Nemandi við Menntaskólann á Akureyri talar niður til stelpna á íþróttadegi skólans

Íþróttadagur MA fór í gær fram í Íþróttahöllinni. Keppt var í þrautabraut, blaki, bandý og fótbolta. Dagurinn fór vel af stað en þegar kom að leikjum kvenna í fótbolta runnu tvær grímur á marga áhorfendur.
Skrifa nemendur á heimasíðu Menntaskólans á Akureyri í dag.

Skrifa þau þá í pistil sinn að Tómas Bjarnason sem lýsti fótboltaleikjunum þótti sýna af sér ósæmilega hegðun í garð stúlknanna. Meðal annars kallaði hann þær „skonsur“ og talaði um „skonsubolta“ auk þess notaði hann ekki nöfn leikmannanna sjálfra heldur nöfn bólfélaga þeirra.

Eftir að Tómas hafði látið niðrandi orð falla um spilamennsku kvennanna steig Unnar Vilhjálmsson, íþróttakennari, inn í lýsinguna og sagði: „Ég vil benda á að landslið kvenna á Íslandi er standa sig mun betur en landslið karla.“ Tómas svaraði þá um hæl: „Og ég vil benda á að landslið karla myndi taka landslið kvenna aftanfrá hvenær sem er.“ Unnar sagðist í samtali við Emmafréttir ekki hafa heyrt ummælin en sagði að ef hann hefði heyrt þau hefði hann tekið hljóðneman af Tómasi og bannað honum að halda áfram að lýsa leiknum. Eins benti Unnar á að framkoman var í hrópandi ósamræmi við Eineltisdaginn sem var einmitt í gær.

Þegar komið var að úrslitaleik kvennaboltans var ástandið orðið svo slæmt að margar stelpnanna vildu ekki spila leikinn en létu sig þó loks hafa það. Þegar í þann leik var komið versnaði ástandið því Tómas framkallaði lítillækandi hljóð í hvert sinn sem stúlkurnar fengu boltann. Í fyrri leikjum voru spiluð hvatningarlög en í úrslitaleik kvenna var lagið Ást með Ragnheiði Gröndal spilað sem mörgum áhorfendum fannst lítillækandi. Viðmælanda fréttastofunnar þótti þetta sýna fram á að lýsendum þætti leikurinn svæfandi og leiðinlegur.

Þeir leikmenn kvennaliðanna sem Emmafréttir ræddu við voru ragir við að koma í viðtöl og vildu ekki koma fram undir nafni en voru afar ósáttar og sagði ein þeirra: „Asnalegt af honum, sérstaklega af því að hann hefði aldrei gert þetta ef það hefðu verið strákar að keppa.“ Önnur sagði: „Okkur langaði ekkert inn á völlinn.“

Þeim nemendum og starfsmönnum sem fulltrúar Emmafrétta ræddu við ofbauð framkoma kynnanna. Ingibjörg Magnúsdóttir, íþróttakennari, sagði að sér hefði þótt að allar stelpur, leikmenn og áhorfendur hefðu átt að ganga út úr höllinni.

AG, ÁFA, TÓ

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here