Nauðgun er andlegt morð

Nauðgun er án efa einn viðbjóðslegasti og jafnframt hræðilegasti glæpur sem hægt er að fremja og kemst næst manndrápi í hegningarlögum á Íslandi.

1. mgr. 194. gr. hljóðar nú svo:

„Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.“

Greinarhöfundur hafði samband við lögfræðing til að spyrja nánar út í orðalagið „önnur kynferðismök“. Lögfræðingurinn svaraði því að munnmök gegn vilja annars einstaklings teljist til að mynda sem nauðgun og er því inn í þessum refsiramma.

Klæðaburður fólks, hegðun þess eða ástand réttlætir aldrei nauðgun. Ábyrgðin er alltaf gerandans en ekki þolandans. Kynlíf, er þegar báðir aðilar veita samþykki sitt, allt annað er nauðgun. Daður eða þegar einstaklingur sýnir áhuga á kynlífi réttlætir aldrei nauðgun.

Sá sem nauðgar annarri manneskju sviptir hana mikilvægasta rétti sínum, frelsinu til þess að ráða yfir eigin líkama. Undanfari samskipta fólks skiptir engu máli, ef kona eða karlmaður hefur ekki gefið samþykki sitt fyrir því að stunda kynlíf, þá hefur hinn aðilinn engan rétt til þess að snerta hana eða hann með kynferðislegum hætti. Þess vegna er samþykki beggja aðila nauðsynlegt þegar kemur að kynlífi, annars erum við að tala um nauðgun.

Það er aldrei hægt að réttlæta nauðgun, aldrei.

Sum fórnarlömb frjósa af hræðslu og þá er erfitt fyrir fórnarlambið að stöðva nauðgarann. Það er erfitt fyrir fórnarlambið að stöðva nauðgarann þegar það óttast um líf sitt. Kynlíf fer fram í trausti og opnum samskiptum. Ein lélegasta afsökun sem nauðgari getur komið með er: „Hann/hún sagði ekki neitt.“

Það er ekki hægt að réttlæta nauðgun með því að sá sem hefur nauðgað segist ekki hafa áttað sig á vilja fórnarlambsins, því vilji fólks til þess að stunda kynlíf eða ekki, hann er alltaf skýr.

Nauðgun er andlegt morð og hefur yfirleitt svo miklar og hræðilegar afleiðingar fyrir fórnarlambið að það getur aldrei tekið aftur þátt í eðlilegum samskiptum. Fórnarlambið þarft oft að glíma við áfallastreituröskun, kvíða, þunglyndi og fleira alla sína ævi. Fórnarlambið getur jafnvel aldrei stundað kynlíf það sem eftir er ævinnar því það upplifir nauðgunina aftur og aftur í huga sér. Eða þá að kynlíf fyrir fórnarlambinu verði aldrei eðlilegt aftur, aldrei eins ánægjulegt og það í raun og veru á að vera.

Mjög margir hafa komist upp með nauðgun á Íslandi. Þetta veit ég sjálfur því ég þekki til fólks sem hefur verið nauðgað. Ég þekki líka til fólks sem þekkir fólk sem hefur verið nauðgað. Fórnarlömb þora oft ekki að kæra nauðgarann vegna skammar, það þolir ekki tilhugsunina um það að vera þessi sem var nauðgað. Oft er fórnarlömbum einnig hótað af nauðgaranum. Í ársskýrslu Stígamóta 2012 kemur fram að aðeins 9,6% mála bárust til opinberra aðila en við erum að tala um yfir 500 ofbeldismenn, en það eru ekki öll fórnarlömb nauðganna sem sækja sér aðstoð hjá Stígamótum, því getum við reiknað með að þúsundir kynferðisglæpir séu framdir á Íslandi á ári hverju.

Greinarhöfundi er ekki kunnugt um að neinn hafi verið dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir nauðgun.

Afhverju er refsi-ramminn ekki notaður þegar kemur að svona ógeðslegum glæp?

Það er mjög skuggalegt og frekar óhugnalegt að hugsa til þess hve margir einstaklingar eru þess megnugir að nauðga.

Nauðgun er andlegt morð.

 

Grein er eftir:

Gísli Hvanndal Jakobsson

 

 

 

SHARE