Neysla kvenna á fólati undir ráðleggingum – Fólatbomba

Fólat er vatnsleysanlegt B-vítamín sem er mikilvægt fyrir nýmyndun DNA og frumumyndun. Á meðgöngu eykst þörfin fyrir fólat vegna hraðrar frumuskiptingar, breytinga á efnaskiptum og aukins blóðrúmmáls verðandi móður. Einnig er þörf á meira fólati fyrir eðlilegan þroska fóstursins. Lágur fólat styrkur fyrir getnað og á fyrsta þriðjungi meðgöngunnar er tengt við alvarlega fósturskaða, þá sérstaklega í miðtaugakerfinu, s.s. klofnum hrygg, heilaleysi og vatnshöfði. Nægjanlegar fólatbyrgðir kvenna á meðgöngu hafa einnig verið tengdar við minni hættu á blóðleysi, meðgöngueitrun, lágri fæðingarþyngd og fyrirburafæðingum.

Konum á barneignaaldri er því ráðlagt að neyta meira fólats en öðrum, mælt er með því að þær taki 400 míkrógramma (μg) fólínsýrutöflu daglega. Á meðgöngu er verðandi mæðrum einnig ráðlagt að taka 400 μg af fólínsýru fyrstu 12 vikur meðgöngunnar, auk þess að borða fólatríkan mat..

Niðurstöður nýjustu Landskönnunar á mataræði sýndu að meðalneysla á fólati er undir ráðleggingum hjá íslenskum konum og einungis um fjórðungur kvenna tekur annað hvort fólínsýru eða fjölvítamín með fólínsýru sem fæðubót.

Þetta verðum við að bæta dömur. Ávextir, grænmeti og baunir eru dæmi um fæðutegundir sem eru ríkar af fólati. Reynum að miða við það að hafa ávöxt eða grænmeti sem hluta af öllum máltíðum dagsins. Hér er líka heilsudrykkur sem er stútfullur af fólati (~450 μg).

Fólatbomba, fyrir tvo:
2 dL hreinn ananas safi
3 góðar lúkur af spínati
1/3 agúrka
1-2 lítil avakadó
½ grænt epli
1 lítill banani
2 dL frosinn mangó
Smá mynta eða engifer ef þið eigið það til
Setjið allt í blandarann, ásamt safanum, og blandið vel saman. Bætið vatni við ef þið viljið þynna drykkinn

Laufey tekur að sér næringarráðgjöf fyrir konur á barneignaraldri og verðandi mæður.
Einnig bíður hún upp á fyrirlestra fyrir verðandi foreldra um hreyfingu á meðgöngu.
Laufey er með síðu á facebook en hana má finna hér

Höfundur: Laufey Hrólfsdóttir
(gottupphaf@gmail.com)

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here