Hver meðganga er einstök og ein kona getur átt tvær gjörólíkar meðgöngur. Það eru samt ákveðnir hlutir sem eiga sér stað á öllum meðgöngum. Hér er farið yfir hvað gerist í hverjum mánuði fyrir sig á meðgöngunni.

Fyrsti þriðjungur

Fyrsti þriðjungur meðgöngu er tímabilið frá getnaði til 12. viku, eða um það bil fyrstu þrír mánuðir meðgöngu. Á þessu tímabili mun barnið þitt fara frá því að vera samansafn af frumum í að verða að fóstri með útlit barns.

Mánuður 1 (vika 1-4)

Um leið og frjógvaða eggið vex, myndast þéttur belgur utan um það og fyllist það smátt og smátt af vökva. Belgurinn er kallaður líknarbelgur og hjálpar til við að vernda vaxandi fóstrið. .

Á sama tíma er fylgjan að verða til. Fylgjan er hringlaga, flatt líffæri, sem flytur næringu frá móður til barns og sér því fyrir fæðu allan tíma meðgöngunnar.

Á þessum fyrstu vikum mun frumstætt andlit fara að myndast og sjást stórir svartir hringir á sónarmyndum, þar sem augu munu myndast. Blóðfrumur taka á sig mynd og blóðflæðið hefst. Pínulítið hjarta myndast í lok 4. viku sem slær um 65 sinnum á mínútu.

Í lok fyrsta mánaðar er fóstrið orðið rúmir 6 millimetrar, um það bil á stærð við hrísgrjón.

Mánuður 2 (vika 5-8)

Andlitið á fóstrinu heldur áfram að mótast. Eyrun byrja að myndast og byrja sem lítill skinnflipi á hvorri hlið höfuðsins. Litlir stuppar myndast, sem verða að handleggjum og fótleggjum. Fingur, tær og augu eru einnig að verða til.

Taugar eru að myndast, heili, mænan og annar taugavefur miðtaugakerfisins er vel myndaður núna. Meltingarfærin og skynfæri eru að byrja að þróast og brjósk verður að beinum.

Höfuð fóstursins er stórt í hlutfalli við restina af líkamanum á þessum tímapunkti. Á 6. viku er vanalega hægt að heyra hjartslátt fóstursins. Eftir 8. viku er vanalega farið að tala um „fóstur“ en fyrir þann tíma er vanalega talað um „fósturvísa“.

Í lok 2. mánaðar er fóstrið orðið um 2,5 sentimetrar og vegur tæpt gramm.

Mánuður 3 (vika 9-12)

Handleggir, hendur, fingur og tær eru nánast fullmótuð. Á þessu stigi er fóstrið farið að prófa ýmislegt eins og að opna og loka munninum og kreppa hnefana. Neglur á fingrum og tám eru að verða til og eyrun sjálf eru að verða til. Tennur eru að mótast undir gómnum og æxlunarfæri eru að verða til þó svo að erfitt sé að greina kynið í sónar.

Í lok þriðja mánaðar er fóstrið fullmótað. Öll líffæri og útlimir eru komin á sinn stað og halda áfram að þróast. Blóðrás og þvagrás eru farin að virka og lifrin er farin að framleiða gall.

Fóstrið er orðið um 10 sentimetrar og vegur um 28 grömm.

Nú hafa mikilvægustu þroskaskref fóstrins verið tekin og þar af leiðandi eru minnkandi líkur á fósturláti eftir þrjá mánuði.

Sjá einnig: Öll meðgangan fest á filmu – Sjáðu þetta hér!

Annar þriðjungur

Þessi kafli er oft talinn besti partur meðgöngunnar. Þegar þarna er komið sögu er morgunógleðin oftast búin og aðrir fylgikvillar fyrstu þriggja mánuðanna að hætta. Nú fer andlit barnsins að mótast og þú gætir farið að finna fyrir hreyfingum í þessum mánuði, þegar barnið er að snúa sér og velta sér. Það er oftast í þessum þriðjungi (um 20 vikur) sem hægt er að komast að því hvaða kyn barnið er, með sónar.

Mánuður 4 (vika 13-16)

Hjartsláttur barnsins þíns heyrist örugglega mjög greinilega núna, þegar þú ferð í mæðraskoðun. Fingur og tær eru fullmótuð. Augnlok, augabrúnir, augnhár, neglur og hár eru mótuð. Tennur og bein eru enn í mótun og verða greinilegri með hverjum deginum. Barnið þitt getur meira að segja sogið þumalinn, geispað, teygt úr sér og grett sig.

Taugakerfið er að byrja að virka. Æxlunarfærin og kynfærin eru fullmótuð og læknirinn getur séð hvaða kyn þú munt eignast.

Í lok 4. mánaðar er barnið orðið um 15 sentimetrar og vegur um 113 grömm.

