Netþrjótar reyndu að blekkja 13 ára dreng undir nafninu „pabbi”

Ógeðfelld tilraun netþjófa til að narra 13 ára gamlan dreng til að gefa upp lykilorð fjölskyldunnar í heimabanka bar ekki erindi sem erfiði nú fyrir skömmu, en svindl-skilaboð sem þessi færast í aukana í Noregi.

Það var hinn 13 ára gamli Morten, búsettur í Tromsö, sem fékk SMS skilaboðin nú fyrir helgina og segja þau einfaldlega:

lvBjHAnANhqvyVkrZBWOjwx-_qZyuBv5ccPXcOvtZwIA

Hey vinurinn, ef þú smellir tvisvar á kóðann hér og opnar heimabankann þinn og þá get ég skoðað stöðuna, fengið upplýsingar og jafnvel reddað málinu – pabbi. 

 

Morten hikaði um stund og þegar hann skoðaði símanúmerið sem sendi skilaboðin, sá hann að eitthvað stemmdi ekki, því númerið var 12 stafa númer – og þá rann upp fyrir honum ljós. Hér var eitthvað gruggugt á ferð sem ekki gat staðist. Hann var ómyrkur í máli þegar hann ræddi við norska miðilinn NRK á föstudag og sagði einfaldlega:

 

Mér fannst þetta ótrúlega frek svindltilraun og ljót, því þessum blekkingum er beint gegn unglingum og börnum. 

 

Það var móðir Morten, Mona Dahl, sem tók skjáskot af skilaboðunum eftir að Morten kom heim og sýndi henni símann. Skjáskotinu deildi hún í framhaldinu á Facebook í þeim tilgangi að aðvara aðra foreldra og börn þeirra, en farsímablekkingar hafa stóraukist undanfarin misseri.

Mona hafði í kjölfarinu samband við lögreglu og lagði fram formlega kæru en fékk þau svör að lögreglan gæti lítið aðhafst og að erfitt ef ekki ómögulegt gæti verið að rekja sendinguna – hvað þá að hafa hár í höfði þess sem stendur fyrir svindlinu.

 

Það er fyrir neðan allar hellur að svona svindl skuli viðgangast og enn ógeðfelldara að hafa enga hugmynd um hver stendur að baki þessum viðbjóði. Hver sem er gæti hafa staðið að baki þessum blekkingarvef sem barnungur sonur minn var blásaklaus dreginn inn í um hábjartan dag. Og að skilaboðin skuli hafa verið undirrituð af “pabba” … 

 

Pål Moe, yfirmaður rannsóknardeildar í Tromsö, sagðist aldrei hafa heyrt um slíkar blekkingar í samtali við NRK. 

 

Nei, þetta er alveg spánýtt af nálinni og svona svindltilraun hef ég bara aldrei heyrt um áður. En þetta er virkilega slægt og útsmogið, svo mikið er víst. 

 

Mona segist þó vera ánægð með undirtektirnar við deilingunni á Facebook og að markmiðinu hafi í raun verið náð; því myndin hefur farið eins og eldur í sinu um netið undanfarna daga og næsta víst þegar þessi frétt er skrifuð að óprúttnum sem iðka netglæpi verður varla kápan úr því klæðinu að narra norsk ungmenni til að gefa upp viðkvæmar persónuupplýsingar á borð við öryggisupplýsingar um heimabanka sinn.

Mér finnst mikilvægt að aðvara aðra og er verulega ánægð að heyra að varnaðarorðin skuli hafa borist svo um svo langa vegu. Það er víst að enginn getur verið öruggur þegar skúrkarnir eru farnir að reyna að blekkja börn og unglinga.

 

Heimild: NRK

SHARE