Manni gæti fundist að manneskja sem hreyfir sig lítið sem ekkert reyni minna á hjarta sitt en manneskja sem er í reglubundinni þjálfun eða hreyfingu. Það virðist nokkuð blátt áfram, kommon sens jafnvel – hjarta þess sem hreyfir sig lítið slakar meira á og þarf ekki að vinna jafn mikla erfiðisvinnu og hjarta þess sem er alltaf að krefjast aukins blóðflæðis til vöðvanna.

En, eins og með marga “kommon sens” vitneskju nútímans á það ekki við, þvert á móti.

Hjarta í manneskju sem er í reglubundinni hreyfingu slær að jafnaði 60 slög á mínútu eða minna, þegar manneskjan er í hvíld.

Hjarta manneskju sem er ekki í æfingu slær um það bil 80 slög á mínútu eða meira, þegar manneskjan er í hvíld.

Hjartslátturinn er svo breytilegur dag frá degi, allt eftir því hvað við erum að gera, í hvernig formi við erum, hvort við erum að hreyfa okkur, erfiða, hvort streita sæki að okkur osfv.

En, ef við gæfum okkur að manneskja væri stöðugt í hvíld:

  • Hjarta æfðrar manneskju myndi slá 60 sinnum á mínútu, það gerir 86.400 slög á einum degi.
  • Hjarta óæfðrar manneskju myndi slá 80 sinnum á mínútu, það gerir 115.200 slög á einum degi.

 

Hjarta óæfðu manneskjunnar þarf að slá 28.800 sinnum fleiri slögum á hverjum einasta degi en hjarta æfðu manneskjunnar!
Og athugið að þetta á aðeins við um að ef við værum í fullkominni hvíld alla 24 tíma sólarhringsins, en það er ekki mögulegt. Það er því líklegt að munurinn væri mun meiri.

Bara að ganga upp stiga, standa upp úr stól eða skokka stutta vegalengd er mun erfiðara óæfðu hjarta en æfðu og þarf óæfða hjartað að slá hlutfallslega hraðar en æfða hjartað þegar á slíkum athöfnum stendur.

Gerum hjartanu okkar gott, æfum okkur.

 

Höfundur greinar er Sveindís Þórhallsdóttir. Sveindís er sálfræðinemi og er á leið að hefja sitt þriðja ár í Háskóla Íslands. Hún er auk þess að læra einkaþjálfun í fjarnámi frá Bandaríkjunum og stefnir á að klára það nám í haust. Sveindís heldur úti heimasíðunni viljastyrkur.net þar sem hún skrifar um heilsu og fleira skemmtilegt. 

SHARE