Mánuður 5 (vika 17-20)

Á þessum tímapunkti getur verið að þú sért farin að finna fyrir hreyfingum. Barnið er farið að fá vöðva og er farið að nota þá. Fyrsta hreyfingin getur verið mjög hröð og meira í líkingu við flökt.

Hár fer að vaxa á höfðinu. Einnig koma fíngerð hár á axlir, bak og gagnaugu sem eru oftast kölluð fósturhár. Þessi hár vernda barnið og detta vanalega af á fyrstu viku eftir fæðingu.

Húðin er þakin hvítu fitulagi (Vernix Caseosa) sem kallað er fóstufita. Það ver húð barnsins fyrir langri legu í legvatninu. Þessi húð fer stundum af fyrir fæðingu en oft fæðast börn með fósturfituna á sér.

Í lok 5. mánaðar er barnið orðið um 25 sentimetrar og vegur um 300-450 grömm.

Mánuður 6 (vika 21-24)

Ef þú gætir litið inn í legið núna sæirðu að húð barnsins er rauðleit, krumpuð og æðar sjáanlegar í gegnum húðina. Fingraför eru sjáanleg og augnlokin byrja að opnast og augun fara að sjást.

Barnið gæti farið að bregðast við hljóðum með því að fara að hreyfa sig. Einnig er hægt að sjá viðbrögð barnsins við hljóðum þegar verið er að hlusta á hjartsláttinn því hann getur farið upp á við, við ákveðin hljóð. Þú gætir farið að finna fyrir því þegar barnið eru með hiksta.

Ef barnið færist fyrir tímann getur það lifað af eftir 23 með mikilli læknishjálp og umönnun.

Í lok 6. mánaðar er barnið orðið um 30 sentimetrar og vegur um 900 grömm.

Mánuður 7 (vika 25-28)

Barnið heldur áfram að þroskast og mynda fituforða. Á þessum tímapunkti er heyrnin fullmótuð. Barnið breytir sífellt um stöðu og bregst við hljóðum og ljósum. Legvatnið verður sífellt minna eftir þennan tíma.

Ef barnið fæðist á þessum tíma mun það að öllum líkindum lifa af eftir 7. mánuð.

Í lok 7. mánaðar er barnið orðið um 35 sentimetrar og getur vegið allt að 1800 grömmum.

Sjá einnig: Meðgangan – Svefntruflanir

Seinasti þriðjungur

Þetta er seinasti þriðjungur meðgöngunnar. Þú getur staðið þig að því að vera farin að telja dagana fram að settum degi og vonast til þess að fara af stað fyrr. En það er samt þannig að hver vika fram að fæðingu er barninu mikilvæg til að undirbúa það fyrir að koma í heiminn. Það þyngist hratt og eykur fituforðan sem hjálpar því eftir fæðinguna.

Mundu að þó það sé alltaf talað um 9 mánuða meðgöngu þá er alveg mögulegt að þú verðir ófrísk í 10 mánuði. 40 vikur eru alveg á 10. mánuð og sumar konur ganga 1 eða 2 vikur fram yfir það. Það verður fylgst með þér í mæðraskoðunum og ef fæðing er ekki að fara af stað náttúrulega getur verið að það þurfi að setja þig af stað.

Mánuður 8 (vika 29-32)

Barnið er að þroskast mikið og safna á sig fituforða. Það getur verið að þú finnir meira fyrir spörkum. Heilinn er að þroskast hratt núna og barnið sér og heyrir. Innri líffæri eru öll að verða tilbúin en lungun eiga aðeins eftir til að verða tilbúin.

Barnið er orðið um 43-45 sentimetrar og vegur allt að því 2200 grömm.

Mánuður 9 (vika 33-36)

Barnið heldur áfram að vaxa og dafna. Lungun eru fullmótuð. Barnið er farið að vera með samræmdar hreyfingar, getur blikkað og lokað augum, snúið höfðinu, gripið um hluti og brugðist við hljóðum, ljósum og snertingu.

Barnið er allt að 50 sentimetrar og vegur allt að því 2900 grömm.

Mánuður 10 (vika 37-40)

Í þessum seinasta mánuði gætirðu farið af stað hvenær sem er. Þú tekur eftir að þú finnur minna fyrir hreyfingum af því plássið er orðið svo lítið. Á þessum tíma getur verið að barnið sé búið að skorða sig, þ.e. að skorða sig ofan í grindina til að undirbúa sig fyrir fæðingu. Þetta getur verið erfiður tími þar sem þú átt erfitt með að hreyfa þig auðveldlega.

Barnið þitt er tilbúið kynnast heiminum núna og það er einhversstaðar um eða yfir 50 sentimetrana og komið í fæðingarþyngdina sem er að meðaltali 3650 grömm á Íslandi.

Gangi þér vel!

Heimildir: clevelandclinic.org

SHARE