hills Haute Coutere, en sá hinn sami vill hjálpa henni að koma nýju línunni á framfæri.

Harpa hefur birt myndir frá Cannes á facebook-síðu sinni þar sem hún er stórglæsileg til fara á leið í kokteilboð. Hún er svo heppin að förðunarmeistarinn Ísak Freyr er einnig staddur í Cannes og hefur hann séð um að farða hana eins og algjöra Hollywood-dívu.

Harpa sá um snapchat-reikninginn fyrir tímaritið Nýtt líf í vikunni og birti þar skemmtileg myndbönd frá Cannes. Þar mátti sjá skvísurnar sem dvelja í glæsihýsinu punta sig og gera sig tilbúnar fyrir partístand. Harpa sást meðal annars í fylgd norskrar fegurðardrottningar sem bar borðann sinn með stolti svo ekki færi á milli mála hver hún væri. Harpa tók það að sér eitt kvöldið að aðstoða þá norsku úr kjólnum, enda enginn hægðarleikur að renna sjálfur niður rennilás aftan á kjólnum sem maður klæðist.

Líkt og Harpa greindi frá í viðtalinu í síðustu viku er svona glamúr ansi fjarlægur hennar íslenska veruleika, enda hafa síðustu tvö ár verið henni erfið. Í byrjun árs var hún til að mynda heimilislaus og flakkaði um landið. En hún ætlar að nýta tækifærið í Cannes vel, reyna að mynda gott tengslanet og vonandi klæða einhverja stjörnuna í flík frá Myrka.

 

SHARE