Nafnaval – Nafn barnsins er ákvörðun foreldranna!

Nú styttist í að litli spriklarinn minn, eins og við foreldrarnir köllum hann oft, komi í heiminn. Það er margt sem þarf að huga að áður en ný manneskja fæðist í þennan heim en eitt af þeim verkefnum sem foreldrar hafa er að gefa barninu nafn. Við settumst niður og fórum yfir nafnalista á nafn.is frekar snemma eða löngu fyrir 20 vikna sónarinn þar sem við fengum kynið á hreint. Við vorum bæði alltaf svo viss um að þetta væri strákur þannig að við byrjuðum á því að fara yfir strákanöfn. Við fundum mjög fljótlega nafn sem okkur leist báðum vel á. Fyrra nafn barnsins er því komið á hreint. Við ætlum svo að ákveða seinna nafnið endanlega þegar við sjáum barnið. Maðurinn minn vildi það og mér finnst sjálfsagt að mæta honum með það.

Nú á ég margar vinkonur og kunningjakonur sem annað hvort eiga börn eða eru óléttar. Þegar kemur að nafnavali eru sumir ákveðnir í því að nefna barnið í höfuðið á einhverjum nákomnum, hvort sem það er vinur/vinkona eða ættingi, foreldri eða bara manneskja sem þér þykir mjög vænt um. Þegar maður veit það fyrir víst að ef maður gengur með stelpu muni maður nefna/skíra það í höfuðið á móður sinni og ef maður gengur með strák muni maður nefna/skíra það eftir föður sínum þarf lítið að velta fyrir sér nafninu. Sumir kjósa að velja bara nafn sem þeim finnst fallegt og þá er oft talað um að nefna/skíra út í loftið. Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um það orðatiltæki en í okkar tilfelli fundum við nafn sem okkur báðum fannst fallegt. Það er þó enginn nákominn okkur sem heitir því nafni en nú þegar hefur nafnið þó mikla þýðingu fyrir okkur þar sem það dýrmætasta sem við eigum mun bera það nafn.

Jæja, nú kemur þó að því sem mig langaði að skrifa um. Það virðist vera að sumir foreldrar lendi í klemmu þegar að því kemur að velja nafn á barnið. Klemman felst í því að það eru ættingjar í kringum foreldrana sem telja sig eiga einhverja heimtingu á því að fá að velja nafn á barnið. Mér hefur alltaf fundist það ótrúlegur dónaskapur að láta sér detta í hug að maður hafi eitthvað með það að segja hvaða nafn annað fólk velur á barnið sitt. Mér finnst það ekkert nema frekja og dónaskapur þegar amman og afinn eða aðrir ættingjar ætlast til að börnin þeirra nefni barnabörnin í höfuðið á þeim. Ég er nefnd í höfuðið á báðum ömmum mínum, ég var meira að segja skírð. Ég er mjög ánægð með nöfnin mín og þykir vænt um að heita sömu nöfnum og þessar flottu konur, hins vegar var ég ekki skírð í höfuðið á þeim vegna þess að þær heimtuðu það. Ég var skírð höfuðið á þeim vegna þess að foreldra mína langaði til þess, þeim þótti nöfnin falleg og þau langaði til að gera þetta svona, það er líka bara frábært.

En er ekki aðalatriðið það að foreldrarnir velji nafn sem þá langar að skíra/nefna? Hvað er gaman við það að einhver sé nefndur í höfuðið á manni ef maður hefur heimtað það? Er einhver heiður í því að láta nefna eftir sér ef maður hefur vælt það út? Er ekki miklu skemmtilegra að leyfa bara fólki að ráða þessu og ef það ákveður að nefna/skíra í höfuðið á ættingjum eða vinum þá er það bara ótrúlega gaman? Það er svo alveg jafn gaman þó að nafnið sé “út í loftið” – Strax og lítið barn fær nafn, hefur nafnið merkingu fyrir alla sem þykir vænt um barnið. Öllum sem þykir vænt um barnið mun líka þykja vænt um nafnið sem það ber og þykja það fallegt. Þá á það ekki að skipta máli hvort að barnið sé nefnt eftir afa og ömmu eða hreinlega bara ekki eftir neinum, nafnið gæti þess vegna verið nafn sem foreldrarnir sáu í blaðagrein og fannst fallegt.

Mér finnst mikilvægt að fólk hafi það hugfast að þessi ákvörðun er foreldranna.

SHARE