„Í heimi sem er fullur af núllum og einum, ert þú núll eða ert þú sá Eini?“

Forritunarkepppni framhaldsskólanna verður haldin í Háskólanum í Reykjavík helgina 21. – 22. mars. Keppnin er fyrir alla nemendur í framhaldsskólum sem hafa áhuga á hönnun, forritun og tölvum.

Á föstudag kl. 15 mæta öll liðin í HR og fá afhenda boli og hlýða á kynningu um skipulag keppninnar. Keppnin sjálf hefst svo daginn eftir, laugardag, og stendur fram eftir degi. Verðlaunaafhending verður um kl. 16:30 í HR.

44 lið eru skráð til leiks þetta árið og hafa aldrei verið fleiri. Meðal þeirra liða sem keppa eru Javalicious, Goodbye, Mr.Anderson, Grágás, Kókómjólkurgoðsagnirnar, Cthulhu Fhtagn og Beibíkökur.

Þema keppninnar í ár er The Matrix eins og sjá má af meðfylgjandi mynd og þeim heitum sem deildirnar þrjár sem keppt er í heita. Þær eru Neo-deildin,Trinity-deildin og Morpheus-deildin. Þrautir og viðfangsefni eru mismunandi eftir deildum og liðin velja sjálf í hvaða deild þau keppa.

Á myndinni eru þau Elísabet Guðrúnar- og Jónsdóttir og Bjarki Ágúst Guðmundsson og Hjalti Magnússon. Þau Elísabet og Bjarki eru nemendur í grunnnámi við tölvunarfræðideild HR og semja þrautir fyrir keppnina og dæma. Hjalti er kennari í grunnnáminu og kemur jafnframt að þrautasmíð og dómgæslu keppninnar.

Í fyrri keppnum hafa liðin til dæmis þurft að skrifa forrit sem leysa þessi verkefni:

  • Telja hversu oft 13. dagurinn í mánuðinum er föstudagur (föstudagurinn þrettándi) næstu 10 þúsund ár
  • Finna leið til að færa riddara frá einum enda skákborðs yfir á hinn endann í sem fæstum skrefum
  • Athuga hvort tala sé frumtala
  • Skoða allskyns stærðfræðifyrirbæri

Eins og fyrri ár verða veitt verðlaun fyrir besta lið hverrar deildar, fyrir frumlegustu lausnina og besta lógó liðanna. Það eru HR og Nýherji sem standa að keppninni.

HR_Matrix_1024x768 (1)

SHARE