Ný ríkisstjórn setur baráttuna gegn ofbeldi á börnum í forgang – UNICEF fagnar ákvörðun ríkisstjórnar um kaup á nýju Barnahúsi

 

UNICEF á Íslandi fagnar áformum ríkisstjórnarinnar um að auglýsa hið fyrsta eftir stærra húsnæði undir starfsemi Barnahúss. Stækkun hússins gerir mögulegt að ráða tvo nýja sálfræðinga til að anna aukinni þjónustuþörf en biðlistar þar hafa stöðugt lengst. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar var kynnt á fundi fjögurra ráðherra með sérfræðihópi barna hjá UNICEF síðastliðinn föstudag.

 

Stórefling á starfsemi Barnahúss var ein af tillögum í skýrslu UNICEF, Réttindi barna á Íslandi: Ofbeldi og forvarnir, sem ráðherrum var kynnt á fundinum.

 

Mun leiða til stórbættrar þjónustu við börn

UNICEF á Íslandi telur einsýnt að nýtt húsnæði undir Barnahús muni leiði til stórbættrar þjónustu við börn. Enn fremur mun hún með tímanum geta orðið til þess að hægt verður að víkka út starfsemi Barnahúss þannig að hún nái einnig til barna sem hafa upplifað annars konar ofbeldi.

 

Félagsmálaráðherra hafði forgöngu að fundinum með sérfræðihópi barna og fjórir ráðherrar nýrrar ríkisstjórnar hittu hópinn. Auk félags- og húsnæðismálaráðherra ræddu fjármála- og efnahagsráðherra, innanríkisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra við börnin.

 UNICEF fagnar frumkvæði stjórnvalda að bera sig eftir röddum barna

UNICEF á Íslandi fagnar því frumkvæði stjórnvalda að bera sig eftir röddum barna, sérstaklega í viðkvæmum málaflokki sem þessum. Í 12. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem lögfestur var hér á landi í febrúar 2013, er kveðið á um réttindi barna til að tjá sig um málefni er þau varða. Hún er jafnframt ein af grundvallarreglum sáttmálans. Börnin sem aðstoðuðu UNICEF á Íslandi við gerð framangreindrar skýrsluhafa öll verið beitt ofbeldi og sótt meðferð í Barnahúsi. Reynsla þeirra og einstök sýn var ómetanleg við vinnslu skýrslunnar og allri eftirfylgni við þær tillögur sem í henni komu fram.

 

UNICEF á Íslandi lýsir yfir ánægju sinni með að ný ríkisstjórn setji baráttuna gegn ofbeldi á börnum í slíkan forgang og sýni svo skýran vilja til úrbóta í málaflokkinum.

SHARE